16.02.1983
Neðri deild: 41. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2075 í B-deild Alþingistíðinda. (1793)

116. mál, grunnskóli

Frsm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. menntmn. Nd. um frv. til l. um breyt. á lögum um grunnskóla, sem liggur hér fyrir á 119. þskj., 116. mál þingsins.

Þetta frv. var borið fram á síðasta vorþingi, en hlaut þá ekki afgreiðslu, og málið er nú endurflutt. Með þessu frv. er lagt til að tekin séu inn í gildandi grunnskólalög ákvæði varðandi fræðslu um áhrif af neyslu áfengis og annarra ávana- og fíkniefna. Ákvæði um þessa fræðslu er hvergi að finna í grunnskólalögunum sjálfum, en eigi að síður er skólanum gert skylt að annast þá fræðslu.

Nefndin hefur fjallað um þetta frv. og orðið sammála um að mæla með samþykkt þess. Ég leyfi mér hins vegar, herra forseti, vegna þess að hæstv. dómsmrh. er staddur hér, að minna á, að við þóttumst rekast á það í nefndinni að það er talað um — og síðast áðan í máli hæstv. dómsmrh. — áfengislög frá 1969, sem eru endurskoðuð löggjöf frá 1954. Við fengum hins vegar ekki betur séð — og biðjum um að það verði athugað — en löggjöfin frá 1954 hafi aldrei verið úr gildi felld. Ég hefði viljað spyrja hæstv. ráðh. hvort hægt sé að fella fjölmargar breytingar á löggjöf inní lög frá 1954 og kalla það lög frá 1969 án þess að eldri flokkurinn sé úr gildi felldur. Ég þekki hreinlega ekki nógu vel til til þess að fullyrða um þetta, en ég sá ekki betur en svona væri. Ég veit ekki betur en t. d. núgildandi reglugerð eigi stoð í lögum frá 1954. — En þetta er nú tækniatriði sem ég vil nota tækifærið til að minna hér á.

Hv. menntmn. Nd. var einhuga um að mæla með samþykkt frv. þess sem hér er á dagskrá.