21.02.1983
Neðri deild: 42. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2112 í B-deild Alþingistíðinda. (1831)

195. mál, viðmiðunarkerfi fyrir laun

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Það hefur vakið nokkurn úlfaþyt að Alþb. tók mjög eindregna afstöðu gegn frv. sem hér er á dagskrá. Ég vil leyfa mér strax í upphafi máls míns að benda á 1. ákvæði í 2. lið um efnahagsmál í stjórnarsáttmála núv, ríkisstj., en hann hljóðar svo, með leyfi forseta:

Ríkisstj. mun leita eftir samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins um niðurstöður í kjarasamningum, sem geta samrýmst baráttunni gegn verðbólgu og þeirri stefnu stjórnarinnar að jafna lífskjör og bæta kjör hinna lakast settu í þjóðfélaginu. Ríkisstj. mun hins vegar ekki setja lög um almenn laun nema allir aðilar að ríkisstj. séu um það sammála, enda sé haft samráð við samtök launafólks.“

Þetta er sem sé ákvæði í stjórnarsáttmála. Þá held ég að hljóti að vera nokkuð ljóst hvers vegna lítil ástæða sýnist úr þessu að telja sig til stuðningsmanna þeirrar ríkisstj. sem þannig fer með þá sáttmála sem hún gerir.

Það frv., sem hér um ræðir og stjórnarsáttmálinn er svo brotinn með, fjallar þess utan um einmitt það sem ríkisstj. lofaði að gera ekki. Það fjallar einmitt um skerðingu á launum almennra launþega. Megininntak þessa frv. er kjaraskerðing. Það liggur ljóst fyrir, að þetta frv. gerir sáralítið eða ekki neitt til að draga úr verðbólgu. Ég vil taka undir það, sem hv. þm. Karvel Pálmason sagði áðan, að hér er auðvitað enn einu sinni höggvið í sama knérunn, gripið til sömu íhaldsaðgerðanna, enda ekkert einkennilegt. Það er nú einu sinni íhald sem veitir þessari ríkisstj. forstöðu og af einhverjum ástæðum hafa menn gleymt því öðru hverju.

Það hefur ekki sætt andstöðu að nýr vísitölugrunnur verði tekinn upp, hvorki verkalýðshreyfingarinnar né Alþb. En hingað til hefur það strandað á afstöðu atvinnurekenda, sem vilja nýja og aukna kjaraskerðingu. Þetta frv. tekur í því efni einmitt upp sjónarmið Vinnuveitendasambandsins. Hér er gert ráð fyrir að í nýju vísitölukerfi verði skerðingar verulega auknar frá því sem nú er, þar sem óbeinir skattar og orkuverð eru nú tekin út úr vísitölu og þar af leiðandi ekki bætt með launahækkunum. Ofan á allt annað er lagt til að lenging verði á verðbótatímabili úr þremur mánuðum í fjóra. Það gæti auðvitað komið til greina ef annað fylgdi í kjölfarið. En ofan á það skal nú þegar 1. mars skerða vísitöluhækkanir á laun og ég hlýt að spyrja: Hafa hinir lægst launuðu í þessu landi efni á að missa þá launahækkun nú um mánaðamótin? Hafa einstæðar mæður, sem verða einar að vinna fyrir fjölskyldum sínum, efni á því? Ég segi nei. Almennt launafólk, sem ekkert hefur nema hin raunverulegu laun, og ég skal koma ofurlítið að því síðar því að annað viðgengst auðvitað líka, hefur ekki efni á þessari launaskerðingu núna.

Verðbólgan er nú um 5% á mánuði. Það hljóta allir að sjá að það verður dýrt fyrir launafólk að lengja biðtímann eftir verðbótum um einn mánuð. Nægir að nefna t. d. fólk sem nú þarf að standa skil á afborgunum af íbúðum sínum. Það liggur alveg ljóst fyrir að almenn laun skerðast um 8% á milli áranna 1982 og 1983. Þannig mætti lengi telja um efnisatriði þessa frv., sem eru auðvitað eins og ég sagði áðan ekkert annað en það að vaða enn einu sinni ofan í vasa launafólks. Ofan á allt annað er verið að tala um að þetta sé liður í efnahagsaðgerðum. Hvers konar efnahagsaðgerðir eru það að ganga alltaf að launum landsmanna, án þess að gera nokkurn skapaðan hlut jafnframt?

Um árabil hafa fjölmargir aðilar í þessu landi bent á að það er ótal margt annað sem þarf að gera. Við þekkjum svo sem öll þann söng, en ég ætla samt að leyfa mér að fara ofan í nokkur efnisatriði þess rétt eina ferðina.

Allt okkar þjóðfélag er rekið sem þensluþjóðfélag. Fjárfesting er hér óhófleg og ekkert gert til þess að spyrna þar við fæti. Menn virðast geta, bæði einstaklingar og atvinnurekendur, vaðið hér í bankana, fengið þar hömlulaus lán án þess að nokkuð liggi fyrir um að möguleiki sé að að greiða þessi lán til baka. Þannig hafa Íslendingar lært smám saman — auðvitað er það afleiðing óöryggis í efnahagsmálum — að fleyta sér áfram á lánum. Allt þjóðfélagið hjálpar til við þetta. Sí og æ eru fundnar nýjar leiðir til að leyfa fólki að eyða meira en það aflar. Há prósenta allra bankalána er lán sem verslunareigendur fá til að lána fólki svo að það geti keypt hluti sem það á ekki fyrir. Verslunarvíxlar eru orðinn verulegur hluti af því sem fólk notar sem gjaldmiðil í verslunum. Síðan kom ný snilli til, sem eru kreditkort. Þar geta menn líka fengið ofurlítið lánað svo að þeir geti örugglega keypt meira en þeir hafa efni á. Að þessu er stutt. Auglýsingar hvetja fólk til að kaupa og kaupa og eyða og eyða. Ríkisfjölmiðillinn, sjónvarpið/útvarpið, hjálpar til við þetta. Fólk er ruglað í ríminu þangað til það er búið að gleyma þeirri einföldu hagfræði, sem hver einasta miðlungs húsmóðir hefur um ára- og aldabil orðið að horfast í augu við, að við verðum að eyða eftir efnum. Enginn í þessu þjóðfélagi gerir það lengur.

Hv. alþm. ræða hér eins og ævinlega mjög — hvað á ég að leyfa mér að segja — afstrakt um þessi efni. Menn ryðja hér út úr sér vísitöluhugleiðingum, en allar eru þessar umr. óralangt frá þeim veruleika sem við fólki í þessu landi blasir. Menn ræða hér spaklega um neyslukönnun og að miða skuli vísitölu við neyslukönnun. Í landi þar sem verðlagseftirlit er svo til ekkert. Ég vil leyfa mér að taka svo djúpt í árinni án þess að lasta þar með starfsmenn verðlagsstjóra sem eru lítill hópur og ráða engan veginn við það hlutverk sem þeim er falið.

Þá hlýt ég að spyrja: Hvernig verðlag er miðað við þegar neyslukönnun er gerð? Ég geri ráð fyrir að við þrjár kvenpersónur sem hér teljumst til þm. gætum sagt öðrum hv. þm. hvernig er að versla á Íslandi. Vita t. d. hv. þm. að einn haus af blaðsalati, sem er nauðsynlegur næringarforði fyrir börn landsins, kostar frá 80 kr., og ég endurtek 80 kr., og allt upp í 160 kr.? Ég uppgötvaði í síðustu viku þessi tvö verð, sem hvoru tveggja eru með öllu ósæmileg, og hringdi í verðlagsstjóra og spurði hverju þetta sætti. Hér er um tollfrjálsa vöru að ræða, innflutta. Jú, hann viðurkenndi að hann væri nýbúinn að láta gera samanburð á verðlagi á ávöxtum og grænmeti í Kaupmannahöfn og Reykjavík og komst að sjálfsögðu að því, að mismunurinn er ýmist fimmfaldur eða tífaldur. Með allri sanngirni, þegar hugsað er til flutningskostnaðar og rýrnunar, nær þetta auðvitað ekki nokkurri átt. Einhver í þjóðfélaginu græðir mikla peninga á þessum innflutningi. Og eitt get ég sagt ykkur, hv. þm. Einstætt foreldri með meðallaun, sem á að sjá börnum sínum farborða, kaupir hvorki ávexti né grænmeti handa þessum börnum. Það er töluvert alvarlegt mál, vegna þess að íslenskt fólk, og íslensk börn ekki síst, þarf á þessari vöru að halda.

Ég gæti talið upp fyrir hv. þm. svona dæmi. Sex appelsínur kosta 67 kr. — Ég sé að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson brosir, en ég bið hann um að spyrja konuna sína í kvöld hvort þetta muni ekki vera rétt. — Sex appelsínur kosta 67 kr. í Kaupmannahöfn kostar appelsína af svipaðri stærð 1 kr. Þetta er íslenskur veruleiki. Svo geta menn rausað hér um efnahagsaðgerðir. Fyrir hvern? Handa hverjum? Þetta frv. til l. um nýtt viðmiðunarkerfi eru engar efnahagsaðgerðir handa fólkinu í landinu. Það er áreiðanlega handa einhverjum öðrum.

Það er nákvæmlega sama hvar við grípum niður. Alli venjulegt launafólk í landinu veit líka að núv. ríkisstj. hefur ekki lyft litla fingri til að leiðrétta það hróplega óréttlæti sem á sér stað í skattgreiðslum landsmanna. Auðvitað er þetta nýja frv. enn ein skerðingin á launum þess fólks sem ber þetta þjóðfélag uppi. Þeir sem raunverulega eiga fjármagnið eða hafa það að láni, — innistæður lífeyrisþeganna og sparsams fólks í landinu, sem gegnum árin hefur reynt að leggja til hliðar þó ekki væri nema fyrir útförinni sinni, — það eru ekki þeir sem greiða skatta í þessu þjóðfélagi. Það erum við hin, launþegarnir í landinu, sem önnumst það eingöngu. Við höfum gert tilraun með skattaeftirlit. Það er augljóst mál hversu mikill áhugi er á þeirri stofnun. Hún er auðvitað illa haldin með mannskap. Eftir því sem skattrannsóknarstjóri ríkisins hefur tjáð mér hafa þeir fundið dæmi um stófelld skattsvik allt upp í 300 þús. Bandaríkjadollara. Slíku máli er vísað til ríkissaksóknara að sjálfsögðu. Þar sofnar það í kerfinu um árabil, en sá sem ásakaður er um þessi skattsvik heldur áfram að reka svona viðskipti sín, ef hægt er að kalla það svo, og þannig gengur þetta koll af kolli.

Ég get ekki stillt mig um að segja hv. alþm. smágamansögu úr hversdagslífinu. Hér birtist í blöðum bæjarins snemma í síðustu viku frétt um að Landsbanki Íslands hefði orðið að kaupa á uppboði flugvélargarm, sem vafasamt væri að gæti yfir höfuð komist á loft, og lagði út fyrir henni 120 þús. kr. Og það veitti ekki af því því að á henni hvíldu 4.8 millj. — Heyrðu menn þessar tölur? Hæstv. fjmrh. líka? Viðskrh. er víst ekki viðstaddur. — Það skal tekið fram, sem var til að kóróna endemin, að fyrrv. framkvæmdastjóri fyrirtækisins sem flugvélina átti situr í bankaráði Landsbankans. (HBl: Er hann í Alþb.?) Nei, svo er nú guði fyrir að þakka, herra skrifari.

Þann sama dag kom það fyrir undirritaðan auman alþm. að hafa skrifað ávísanir fyrir nokkrum hundruðum meira en launin gáfu tilefni til og fékk þá samstundis grænan miða og 67 kr. sekt af hverjum hundraðkalli. Umræddur alþm. hafði satt að segja ekki voðalegar áhyggur af þessu, þar sem laun eru nú væntanleg mjög fljótlega. En tveim dögum seinna var hringt og sagt að nú væri komið að lokun á heftinu. Umræddur alþm. hefur skipt við þennan sama. banka í 15 ár, lagt þar inn hvern einasta eyri sem inn hefur komið, en það átti að fara að loka heftinu. Mér skal ekki vera launung á því, að ég hringdi í umræddan bankastjóra og sagði: Það skalt þú gera ef þú þorir.

Þetta grín viðgengst í landinu, herra bankaráðsmaður, hv. þm. Albert Guðmundsson, sem ég sé að gengur í salinn. Seta þingmanna í bankaráðum er ófyrirgefanleg. Þannig vinnur bankakerfið á Íslandi. Og maður hlýtur að spyrja: Fyrir hvern er bankakerfið? Er bankakerfið bara fyrir spekúlanta sem fá lánaða peninga til að fara illa með, eins og þeir gera flestir, eða eiga íslenskir bankar að veita mér og öðrum þegnum þessa þjóðfélags einhverja þjónustu? (Gripið fram í: Annar bankaráðsmaður er í forsetastól.) Herra forseti hlýðir á mál mitt með athygli, sé ég.

Við getum haldið svona áfram endalaust. Ég er hrædd um að ávísanaheftinu mínu og annarra launþega þessa lands yrði lokað fyrr en hefti mannsins sem getið er í nýlegri grein í einu af vikublöðum bæjarins. Það stóð: „Ávísanahefti mannsins var lokað þegar skuldin var 700 þús.“ Er furða þó að maður spyrji: Hvers konar efnahagslíf er þetta? En það eru auðvitað þessir sömu menn sem borga ekki skatta. Það gerum við hin.

Stjórnmálamenn eru snillingar í að þvæla málum fyrir landsmönnum þangað til enginn botnar neitt í neinu. Einhvers staðar heyrði ég um daginn einhvern hér segja, að með því að ná niður vísitölunni minnkuðu vextir fólks sem skuldaði mikið vegna húsbygginga. Ef ég er ekki þeim mun verri í reikningi, og ég vænti þá þess að einhver leiðrétti mig, er stór hluti skulda manna vegna íbúðabygginga ýmist verðtryggður samkv. lánskjaravísitölu eða byggingarvísitölu. Nú vill svo til að lánskjaravísitala er að 2/3 byggð á framfærsluvísitölu, að 1/3 á byggingarvísitölu. Framfærsluvísitala er reiknuð eftir veruleika dagsins. Hvað kostar að reka fjölskyldu? Byggingarvísitala hækkar jafnt og þétt eftir því sem byggingarvörur hækka. Það þýðir auðvitað að lánskjaravísitala og byggingarvísitala hækka stöðugt og það er ekkert gert í því að lækka þær. Ef kaupgjaldsvísitala er hins vegar lækkuð sé ég ekki annað en að bilið lengist enn milli skulda manna og tekna. (AG: Vond er ríkisstjórnin.) Ja, vond er ríkisstj., segir stuðningsmaður hennar Albert Guðmundsson. Undir það skal ég fúslega taka. Hún er ekki nógu góð. En ég heyri á honum að hann hefur ekkert við þennan útreikning að athuga. En þetta eru tiltölulega einfaldar staðreyndir, sem er enginn vandi að segja fólki. (AG: Ég er ekki aðili að málefnasamningnum.) Þögn er stundum sama og samþykki, hv. þm. (Gripið fram í.) (Forseti: Það er einn í ræðustól.) Já, það er kórrétt.

Nei, hv. þm. Það er svo ótal margt sem hér mætti ræða. Fyrr í vetur gerði ég að umtalsefni byggingarmál Seðlabanka Íslands. Á sama tíma og menn ætla að vaða ofan í vasana á launþegum, sem margir hverjir eiga fullt í fangi með að sjá sér farborða, er haldið áfram með fullum hraða að byggja hér höll yfir Seðlabanka Íslands, sem var, eins og einhver minntist á hér í þingsölum ekki alls fyrir löngu, einu sinni lítil deild uppi á lofti í Landsbankanum. Hvenær eru landsmenn spurðir? Til hvers er ráðist í svona byggingu? Hvað verður betra þegar hún er risin? Hvar finna þeir muninn sem borga þetta, sem eru auðvitað, þegar öllu er á botninn hvolft, enn launþegar? Hverjum líður betur? Hvað fá menn betur afgreitt. Hvað fá þeir fyrir peningana sína? (Gripið fram í: Spurðu Guðmund Hjartarson). Ég hugsa að svarið stæði jafnt í Guðmundi Hjartarsyni sem öðrum, vegna þess að það er ekkert svar við þessu. Það er engin nauðsyn á þessari byggingu.

Það var heldur engin nauðsyn á að byggja stórhýsi yfir Framkvæmdastofnun ríkisins, sem löngu ætti að vera búið að leggja niður. Ég vil þó a. m. k. leyfa mér að spyrja: Hvað batnaði þegar sú bygging var tekin í notkun? Hvernig finna landsmenn fyrir því að þessi stóra og glæsilega bygging er orðin til? Sá landsmaður, sem vill koma til mín og segja mér það, er velkominn. En ég er hrædd um að það standi í flestum. Það er nefnilega ágæt regla þeirra, sem hafa kjörist til að fara með fé landsmanna, að þeir athugi stundum, ekki bara í nefndunum sínum og ráðunum sínum heldur út frá brjóstvitinu einu saman, en að hafa það ætti að vera eina skilyrðið til þess að menn gefi kost á sér í framboð: Handa hverjum er þetta? Til hvers? En öll slík afgreiðsla er einhvern veginn svo órafjarri fólkinu í landinu.

Ég vil enn minna menn á fsp., sem ég gerði hér í þinginu fyrir einu eða tveimur árum, um hvers vegna engir reikningar væru sjáanlegir í ársreikningi Seðlabankans vegna stórhýsis sem risið er í Einholti 4 og hýsir eitthvert glæsilegasta bókasafn á landinu — bókasafn sem er engum opið, erfitt er að komast inn í, engin bókaskrá er til um, enginn veit hver ákveður og til hvers er til á sama tíma og almenningsbókasöfn landsins eru fjársvelt þannig að til vansa er. Enginn hefur séð ástæðu til þess að krefjast þess að rekstrarreikningur þessarar stofnunar verði birtur. Þarna er um milljónaverðmæti að ræða, sem blygðunarlaust hafa verið tekin af sparifé landsmanna án þess að nokkur maður sé spurður. Og ég er sannfærð um að einungis 10% alþm. vissu að þessi stofnun er til. (Gripið fram í: Hvaða bókasafn er það?) Bókasafn Seðlabankans, hv. þm.

Það er ekki svo hægt að ljúka þessu máli að fara ekki ofurlítið í saumana á hlutverki verkalýðssamtakanna í landinu. Öllum er okkur auðvitað ljóst að verkalýðshreyfingin hefur unnið mikið starf í þessu þjóðfélagi, en hún hefur eins og aðrir misst sjónar á mörgum þeim meginmarkmiðum sem henni voru sett í baráttunni fyrir bættum launakjörum. Vissulega hefur henni orðið þar mikið ágengt. En einhvers staðar á leiðinni hefur afskaplega margt farið úrskeiðis. Það getur vel verið að fara verði alla leið inn í þjóðarsálina til að finna skýringu á því. En allavega er það orðið svo nú, að innan verkalýðshreyfingarinnar er einn hópurinn á móti öðrum. Menn bítast um bitann í staðinn fyrir að vinna sameiginlega að markmiðum, sem verkalýðshreyfingin hefur sett sér, þ. e. að allir landsmenn búi við þokkaleg launakjör. Í stað þess að krefjast manneskjulegra kjarabóta, svo sem sæmilegra launa fyrir sæmilegan vinnudag, þannig að fólk gæti unnið þann vinnudag sem eðlilegur má teljast og síðan átt einhverjar frístundir og tíma til að sinna öðru því sem fólkið í landinu hefur tekið að sér, svo sem eins og að annast uppeldi barna sinna, hafa laun verið þanin til hins ítrasta, ekki með heiðarlegum dagvinnulaunum heldur með því að finna alls konar hliðaraðferðir, bónus, sem margir hér eru mjög hrifnir af, einnig í mínum flokki, og skal ég ekki draga dul á það, hvers kyns álag og að ég nú ekki tali um eftir- og næturvinnu, þannig að fólk hefur unnið 14 og 16 tíma á sólarhring og þénað töluverða peninga á kostnað heilsu sinnar, á kostnað lífshamingju sinnar, á kostnað barna sinna. Þetta er auðvitað engin verkalýðsbarátta. Þetta er löngu komið út í eintóma vitleysu, enda er nú komið svo að flest það sem sagt er um launamál í landinu eru ósannindi, eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson kom inn á í ræðu sinni á dögunum. Fjölmörg einkafyrirtæki í þessu landi láta sig ekki lengur dreyma um að ráða fólk á launum samkv. taxta verkalýðsfélaga. Menn fá engan almennilegan starfskraft á þeim launum. Það er alvitað að ef einkafyrirtæki vantar duglega skrifstofustúlku borgar það henni miklu hærra kaup en gerist t. d. hjá því opinbera og býður henni jafnvel að gefa það ekki allt upp til skatts. Það liggur við að ég skilji þetta mætavel. Hver maður sem reka vill gott fyrirtæki reynir auðvitað að tryggja sér almennilegt starfsfólk. Vitaskuld kjósa margir heldur að vinna hjá einkafyrirtækjum en því opinbera þegar slíkur launamismunur er í boði. En þetta hefnir sín allt saman. Óánægðir launþegar með léleg laun og lítinn sýnilegan áhuga á að störf þeirra séu metin að verðleikum verða að sjálfsögðu vondur starfskraftur, sem þýðir fleiri starfsmenn, stærri stofnanir, útþenslu báknsins, sem hæglega væri hægt að reka miklu skynsamlegar og miklu betur með því að launa fólk almennilega.

Hvers kyns félagsleg þjónusta hefur orðið út undan, þó ekki að öllu leyti, svo að ég kveði nú ekki of sterkt að orði. Hér á árum áður barðist verkalýðshreyfingin fyrir úrlausn í húsnæðismálum, og var það vissulega vel, en síðan hefur baráttan færst í það horf, að hvenær sem þarf að leiðrétta allra lægstu laun þarf slík launahækkun að fara allar leiðir upp í gegnum kerfið, jafnvel þó að laun séu í raun og veru reiknuð á allt annan hátt en venjuleg tímalaun, og nægir þar að nefna uppmælingu og annað þess háttar. Vitaskuld ætti það að vera þannig í þessu landi, að menn fái mannsæmandi laun fyrir mannsæmandi vinnudag svo að fólk geti lifað einhverju fjölskyldulífi, haft einhverjar frístundir. Við sem höfum unnið í sjúkraþjónustunni eða heilbrigðiskerfinu vitum mætavel hvernig fólk er á sig komið um miðjan aldur sem hefur unnið í akkorði árum saman. Það væri þegar upp er staðið gaman að reikna út hvað greiða verður í almannatryggingabætur vegna óhóflegs vinnutíma í þessu landi og vinnuþrælkunar.

Hér hefur áður komið fram, að flest það sem lagt er fyrir okkur þm. um fjárhagsstöðu fyrirtækja, t. d. í sjávarútveginum, eru staðlausir stafir. Það hefur ekki enn orðið ljóst hér í þinginu, hvernig stóð á því að áætlaður gengismunur vegna síðustu gengislækkunar varð ýmist 80 millj. eða 280 millj. Ég hygg að enginn viti enn hve miklar þær birgðir eru sem þessi gengismunur var reiknaður út frá. Í könnun sem gerð var á vegum nefndar, sem sjútvrn. skipaði, var 200 útgerðarfyrirtækjum skrifað og beðið um nákvæmar upplýsingar um afkomu fyrirtækjanna. 50 svöruðu. Virðing fyrir sjóðum landsmanna er ekki meiri en svo, að menn nenna ekki einu sinni að svara svo sjálfsögðum hlutum eins og að styrkjagreiðendur fengju einhverjar upplýsingar um afkomu fyrirtækjanna. En þeir vita að þetta gengur fyrir sig eftirlitslaust. Ef afkoma fyrirtækja skánar ofurlítið eitt árið frá öðru er ráðist í hömlulausar fjárfestingar, sem enginn endir er fyrirséður á, og síðan auðvitað komið og sagt: Nú er atvinnuleysi yfirvofandi. — Og hvað gerum við? Við borgum án þess að æmta. Þetta getur ekki gengið svona.

Herra forseti. Ég hygg að ég ljúki nú máli mínu, en lýsi yfir eindreginni andstöðu við þetta frv., sem er ekkert annað en hjákátlegt yfirklór vegna m. a. slæmrar stjórnar efnahagsmála í landinu. Ég ætla að minnast hér á, herra forsrh., þau orð, sem við vorum borin fyrir í Danmörku nú í vikunni, að við Íslendingar viljum samstarf við NATO. Við hefðum sömu stefnu og Danir. Ég vil leiðrétta það hér með. Hana hafa ekki allir Íslendingar og telja sig Íslendinga þó. En við sumir Íslendingar, hr. forsrh., teljum ekki að þetta frv. um nýtt viðmiðunarkerfi hefði átt að leggjast fram með hreinu broti á stjórnarsáttmála. Það eru drengir góðir sem halda þá sáttmála sem þeir gera. Við mótmælum þessu frv. og teljum að það muni ekki hafa minnstu áhrif á efnahagslega afkomu landsmanna að öðru leyti en því, að þeir lægst launuðu og launamenn í landinu verða ofurlítið fátækari. Það teljum við ekki góðar efnahagsaðgerðir.