17.02.1983
Sameinað þing: 54. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2098 í B-deild Alþingistíðinda. (1809)

68. mál, endurskoðun siglingalaga

Frsm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. atvmn. varðandi þál. um rannsókn og hagnýtingu surtarbrands á Vestfjörðum. Nefndin hefur tekið til meðferðar þáltill. og mælir með því að hún verði samþykkt óbreytt. Undir þetta rita allir nefndarmenn.

Það er í sjálfu sér ekki þörf á að hafa hér mörg orð um. Þessi till. er sjálfsögð og fyrir liggur að Orkustofnun hefur ákveðið að hefja rannsóknir á surtarbrandi. Samþykkt þessarar till. yrði til að hnykkja enn betur á þeirri ákvörðun og jafnframt beina þeirri rannsókn til þess svæðis á Íslandi þar sem orkuskortur er hvað mestur. Eins og sagt er hér gæti þetta e. t. v. — og vonandi orðið til þess að upphitunarkostnaður á Vestfjörðum gæti lækkað. M. a. yrði þetta mjög álitlegur orkugjafi fyrir kyndistöðvar, en Orkubú Vestfjarða hefur þegar komið upp nokkrum kyndistöðvum á stærstu stöðunum.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en vænti þess að þingið samþykki þessa þáltill.