02.11.1982
Sameinað þing: 11. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

263. mál, lögmannskostnaður og ríkisábyrgð á launum

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Út af ummælum hæstv. ráðh. vil ég aðeins ítreka það sem ég sagði áðan. Ég tel að engin efni standi til þess, þó svo að ríkisábyrgð sé á launum þegar fyrirtæki verður gjaldþrota, að verið sé að hygla sérstaklega lögmönnum af því tilefni, ef sú krafa sem lýst er hefur ekki forgang og lögfræðikostnaðurinn hefur ekki forgangsrétt. Ég tel að lögfræðingarnir verði að sitja þá við sama borð og aðrir, þó þeir á hinn bóginn eigi rétt á því að fá smávegis þóknun fyrir að skrifa nokkrar línur annars vegar til borgarfógeta og hins vegar til félmrn. til að létta undir með stéttarfélögunum, að þau geti haldið á málefnum umbjóðenda sinna.

En hitt er svo allt annað mál, og skal ég ekki fara út í þær umr. nú, að ég tel að stéttarfélögin geti vel tekið þetta ómak af viðkomandi launþegum og skrifað þessi bréf launþegum að kostnaðarlausu og þar með ríkissjóði, því að þetta er ekkert verk, nokkrar línur. En að vera að greiða fyrir þetta háar upphæðir og hygla þannig gæðingum hæstv. ráðh. er siðlaust.