21.02.1983
Efri deild: 46. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2101 í B-deild Alþingistíðinda. (1816)

187. mál, fólksflutningar með langferðabifreiðum

Helgi Seljan:

Herra forseti. Það sem ég vildi um þetta mál segja hefði kannske átt að koma fram strax við 1. umr. Ég reikna ekki með að gera við það neinar veigamiklar athugasemdir, en eigi að síður koma hér með örfá orð til íhugunar og nokkurrar aðvörunar um leið gagnvart þessu máli. Það er ekki að ástæðulausu því að fyrir rúmu ári áttum við Austfirðingar í miklum vanda vegna okkar sérleyfishafa. Þeir hættu þá akstri um sinn þar sem þeim þótti sinn hlutur ekki nægilega góður við úthlutun leyfa á svæðinu og í samgöngum við svæðið, að vísu innan fjórðungsins allsæmilegur, en milli landshluta hvergi nærri sá sem þeir vildu og töldu eðlilegan sem rétt heimamanna.

Þessi mál leystust á farsælan hátt í fyrra, m. a. í ljósi þess að ný löggjöf væri í undirbúningi um skipulag slíkra fólksflutninga. Það fór ekki á milli mála að Austfirðingar fundu glögglega hve mikið gildi þessara samgangna er þegar þær duttu niður þó að óneitanlega hafi svo farið þar eins og annars staðar að menn nota einkabílinn óhóflega mikið og til bifreiða sérleyfishafanna sé gripið eingöngu þegar samgöngur eru sem allra verstar. Þrátt fyrir allt kvein manna um bensínverð og okur á umferðinni vilja menn f. d. frá ýmsum stöðum á Austurlandi frekar skjótast með einn farþega á einkabíl upp á Egilsstaðaflugvöll með ærnum kostnaði en ferðast gegn mjög hóflegu gjaldi með sérleyfihöfum. Ég óttast það svolítið að með þeim ákvæðum sem nú er í þessu frv. sé í raun og veru ennþá þrengt að og í raun og veru gert ennþá erfiðara fyrir heimamenn að nýta sér sitt svæði. Ég er ekki viss um að það sé ætlunin, en ég er býsna hræddur um að svo verði í reynd. Ég held líka að sú hætta fari vaxandi að þeir stærri og kröftugri í þessum hópi verði alls ráðandi og þeir smærri hætti þá um leið. Afleiðingin af því verði svo minni þjónusta á þessum svæðum.

Ég tek sem dæmi 7. gr. frv. með sinum tvöföldu tryggingum fyrir því að þeir sitji fyrir sem áður hafa verið með þessi sérleyfi. Vissulega kunna að vera full rök fyrir því, en þarna eru í raun og veru tvöföld höft á sett. Annars vegar af meiri hl. sveitarstjórnarinnar tryggilega o síðan attur sérstaklega varðandi endurveitinguna. Ég sem sagt óttast nokkuð að þarna sé verið að setja þröskuld um of og geri við það vissa athugasemd. Ég hefði t. d. viljað sjá það beint inni í þessum lögum — kannske er of seint að segja það nú þegar nefnd hefur fjallað um þetta — að heimamenn hefðu forgang að þessum sérleyfum inn og út úr sínum byggðarlögum ef þeir að öllum öðrum skilyrðum uppfylltum sjá sér fært að gera þetta. Sveitarstjórnirnar geta gripið inn í samkv. 7. gr., en á það eru þó settar vissar skorður.

Ég sé líka að kvaðirnar eru í 6. gr. um kaupskyldu þess sem við tekur. Það er reyndar ekkert nýtt. Þetta ákvæði hefur verið áður svipað í lögum. En ég er svolítið hræddur við kaupskyldu af þessu tagi. Viðkomandi ráðh. er ekkert öfundsverður af þeim vanda sem hann er þar settur í, þó að vissulega sé þess kostur, í lokin að kveðja til dómkvadda menn til að meta þetta. Þar getur maður hlaupið frá rekstri síns sérleyfis með við skulum segja bílakost sem er vægast sagt orðinn lélegur. Engu að siður er hinum nýja sérleyfishafa gert skylt að kaupa þær eignir af þeim sem áður var með sérleyfið, ef hann vill fá það.

Ég get ekki neitað því að mér sýnist þetta um of samið í anda þeirra stóru aðila sem fyrir eru og grónir standa í faginu. Það er ekkert nema gott um það að segja að þeir séu a. m. k. jafn réttháir hinum. En mér finnst hagsmunir einstakra aðila, sem gegna mikilvægu þjónustuhlutverki eða geta gegnt í heimahéraði, nokkuð fyrir borð bornir í frv.

Ég sé líka í hendi mér — það hefur reyndar verið áður og þetta frv: þess vegna engin breyting þar á, að það er auðvitað unnt að braska með sérleyfi þrátt fyrir allt. Það er unnt að gera bara hreinlega með því að selja fyrirtækið sem hefur sérleyfið. Vitanlega er unnt að koma því þannig fyrir. Það er ekkert nýtt heldur, en vissulega hefði verið gott að fá reistar við því meiri skorður en eru. Ég sé a. m. k. enga hindrun þess að þetta geti átt sér stað, það sé bara hægt að selja fyrirtækið, sem hefur tiltekið sérleyfi, og það haldi síðan áfram sínum rekstri. Ég sé ekki hindrun þess.

Einni fyrirspurn vildi ég beina til hv. frsm. Ég hef kannske ekki lesið þetta alveg nægilega vel, en í gömlu sérleyfislögunum var að finna skylduákvæði um póstflutninga. Það ákvæði finn ég ekki þarna lengur. Ég veit að margir sérleyfishafar hafa kvartað undan því að vera bundnir því skylduákvæði, en þá spyr maður sjálfan sig: Hver annar gæti þá í raun og veru annast þessa póstflutninga ef sérleyfishafarnir neituðu alfarið að gegna þeim? Ég sé ekki í fljótu bragði hvernig á að koma pósti skaplega á milli, ef þetta skylduákvæði er afnumið, sem ég kem ekki auga á þarna.

En aðalatriðið, sem ég vildi benda hér á að fenginni reynslu í fyrra austan að, er að ég tel að réttur heimamanna á hverjum stað sé hvergi nærri tryggður sem skyldi. Mér finnst einhvern veginn að svo kunni að fara, jafnvel þó ætlunin sé önnur samkv. grg., að þetta leiði til þess að hagur þeirra þrengist enn.

Menn munu sjálfsagt segja að þessar almennu athugasemdir hefðu átt að koma fram við 1. umr. og að þeim hefði átt að fylgja eftir með vissum brtt. við frv., sem tryggðu betur rétt heimamanna en raun ber vitni. Ég hef hins vegar ekki séð á því beinan flöt. Um þetta mál hefur orðið samkomulag í þeirri nefnd sem um það hefur fjallað og ég sé ekki beinan tilgang í því að hreyfa við málinu á þessu stigi. Það er kannske rétt fyrst og fremst að láta á það reyna hvernig þessi lög koma til með að nýtast í framtíðinni, hvort þau verða til þrengingar, sem ég er hræddur um, eða hvort þau þjóna því markmiði sem hæstv. samgrh. lýsti, að þarna væri í raun og veru verið að auka möguleikana fyrir heimamenn og aðra þá sem vildu notfæra sér þennan rétt og um leið að bæta þjónustuna.

Þetta vildi ég aðeins að kæmi fram hér. Það sem gerðist hjá okkur í fyrra fyrir austan leiddi til ástands sem var illt undir að búa og þó það mál leystist þá farsællega m. a. fyrir sameiginlega milligöngu okkar þm. og annarra sem að þessum málum komu, þá urðu út af þessu mikil leiðindi, mikil vandræði og hefðu getað orðið enn frekari. Þessi mál geta alltaf þróast á þann veg að samgöngur stöðvist. Og vissulega er vá fyrir dyrum í þessum dreifðu byggðum ef sérleyfishafar af einhverjum ástæðum eru svo óánægðir að þeir telja sig ekki geta starfað við þær aðstæður sem þeim er boðið upp á.

Aðeins þetta, hér við 2. umr. þessa máls. Ég veit ekki hvað n. hefur skoðað þetta grannt núna á þeim stutta tíma sem hún hefur haft málið til meðferðar. Ég efast ekki um að það er meining allra hér að ekki verði þröngvað kosti þeirra aðila heima fyrir sem eru kannske ekki mikils megnugir heldur þvert á móti, en þá þurfa menn kannske að átta sig örlítið betur á því hvernig það verður betur tryggt en þarna er gert.