21.02.1983
Neðri deild: 42. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2125 í B-deild Alþingistíðinda. (1837)

195. mál, viðmiðunarkerfi fyrir laun

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Við umr. bæði í dag og áður hefur ýmislegt komið fram sem þarfnast frekari skýringa í sambandi við það frv. sem hér liggur fyrir og borið er fram af hæstv. forsrh. Það vakti þannig mikla athygli hér í þingsalnum í dag þegar hæstv. fjmrh. lýsti því yfir að aldrei hefði staðið til að frv. þetta yrði afgreitt fyrir 1. mars, þess vegna hefði það verið lagt svo seint fram og orð sem hnigið hefðu í þá átt væru meir til þess að sýnast en að til hefði staðið að standa við það. Af þessu tilefni tel ég nauðsynlegt að spyrja hæstv. forsrh. hver sé skoðun hans á þessu atriði, hvort það hafi fyrir honum vakað, þegar hann lagði frv. fram, að það yrði afgreitt svo snemma að unnt yrði að taka tillit til þess við ákvörðun kaupgjaldsvísitölunnar 1. mars eða hvort það er rétt hjá hæstv. fjmrh. að það hafi aldrei staðið til að þessar breytingar tækju gildi við útreikning kaupgjaldsvísitölunnar þá. Ég held að það sé nauðsynlegt að þetta komi fram. Við höfum orðið vör við það hér í þessari hv. deild að þetta frv. er notað sem einhvers konar átylla fyrir einstaka ráðh. til að bera sakir hver á annan. Þetta virðist vera orðið að einhvers konar uppgjörsmáli innan ríkisstj. og af þeim sökum er nauðsynlegt að hæstv. forsrh. segi hug sinn í þessum efnum.

Um þetta mál hafa margar og mjög ítarlegar ræður verið haldnar af einstökum ráðh. Ég skal ekki rifja hér upp þau brigslyrði sem frá þeim hafa fallið né heldur dóma stuðningsmanna ríkisstj., eins og t. d. hv. 8. landsk. þm., um stefnu og störf ríkisstj. að öðru leyti en því að minna á að hún telur að minnkandi kaupmáttur, aukin verðbólga og versnandi lífskjör eigi fyrst og fremst rætur sínar að rekja til óstjórnar í efnahagsmálum, eins og hún komst að orði, en utanaðkomandi aðstæður hafi vegið þar miklu minna. Þetta var að sjálfsögðu mjög athyglisvert og lýsir hvaða hug hún ber til þess stjórnarsamstarfs sem hér hefur ráðið ríkjum um skeið.

Ég vil einnig vekja athygli á því, að sá maður í stuðningsliði ríkisstj. sem áhrifamestur er innan launþegasamtakanna, hv. 7. þm. Reykv., hefur með mjög ákveðnum hætti fært rök fyrir því að þetta frv. sé hættulegt fyrir launafólk, og færði hann fyrir því margvísleg rök, sem raunar eru í samræmi við fréttabréf frá Alþýðusambandi Íslands frá 18. febr. s. l., þar sem efni þessa frv. er nákvæmlega rakið og gerð grein fyrir þeim hættum sem í því felast fyrir launafólk.

Það er svo, að við búum nú við 70% verðbólgu eða svo. Helstu talsmenn þessa frv. gera ráð fyrir að það muni kannske verka til lækkunar á verðbólgu sem nemur 0.3% eða 0.4% á mánuði. Meira er það ekki. Það eru öll ósköpin. Þegar maður hefur þetta í huga og svo hitt, hversu illa ýmsir forustumenn launþegasamtakanna hafa tekið frv., hlýtur að vakna sú spurning, hvort ekki sé lagt í fullmikla áhættu með því að samþykkja frv., hvort verkalýðshreyfingin muni ekki líta svo á að með því sé verið að kasta stríðshanskanum framan í hana og muni taka hann upp og efna til vinnustöðvana, ólöglegra verkfalla og óróa á vinnumarkaði, eins og hér hefur stundum hent áður, síðast 1978, þegar núv. hæstv, forsrh. var í ríkisstjórn og stóð að mjög umdeildri löggjöf til skerðingar á kaupgjaldsvísitölunni.

Ég hef áður vikið að því í mínum ræðum, þegar kjaramálin hefur borið á góma, hversu þolinmóð og róleg verkalýðshreyfingin hefur verið þrátt fyrir síendurtekna skerðingu á gildandi kjarasamningum og versnandi kjör í mesta góðæri sem yfir landið hefur gengið. Það á sér þá eðlilegu skýringu, að þeir menn sem voru í meiri hl. í verkalýðshreyfingunni vildu gefa ríkisstj. tækifæri til þess að færa efnahagsmálin til betri vegar. Ef við lítum á mjög hófsamlega kjarasamninga á síðustu misserum sjáum við að viðleitni verkalýðshreyfingarinnar hefur eingöngu verið sú að reyna að viðhalda kaupmættinum. Verkalýðshreyfingin hefur meira að segja gengið svo langt að semja um nokkra grunnkaupshækkun og sérstaka skerðingu hennar tveim mánuðum síðar til þess að reyna ekki um of á getu ríkisstj. til að koma efnahagsmálunum í þær skorður sem hún hafði heitið.

Við munum það líka frá s. l. sumri, þegar brbl. voru sett, að það atriði sem verkalýðshreyfingin lagði mest upp úr var það, að brbl. ættu að tryggja að verðbólgan héldist a. m. k. í svipuðu eða sama horfi, verðbólguvöxturinn yrði ekki meiri en áður frá 1. nóv. til 1. mars. Og ég man það áreiðanlega rétt að hæstv. forsrh. brýndi okkur Sjálfstfl.-menn mjög á því að ef við stæðum gegn þeirri skerðingu mættum við eiga það á hættu að verðbólgan hlypi upp í 70–80%.

Nú tók verkalýðshreyfingin þá ákvörðun að láta kyrrt liggja. Launafólk í landinu þrýsti ekki á forustumenn sína að taka upp aðgerðir gegn ríkisstj. þrátt fyrir að kaupið var skert um helming 1. des. s. l. Við vitum að kaupið hefur oft verið skert, en því hafa hjá góðum ríkisstjórnum fylgt alhliða ráðstafanir, sem hafa miðað að því annars vegar að koma í veg fyrir víxlverkunaráhrif verðhækkana og kaupgjalds og um leið hefur svigrúmið verið notað til að koma nýjum stoðum undir atvinnureksturinn, draga úr greiðslubyrði af hallarekstri eða með öðrum hætti blása nýju lífi í atvinnureksturinn. Ekkert af þessu var gert í tengslum við kjaraskerðinguna 1. des. Þvert á móti hefur krónan verið lækkuð tvívegis síðan og hefur verið látin síga í þokkabót. Ofan í 7–8% lögbundna skerðingu til viðbótar skerðingu Ólafslaga hefur verðbólgan nú þotið upp í 70–80%.

Ég tók svo eftir að hv. 8. landsk. þm., sem er stuðningsmaður ríkisstj. og ætti þess vegna ekki að mála myndina svartari en hún er, talaði um að verðbólgan væri ekki minni nú en 5–6% á mánuði. Menn geta svo reiknað út hvað það er. Þetta kemur ofan í fórn launþeganna. Hvað átti hækkun launa vegna hærri kaupgjaldsvísitölu að bæta mönnum 1. des.? Sú kaupuppbót átti ekki að koma til að bæta mönnum verðhækkanir sem yrðu á tímabilinu frá 1. nóv. til 1. febr. á þessu ári. Launin voru skert að þeim hluta sem átti að bæta hækkanirnar sem voru á tímabilinu frá 1. ágúst til 1. nóv. Það voru þær gömlu hækkanir sem launþegar urðu að bera óbættar. síðan hafa enn meiri hækkanir dunið yfir. Og hver eru viðbrögð stjórnvalda nú eða þess hluta ríkisstj. sem stendur að því frv. sem hér er til umr.? Viðbrögð þessara ráðh. eru þau að nú eigi launamenn allan marsmánuð að bera til viðbótar óbættar allar hækkanir sem yfir hafa dunið frá 1. nóv., hækkanir af völdum tveggja gengisfellinga, hækkanir af völdum einhliða hækkana hjá ýmsum opinberum aðilum o. s. frv. Það er síður en svo, að opinberar stofnanir, ríkið sjálft, hafi haldið að sér höndum varðandi hækkanir á þessum tíma. Allt þetta eiga launþegar að bera óbætt allan marsmánuð eftir því frv. sem hér liggur fyrir. Hvað skyldu það vera mörg prósent í kaupmætti í mars? Það væri fróðlegt að fá það upplýst. Auðvitað er skerðing kaupmáttarins af völdum þessa frv. miklu meiri fyrst í stað en stuðningsmenn þess vilja láta uppi og láta reikna út sérstaklega.

Það hefur löngum verið stefna Sjálfstfl., og ég held að ég megi segja að undanfarna áratugi hafi það einnig verið skoðun hæstv. forsrh., að aðilar vinnumarkaðarins eigi að bera ábyrgð á sínum samningum og ríkisvaldið eigi að reyna að stuðla að því að frjálsir samningar takist um þau atriði er mestu skipta varðandi kjarasamninga hverju sinni. Nú liggur það fyrir, og var staðfest af forseta Farmanna- og fiskimannasambands Íslands hér áðan, að það hefur alls ekki verið unnið nægilega vel að því af hæstv. ríkisstj. að ná samkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins um nýjan verðgrundvöll vísitölunnar. Út af fyrir sig er enginn ágreiningur um það, hvorki hjá stjórnarandstöðu né ríkisstj., vinnuveitendum né launþegum, að nauðsyn sé á slíku. En þessi nýi verðgrunnur verður að koma inn í samningum aðila vinnumarkaðarins. Verðgrunnurinn og þau áhrif, sem hann hefur á verðbætur, er auðvitað gífurlegur hluti af launakjörunum í landinu, ekki síst þegar verðbólgan er í þvílíkum hæðum sem 70%. Jafnvel af helstu sérfræðingum ríkisstj. er ekki nefnd lægri tala á þessu ári en einhvers staðar yfir 60%. Í slíkri verðbólgu hafa verðbæturnar auðvitað úrslitaáhrif á kjörin.

Nú getum við sagt að launakjörin hér á landi séu allt of góð, að Dagsbrúnarmaðurinn beri allt of mikið úr býtum, að hinn almenni launamaður eigi mikinn afgang þegar hann hefur greitt fyrir helstu lífsnauðsynjar. Við getum auðvitað haldið því fram. En ég er hræddur um að fáir menn fyrir utan þennan sal mundu leggja mikinn trúnað á slíkt eða treysta slíku. Það er meira að segja svo komið, að formaður Verkamannasambandsins hefur beðist afsökunar á sjálfum sér hér í þessum sal út af þeirri útreið sem lægst launaða fólkið hefur orðið að þola og sér ástæðu til að minna á að hann sé enn þá þeirrar skoðunar að brýnasta málið sé þrátt fyrir allt að lyfta örlítið undir þá sem verst eru settir.

Nei, það er alveg áreiðanlega víst að hin almennu laun í þessu landi eru ekki sá bölvaldur sem við getum kennt um 70% verðbólgu nú. Það er alveg öruggt mál, og það er líka öruggt mál að það er mikill ábyrgðarhluti að höggva í þennan knérunn aftur núna, þar sem er kaupgjaldsvísitalan. Ef við rifjum aðeins upp hvaða áhrif þeir skerðingarliðir, sem nú eru á kaupgjaldsvísitölunni, hafa haft á síðustu mánuðum, kemur í ljós samkv. útreikningum Alþýðusambandsins að tæplega 90% af verðlagshækkunum síðustu mánaða hafa verið bætt. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að auka skerðingarákvæðin enn og hér er talað um breytingar á gjaldskrám raf- og hitaveitna. Formaður Verkamannasambands Íslands upplýsti áðan að í hyggju væri að hækka þessa tvo liði um 200% á þessu ári. Það er ekki svo lítið þegar við höfum það í huga að raforkuverðið hefur hækkað kringum 100% núna a. m. k. tvö s. l. ár. Nú er sem sagt meiningin að hækka um 200%, segir formaður Verkamannasambands Íslands, sem er innsti koppur í búri hjá ríkisstj. og veit gerst um hennar áætlanir.

Það er talað um breytingar á óbeinum sköttum og gjöldum — nú hefur hæstv. ríkisstj. hækkað skattana jafnt og þétt — og breytingar á niðurgreiðslum og vöruverði. Þetta eru þeir þrír liðir sem Alþýðusambandið talar sérstaklega um og kemst að þeirri niðurstöðu, eins og segir í bréfi Alþýðusambands Íslands, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftir orðanna hljóðan í frv. gæti þetta þýtt að einungis væri bætt um 70% af verðhækkunum, en meining flm. mun vera sú, að þessir liðir komi ekki beinlínis til frádráttar, heldur hafi þeir ekki áhrif á verðbótavísitölu, ef lagðir eru á nýir skattar eða dregið úr niðurgreiðslum.“

Það er eftir orðanna hljóðan sem lögin eru túlkuð. Ég vil sérstaklega vekja athygli á þessum skilningi Alþýðusambandsins, sem ég hef hér lýst.

Það var eftirtektarvert að heyra lýsingar hv. 8. landsk. þm. á því ástandi sem hefur skapast hér á landi og viðgengist, dafnað vel og blómstrað í tíð núv. hæstv. ríkisstj. Umtalsverð skattsvik. Mér skildist að undir stjórn hæstv. fjmrh. drægist árum saman að úrskurða um kærur á mjög alvarlegum skattsvikum, sem næmu verulegum fjárhæðum í erlendum gjaldeyri, og er svo að skilja sem skattyfirvöld hafi sofnað á verðinum. Hv. þm. lýsti hér hversu gagnslaust verðlagseftirlitið væri. Þær tölur, sem vísitala væri reiknuð út frá, segðu engan sannleika, — kannske hálfan sannleika, en lýstu alls ekki hinum raunverulega kaupmætti í landinu. Hv. þm. spurði á hverju hinir lægst launuðu ættu að lifa og komst að þeirri niðurstöðu, að barnmargar fjölskyldur hefðu ekki ráð á því að gefa börnum sínum hollan mat. Á þessum tónum talaði þessi hv. þm. lengi vel áðan og komst eðlilega að þeirri niðurstöðu að samvisku sinnar vegna gæti hún undir engum kringumstæðum lengur talist stuðningsmaður þessarar hæstv. ríkisstj. Þessa niðurstöðu í orðum hennar skildi ég mjög vel.

Það hefði kannske verið ástæða til að ræða nokkuð við ráðh. Alþb. Þeir eru ekki hér í húsinu og ég veit ekki hvort ég á nokkuð að vera að biðja um að þeir ómaki sig hingað niður eftir. Sá hefur verið háttur þeirra á síðustu fundum að koma hér upp í ræðustól, gefa digrar yfirlýsingar um að þeir séu hálfvegis að hugsa um að hverfa úr ríkisstj., þeir hafa gefið í skyn að stjórnarsamstarfinu ljúki á sömu stundu og þetta frv. verði að lögum o. s. frv. Ummæli þeirra, bæði í samhengi við mál þeirra í heild og skoðuð sérstaklega, sýna að þeir eru hálfgerðir bandingjar í ríkisstj. eins og nú er komið. Þá langar í burtu og þeir vita að stuðningsmenn þeirra ætlast til þess að þeir fari í burtu.

A. m. k. tveir þm. úr þingliði Alþb., formaður Verkamannasambandsins, hv. 7. þm. Reykv., Guðmundur J. Guðmundsson, og hv. 8. landsk. þm. Guðrún Helgadóttir, sem líka hefur unnið mikið í launþegasamtökunum, báðir þessir þm. hafa ýmist nauðugir greitt atkv. með stjfrv., lýst yfir fullri andstöðu við ríkisstj. eða fellt tillögur ráðherra með því að slást í hóp stjórnarandstæðinga. Hvorugur þessara þm. mun nokkru sinni leggja annað eins á sig og hann hefur gert fram að þessu til að halda lífi í þessari ríkisstj. Og af hverju ekki? Vegna þess að báðir þessir þm. fóru í framboð sem sérstakir fulltrúar launþega í landinu. Þeir töldu sig hingað komna til að reyna að passa kjörin. Þeir töldu sig geta slegið skjaldborg um laun hinna lægst launuðu, a. m. k. færu þau ekki versnandi frá því sem áður var, en þeir hafa ekki haft erindi sem erfiði. Af þessum sökum hafa báðir þessir þm. í rauninni lýst sig stjórnarandstæðinga.

Það er alveg rétt að skoðanakönnun Dagblaðsins, sem ég veit ekki hvernig er unnin, en við skulum segja að það sé allt saman vel gert og samviskusamlega, sýnir að ríkisstj. hefur traust meiri hluta þeirra sem svöruðu. Þeir menn fylgjast bara ekki eins vel með og þeir sem sitja inni í þessu húsi á hverjum degi og eru í brennipunktinum í þjóðfélaginu. Það er inni í þessum sölum sem ríkisstj. hefur misst afgerandi stuðning, þannig að hún getur undir engum kringumstæðum í dag kallast meirihlutaríkisstjórn. Ég virði það við hv. 8. landsk. þm. að standa við sín orð hér um daginn, lýsa því yfir að hún geri það nauðug viljug, en hún vilji standa við sín orð og sín fyrirheit úr því að hún á annað borð gaf þau. Ég virði þann heiðarleika. En í þessari afstöðu fólst líka að hún yrði jafnheiðarleg við sjálfa sig framvegis og jafnvel heiðarlegri og mundi ekki aftur láta þröngva sér til að greiða atkv. á móti sinni raunverulegu sannfæringu, eins og hún hefur því miður látið henda sig allt of oft á s. l. þrem árum.

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir er lagt fram af hæstv. forsrh. í því skyni að það verki á kaupgjald í landinu 1. mars n. k. Hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir að þetta sé misskilningur, það hafi aldrei staðið til að frv. yrði samþykkt fyrir þann tíma. Þetta lýsir í hnotskurn tvískinnungnum sem kominn er upp í ríkisstj., sýndarleiknum sem þar er leikinn, uppgerðinni og síðast en ekki síst þessum vettlingatökum sem m. a. formaður Framsfl. hefur sagt þrásinnis úr þessum ræðustól að séu frumorsök þess hversu illa sé komið fyrir okkur núna. Þá á formaður Framsfl. við það, að ríkisstj. hefði betur farið að vilja sjálfstæðismanna í ágústmánuði, kallað þing saman þá strax, látið á það reyna hvort meiri hluti Alþingis hefði trú á þeim efnahagsráðstöfunum, sem þá voru gerðar, og ef svo var ekki yrði efnt til nýrra kosninga og ný ríkisstj. gæti tekið við, sem vildi og hefði kraft til að taka á málunum. Undir þetta sama hefur formaður Alþb. tekið. Hann hefur viðurkennt að villa þessarar ríkisstj. sé sú, að hún hafi tekið vettlingatökum á efnahagsmálunum, viðurkennt að hann brást á s. l. vori. Og hvaða ályktun dregur hann svo af ástandinu núna? Þá að þörf sé á fjögurra ára neyðarráðstöfunum til að draga okkur upp úr svaðinu. Fjögurra ára neyðarráðstöfunum, segir hæstv. ráðh., og varar um leið við því að vegna eyðsluskulda erlendis, viðskiptahalla, sé nú svo komið að Ísland nálgist að vera jafn skuldunum vafið og Pólland, að pólskt ástand skapist á Íslandi.