02.11.1982
Sameinað þing: 11. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í B-deild Alþingistíðinda. (179)

37. mál, endurskoðun á lögum um fuglafriðun

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Lög um fuglafriðun eru nú úrelt orðin, en mjög mikil vinna hefur verið innt af höndum varðandi endurskoðun á þessum lagabálki og hefur frv. á grundvelli þeirrar endurskoðunar verið lagt fram á Alþingi nokkrum sinnum, síðast fyrir tveim árum. Þá bárust mjög viðamiklar aths. frá ýmsum aðilum og við, sem þá áttum sæti í menntmn. Nd., töldum eðlilegt að sú nefnd sem hafði unnið að samningu frv. fengi aths. til athugunar og ynni úr þeim, en síðan yrði nýtt frv. lagt fram á Alþingi á grundvelli þeirrar niðurstöðu, sem n. hefði komist að, og enn fremur með hliðsjón af breyttum kringumstæðum. Það hefur að vísu áunnist á síðasta þingi, að refsirammi laganna var færður undir almenn hegningarlög, þannig að leiðrétting hefur fengist að því leyti, en á hinn bóginn er nauðsynlegt að taka almenn ákvæði fuglafriðunarlaganna til nýrrar skoðunar og er fsp. þessi flutt til þess að ganga úr skugga um, hvort hæstv. menntmrh. hugsi sér að leggja fram frv. um fuglafriðun nú á þessu þingi. Eins og fsp. er orðuð á þskj. 37 er hún svohljóðandi:

„Hvenær er þess að vænta, að frv. til l. um fuglafriðun verði lagt fram á Alþingi?“