02.11.1982
Sameinað þing: 11. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

37. mál, endurskoðun á lögum um fuglafriðun

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég ætlaði aðeins að þakka hæstv. menntmrh. fyrir þá ákvörðun hans að leggja ekki frv. það sem hefur verið að þvælast milli þd. hér á liðnum árum til grundvallar setningu nýrra laga um fuglafriðun og fuglavernd, heldur að láta vinna upp nýtt frv. á skynsamlegum forsendum. Það hefur áður verið tekið hér fram þrásinnis, þegar mál þetta hefur borið á góma, að frv., sem ekki hefur fengist afgreiðsla á í gegnum þingið, var fyrst og fremst grundvallað á hagsmunum æðarræktarbænda hér á landi og starf þeirra samtaka er góðra gjalda vert. En frv. um fuglafriðun og fuglavernd var í heild hlaðið ágöllum, vitleysum í mörgum tilfellum og vanhugsun að ýmsu öðru leyti. Ég hygg að það sé nú borin von að hægt verði að leggja fram nýtt skynsamlega grundað frv. fyrir næstu áramót, a.m.k. vildi ég gjarnan að betur væri staðið að undirbúningi þess en svo, að við gætum vænst þess að fá slíkt frv. fram á þessu ári, jafnvel því næsta. Það er orðin bráð nauðsyn að við fáum löggjöf um skotveiði á landi hér í nánum tengslum við friðunarlöggjöf, þar sem eðlilega verði staðið að friðun fuglategunda, umgengni um varplönd og þó ekki síst að kveðið verði með skynsamlegum hætti á um almannarétt á landi hér til veiðiskapar í tengslum við,hin fyrri vandamál.