21.02.1983
Neðri deild: 42. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2130 í B-deild Alþingistíðinda. (1838)

195. mál, viðmiðunarkerfi fyrir laun

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í framsöguræðu minni fyrir þessu frv. s. l. þriðjudag gerði ég allítarlega grein fyrir því og tel því ekki ástæðu til að endurtaka það, sem þá var sagt. Það eru nokkur atriði, sem fram hafa komið í umr., sem ég vildi aðeins víkja að.

Því er haldið fram af sumum hv. þm. að þetta frv. um nýtt viðmiðunarkerfi sé brot á stjórnarsáttmála. Er þá vitnað í það ákvæði, að ríkisstj. muni ekki setja lög um almenn laun í landinu. Þessi kenning fær ekki staðist. Þetta frv. brýtur á engan hátt í bága við ákvæði stjórnarsáttmálans. Það er ekki ríkisstj. sem flytur þetta frv. Það er forsrh. sem flytur það og er skýrt tekið fram af hans hálfu, bókað í ríkisstj. og lýst yfir á Alþingi að þetta sé ekki frv. ríkisstj., heldur frv. forsrh. Skýrt er tekið fram að þrír ráðh. í ríkisstj. séu frv. andvígir. Hér er því ekki um að ræða ríkisstjórnarfrv. eins og stjórnarsáttmálinn talar um.

Í öðru lagi er hér ekki verið að leggja til að sett séu lög um almenn laun í landinu, heldur er verið að lagfæra nokkra helstu agnúa á þeirri vísitöluskrúfu og sjálfvirkni sem allir eru í rauninni í hjarta sínu sammála um og hafa lengi verið að þyrfti að lagfæra. M. a. felst í því að lengja hið þriggja mánaða verðbótatímabil úr 3 upp í 4 mánuði. Ég vil taka það skýrt fram að lengingin úr 3 upp í 4 mánuði er ekki ágreiningsefni við Alþb. Ágreiningsefni varðandi það mál er eingöngu um það, hvort tímabilið frá 1. des. s. l. skuli verða 3 mánuðir eða 4, þ. e. hvort fjögurra mánaða tímabilið skuli koma til framkvæmda eftir 1. mars.

Á hinn bóginn er verið með þessu frv. að leggja fram mikilvægan þátt í því meginmarkmiði ríkisstj. að reyna eftir föngum að hamla gegn verðbólgu. Þetta frv., eins og ég gat um, heggur ekki á verðbólguna að marki í bili, en þetta mun segja til sín þegar frá líður og draga úr helstu agnúum þessa sjálfvirka kerfis.

Til viðbótar þessu má geta þess, að í jan. 1982 var um það samið og yfirlýst af hálfu ríkisstj. að hefja þá þegar endurskoðun á þessu viðmiðunarkerfi og reyna að finna nýtt kerfi til að afnema helstu annmarkana og agnúanna á því kerfi sem nú er. Það er rúmt ár síðan þessi vinna hófst og hefur verið lögð í þetta mál mikil vinna. Í ágústmánuði var í yfirlýsingu stjórnarinnar beinlínis tekið fram, að ákveðið væri að leggja fram frv. um þetta efni með hliðsjón af þeim tillögum sem þá lágu fyrir og sem nánar er allt skýrt í grg. Því fer þess vegna fjarri að flutningur þessa frv. brjóti á nokkurn hátt gegn stjórnarsáttmála. Þvert á móti er það flutt til að vinna að því að fullnægja einu meginmarkmiði stjórnarsáttmálans og yfirlýsingum ríkisstj. síðan.

Því er haldið fram í annan stað að frv. feli í sér kjaraskerðingu, kaupmáttarskerðingu. Ég rakti það mál nokkuð hér í minni framsöguræðu og minnti á það sem menn því miður stundum rugla saman. Það er eins og sumir menn haldi að sérhverf inngrip í þessa sjálfvirkni í þjóðfélaginu þýði um leið kjaraskerðingu. Þetta er rangt. Menn verða að gera sér grein fyrir því, að breytingar á þessu sjálfvirka kerfi geta orðið til þess að draga úr hraða verðbólgunnar og um leið til þess að bæta kjörin og auka kaupmáttinn. Ég nefndi í minni framsöguræðu glöggt dæmi um þetta, sem ekki hefur verið hrakið.

Á árinu 1981, þegar ákveðið er um áramótin að taka vissa tölu vísitölustiga út eða 7 stig, var því spáð af sumum að þessi breyting þýddi kjaraskerðingu. Það liggur fyrir að þegar árið var á enda og kannað var hvernig kaupmáttur hafði breyst á árinu hafði hann ekki minnkað. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hafði ekki minnkað, heldur hafði hann aukist um rúm 4%. M. a. stafaði þessi aukning kaupmáttar af því að verðbólgan lækkaði á því ári úr 60 niður í 40%. En það er auðvitað staðreynd, eins og ýmsum ágætum forustumönnum verkalýðssamtakanna er manna ljósast og hefur komið fram m. a. í samþykktum Verkamannasambands Íslands og mjög skýrri framsetningu hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar á sinni tíð, að verðbólgan þýðir alltaf kjaraskerðingu fyrir launamenn, mest fyrir láglaunafólkið, og að hjöðnun verðbólgu er því út af fyrir sig einnig kjarabót. Og við höfum þetta glögga dæmi frá árinu 1981, þegar það sem virtist í fyrstu vera kjaraskerðing, þ. e. breyting á þessu sjálfvirka kerfi, reyndist vera kjarabót. Ég held því alveg ákveðið fram að þau ákvæði, sem þetta frv. felur í sér, verði til bóta, muni draga úr verðbólgu nokkuð í ár og einnig þegar frá líður og þar með verða launþegum einnig til bóta þannig að af völdum þessa frv. muni kaupmáttur ráðstöfunartekna ekki minnka, heldur fremur aukast.

Hér hefur verið af tveim hv. þm., Guðrúnu Helgadóttur og Guðmundi J. Guðmundssyni, auk fjmrh., minnst á þann mikla galla á verðbótakerfinu að greiddar eru verðbætur sem nema sömu hundraðstölu fyrir öll laun hærri sem lægri. Ég er þessum hv. þm. algerlega sammála í gagnrýni þeirra í þessu efni. Ég tel ástæðulaust og ranglátt að láta þá sem hærri eða hæstu hafa launin fá sömu prósentu, þ. e. margfaldar upphæðir í krónutölu, til þess að bæta upp dýrtíðina. Það er vafalaust rétt, að Vinnuveitendasambandið hefur lagst gegn breytingum á þessu og vill halda þessari hlutfallsreglu. En ég hygg að hitt sé líka rétt, að samtök launþeganna eða a. m. k. sterk öfl hjá þeim eru andvíg lagfæringu þeirri sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir og Guðmundur J. Guðmundsson hér hafa haldið fram og sem ég tek undir. Hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir því þegar hann lagði fram tillögur til samninga við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja 1980, þar sem gert var ráð fyrir þaki, en því var hafnað af þeim alþýðusamtökum. Okkur er öllum kunnugt að í Alþýðusambandi Íslands eru sterk samtök sem hafa komið í veg fyrir og eru andvíg breytingu í þessa átt, þannig að ef við viljum líta alveg raunsætt á það mál eru það ekki eingöngu vinnuveitendur eða þeirra samtök sem hér hafa beitt sér á móti, heldur einnig allsterk samtök launþeganna sjálfra.

Ég vil undirstrika það, að ég er eindregið fylgjandi því að hér verði breytt til, að verðbætur verði ekki greiddar þannig að sama prósenta haldi áfram upp úr, heldur sé það þjóðfélagslegt réttlætismál að það fólk sem er lægra launað eða með meðallaun fái hlutfallslega meiri uppbætur en þeir sem hærri hafa launin og þurfa síður á því að halda.

Hér hefur borið á góma nýr vísitölugrundvöllur og í umr. hefur komið fram aths. við þennan nýja neyslugrunn, sem ætlunin er að lögleiða með þessu frv. Ég er alveg sammála því, að vissulega væri æskilegt að breyta ýmsu í þessum nýja vísitölugrunni, þessari neyslukönnun. Það er margt þar, eins og nefnt hefur verið, laxveiði, hestamennska, sólarlandaferðir o. fl. o. fl., sem kannske er óeðlilegt að hafa þarna inni í sem grundvöll að viðmiðun launa við landbúnað. En í því sambandi vil ég taka það fram, að í þessum löngu viðræðum á s. l. ári um þetta mál og um hinn nýja vísitölugrunn hefur verið lögð á það höfuðáhersla af fulltrúum launþegasamtakanna í landinu að þessi neyslugrunnur, sem Hagstofan lét vinna nú nýlega, væri tekinn upp óbreyttur og í engu raskað. Þó menn viðurkenndu vissa annmarka á honum var ekki hróflað við þeirri neyslukönnun, sem fram fór.

Hv. 7. landsk. þm. Halldór Blöndal spurði hvort fyrir mér hefði vakað við framlagningu frv. að það yrði afgreitt í tæka tíð fyrir 1. mars. Svarið er já. Það var ljóst að stjórnaraðilar voru ósammála um þetta mál. Það var lagt fram engu að síður vegna þess að þeir sjö ráðherrar sem styðja frv. töldu það óhjákvæmilega nauðsyn. Ég hafði búist við því, að flokksbræður mínir í stjórnarandstöðu mundu taka þessu frv. jákvætt og veita því stuðning. Margt mælti með því. Það hefur verið baráttumál Sjálfstfl. árum saman að draga úr þessari sjálfvirkni, draga úr þessari vísitöluskrúfu á margvíslegan hátt, og hefur verið lögð á það höfuðáhersla í samþykktum landsfunda við stjórnarmyndanir ella. Því hefði mátt gera ráð fyrir að frv. eins og þetta mætti þar stuðningi og skilningi. Við upphaf 1. umr. á þriðjudaginn var talaði hv. þm. Friðrik Sophusson af skilningi og háttvísi um þetta mál og gaf það vissulega nokkrar vonir um að svo mundi verða.

Hins vegar gerist það svo s. l. laugardag, að formaður Sjálfstfl. á viðtal við blað sitt, Morgunblaðið, þar sem viðhorfin eru gersamlega neikvæð, og væntanlega verður að gera ráð fyrir að hann tali þar í umboði þingflokksins. Náttúrlega væri æskilegt ef svo væri ekki, en þessi neikvæða afstaða boðar ekki gott. Þess vegna virðist svo nú, eftir þessum ummælum formanns Sjálfstfl. að dæma, að hann muni ætla sér að koma í veg fyrir að þm. Sjálfstfl. styðji þetta mál, sem þeir ættu auðvitað að gera af efnislegum ástæðum, fyrir utan nú hitt atriðið að nota nú tækifærið til að sameina alla þm. Sjálfstfl. um eitt mikilvægt mál.