17.02.1983
Sameinað þing: 53. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2080 í B-deild Alþingistíðinda. (1802)

169. mál, hljóðvarpsskilyrði eystra

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég skal reyna að svara þessari fsp. eftir því sem ég hef getað kynnt mér þetta efni í samtölum við Ríkisútvarpið. Eins og ég veit að hv. fyrirspyrjandi veit og alkunna er eru slæm hlustunarskilyrði fyrir langbylgjusendingar vandamál víða á landinu og líklega hvergi verri en einmitt á Austfjörðum. Þessi erfiðu skilyrði til móttöku langbylgjusendinga koma fram í því fyrst og fremst að sterkar erlendar stöðvar trufla veikar langbylgjuútsendingar frá Eiðum. Þessar sterku útlendu stöðvar yfirgnæfa Eiðastöðina sem hefur náttúrlega alltaf verið of veik vafalaust.

Á seinni árum hefur hins vegar verið stefnt að því að gera hlutstendur sem óháðasta langbylgjunni með því að koma upp FM-dreifikerfi. Ef við horfum til Suðurfjarðanna og til Suðausturlandsins, þá eru komnar núna FM-stöðvar á Djúpavogi og í Álftafirði, í Lóni, á Almannaskarði, Höfn í Hornafirði og á Borgarhöfn í Suðursveit. Þetta eru þær FM-stöðvar sem þegar eru komnar upp þarna á Suðurfjörðum og á Suðausturlandinu. Ég vil líka upplýsa að í næsta mánuði, þ. e. í marsmánuði, er ákveðið að setja upp tvær nýjar FM-stöðvar á syðri fjörðunum á Austfjörðum, þ. e. á Hafnarnesi við Fáskrúðsfjörð og í Staðarborg í Breiðdal.

Hv. fyrirspyrjandi ræddi hér um FM-kerfið. Það er náttúrlega illt ef svo er að FM-kerfið hafi ekki nýst. Á því hef ég í rauninni ekki fengið nemar frekari skýringar en komið hafa fram í viðtölum hv. fyrirspyrjanda við Ríkisútvarpið eða þá menn sem sjá um framkvæmd þessara mála. Ég held þó að það sé mjög brýnt að útvarpsnotendum lærist að nota FM-kerfið, þ. e. að eiga viðtæki sem hæfa. Sums staðar mun það mjög nauðsynlegt að nota útiloftnet við móttöku FM-útvarps, eins og tíðkast um móttöku á sjónvarpi. Það er því náttúrlega margs að gæta, skilst mér, í þessu sambandi þó að ekki sé ég tæknifróður maður. Það skiptir ákaflega miklu máli að hafa allan útbúnað fyrir móttöku á FM-útvarpi í sem bestu lagi.

Eftir því sem mér skilst mun í þessu tilfelli fyrst og fremst hafa verið um það að ræða að langbylgjan hafi brugðist eins og oft áður og FM-sendingar ekki nýst af einhverjum orsökum, annaðhvort af því að FM-stöðvarnar hafi ekki verið nógu margar eða nærri þeim stöðum þar sem truflananna gætti, ellegar þá hitt að viðtökubúnaður fyrir FM-sendingar er ekki nógu góður. Sem sagt, viðtækin séu ekki nógu góð eða loftnetin ekki nógu vel úr garði gerð.

Það er auðvitað ljóst að Ríkisútvarpinu ber að tryggja hlustendum sem best hlustunarskilyrði með nothæfu dreifingarkerfi. Ég legg að sjálfsögðu mikla áherslu á það við forráðamenn Ríkisútvarpsins að fylgjast sem best með veilum á útsendingarkerfinu og haga uppbyggingu þess svo að úr þeim verði bætt. Hins vegar verður ekki hjá því komist að brýna fyrir útvarpsnotendum að gera ráðstafanir að sínu leyti sem tryggi að þeir fái notið þeirra endurbóta sem komnar eru eða unnið er að á dreifikerfinu.

En sem sagt, svar af þessu tagi er vafalaust ekki alfullkomið, það skal ég fúslega viðurkenna, en þetta er niðurstaðan af því sem ég hef að upplýsa eftir að hafa ráðfært mig við starfsmenn Ríkisútvarpsins, þá sem um þetta fjalla. Og kannske er meginatriðið í þessu svari að skýra frá því að í marsmánuði, í næsta mánuði verða settar upp tvær nýjar FM- stöðvar á suðurfjörðum Austfjarða, þ. e. á Staðarborg og á Hafnarnesi.

Ég vona, herra forseti, að þetta svar geti dugað, a. m. k. í bili.