01.11.1982
Sameinað þing: 10. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (178)

Umræður utan dagskrár

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Verðtryggingarstefnan hefur ekki siglt í strand. Það er ríkisstj. í landinu sem hefur siglt í strand. Það er ríkisstj. í landinu sem hefur ekki framkvæmt lög og það er það sem hefur brugðist. Það er engan dóm hægt að fella um verðtryggingarstefnuna sjálfa vegna þess að henni hefur aldrei verið framfylgt. Og muni menn eitt. Meginforsendur með fjárlagafrv. í fyrra, fluttu af hæstv. fjmrh. Ragnari Arnalds með þjóðhagsáætlun, voru að innistæður í bankakerfinu hefðu aukist og þar væri að finna hið mikla og aukna jafnvægi í efnahagsmálum, sem var rétt. Það var hins vegar ljóst fyrir 12–14 mánuðum, að þegar ríkisstj. bilaði á þessu, þegar hún gafst upp, þegar fór að skilja á milli launamannalánanna og fyrirtækjalánanna, látnar sérreglur gilda um fyrirtækjalánin, rekstrarlán eða afurðalán, þá var þessi ríkisstj. efnislega búin. Það hefur gengið eftir og það hefur komið í ljós. Þetta er ekki dómur um verðtryggingarstefnuna, þetta er dómur um ónýta ríkisstj. og það er allt, allt annað mál. Það er auðvitað kjarni mátsins, sem upp úr stendur þessum ummælum og umr., að eini maðurinn sem hér hefur lýst stefnu og skoðunum er hv. 2. þm. Reykn. Ég vil taka undir það með hæstv. ráðh., að af inngangserindi hv. 1. þm. Reykn. var ekki nokkur leið að sjá hvort hann var að mæla með eða móti tillögum Seðlabankans. Ríkisstj. er alveg eins. Það er enginn munur þar á.

Kjarni alls þessa máls er auðvitað sá, að verðtryggingarstefnan er ekki fyrst og fremst pólitísks eða efnahagslegs eðlis, hún er siðferðislegs eðlis. Það er réttur mannsins, hver sem hann er, barn eða gamall eða hver sem hann er, og leggur fjármuni inn í bankakerfið, að það sé tryggt að hann fái þá til baka á réttu verði. Þetta og þetta eitt er kjarni málsins. En ríkisstj. spilar í ónýtu lagakerfi í þessu landi, eins og við öll vitum hér inni að það er. Vitaskuld er það svo, að í lögum um efnahagsmál, 33. gr. laga frá 1979, sem stundum eru kölluð Ólafslög, segir ljóslega hvernig að skuli fara. — Því hefur verið breytt og það er miðað við árið 1981. — Hvað segir í þessari lagagr.? Og ég vil sérstaklega biðja hæstv. bankamálaráðh. að hlusta. Mín trúa er sú, að dómurinn, sem hann á eftir að fá fyrir sinn feril sem bankamálaráðh., sé að hann hafi verið maður sem framfylgdi ekki lögum. Ég nota ekki stærri eða sterkari orð þar um.