02.11.1982
Sameinað þing: 12. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

Umræður utan dagskrár

Vilmundur Gylfason (frh.):

Herra forseti. Ég var þar kominn í máli mínu í gær að ég var að gera grín að hv. 1. þm. Austurl. og hann sat í sæti sínu sem vígahnöttur í myrkri þegar rafmagnslaust var orðið. En umr. skal fram haldið.

Inntakið í meginrökum að því er varðar vaxtastefnuna í landinu er ekki að verðtryggingarstefnan sé í sjálfu sér röng, því hún er það ekki. Í annan stað, sem auðvitað skiptir meginmáli, er verðtryggingarstefnan siðferðileg fremur en hún er efnahagsleg. Við vitum að sparendur fjár í þessu landi eru í fyrsta lagi fullorðið fólk, — sumpart fólk sem hefur ekki áttað sig áfjármagnsskriðinu, — í annan stað ungt fólk og í þriðja stað almennt launafólk með þvinguðum sparnaði hvers konar, og getur jafnvel aðeins verið átt við að menn leggi laun sín fyrir í byrjun mánaðar og eyði þeim ekki fyrr en kemur að síðari hluta hans. Misnotkunin, niðurlægingin og virðingarleysið, sem átti sér stað á íslenskum peningamarkaði meðan bilið var sem mest og vextir voru sem neikvæðastir, var vitaskuld með þeim hætti að engum orðum nær, völdin sem skömmtunarstjórunum voru færð, staðan sem þeir voru settir í og niðurlægingin, sem almenningur sem til þeirra þurfti að leita, fann til. Ekki má gleyma að kerfið hefur lagt upp í hendurnar á þessari stétt ríkisforstjóra — einn situr nú hérna fyrir framan mig — slík völd að allur þorri þjóðfélagsþegnanna þoldi, mismunandi mikla að vísu, niðurlægingu af höndum þessara manna, enda vitandi að menn komu til að biðja um gjafafjármagn að hluta, og auðvitað er það ekki sterk samningsstaða og skal fúslega virt þeim mönnum til vorkunnar.

Í æsingarræðu sinni í gær sagði hæstv. félmrh. að raunvaxtastefna Alþfl. hefði brugðist. Þetta er rangt af ótalmörgum ástæðum og þá fyrst þeirri ástæðu helstri, að verðtryggingarstefnan hefur aldrei verið reynd hérna. Það er svo kapítuli út af fyrir sig, að í 33. gr. svokallaðra Ólafslaga eða laga um efnahagsmál o.fl. eru skýr ákvæði um að í áföngum skyldi takmarki verðtryggingar náð fyrir gefinn tíma. Því var að vísu breytt og við skulum vera sanngjarnir og miða við 1981. Hitt er svo annað mál, að í 37. gr. nefndra laga er sagt að ríkisstj. skuli setja sérstakar reglur, eins og það er orðað, um rekstrar- og afurðalán. Í reynd hefur það komið svo út, að afturhaldsstjórnin, sem setið hefur síðan, hefur túlkað þessi lög þannig að vextir fyrir launamenn séu eitt og vextir fyrir fyrirtæki séu annað. Vitaskuld eru alveg klár ákvæði í lögunum að vextir skuli vera raunverulegir, að lán skuli vera verðtryggð. Þetta ákvæði í 37. gr., um að sérstaklega skuli farið með svokölluð rekstrar- og afurðalán, kemur auðvitað á eftir hinu. En menn hafa framkvæmt þetta öðruvísi.

Í landinu hefur síðan 1980 setið ein ríkisstjórn. Látum vera þó að í henni séu þrír íhaldsmenn og látum vera þó að þeir vilji skilja á milli og hafa annars vegar launamannavexti og hins vegar fyrirtækjavexti og látum vera þó að þeir vilji hafa fyrirtækjavextina lægri. Hvað eru rekstrarlán? Halda menn að öll svokölluð rekstrarlán fari í uppbyggingu fyrirtækjanna? Eru íslenskir atvinnurekendur hættir að éta og hættir að keyra í bílum? Þetta er auðvitað óheiðarlegt kerfi, svo gegnumóheiðarlegt, enda er það misnotað. Látum samt vera þó að sjálfstæðismennirnir þrír, sem í ríkisstj. sitja, séu að möndla með sérstaklega lága fyrirtækjavexti. Svo er afurðalánasukkið allt saman, sem á náttúrlega að taka á sérstaklega. Menn eru að búa til einhvern sérstakan siðamælikvarða fyrir það, að ef birgðir hlaðist upp eigi menn samkv. sérstökum reglum kost á sérstökum lánum á góðum kjörum. Látum vera þó að fyrirtækjaflokkurinn í landinu, sem auðvitað á ekkert skylt við neitt sem heitir frelsi í þeim efnum, sé þeirrar skoðunar að fyrirtækjavextirnir skulu vera sérstaklega lágir. Auðvitað var vandræðaleg ræða hv. þm. Matthíasar Á. Mathiesen hér í gær, þar sem ómögulegt var að skilja hvort hann stóð með Seðlabankanum eða ríkisstj., enda einn vandræðaskapur upp og niður og út í gegn. En látum það allt vera. Og látum vera þó að forstjóri Framkvæmdastofnunar hafi 29% eða 28% eða hvað þeir eru í sinni þokkalegu stofnun, við sitt þokkalega iðjufar. En kommarnir í stjórninni, launamannaflokkurinn, af hverju þola þeir 20% hærri vexti á launamannalánum en á fyrirtækjalánum? Hver er mórallinn, hver er hugsunin, hver er pólitíkin í þessum efnum? Auðvitað vill íhaldsarmurinn í stjórninni, og er þó varla skiljanlegt á milli, fá fyrirtækjavextina lægri. En ekki hvað! Og auðvitað heitir það svo sem atvinnuvegirnir séu að stöðvast. Þeir eru að því á tveggja mánaða fresti og auðvitað heitir það svo. Þetta er byggt á upplýsingum sem fyrirtæki gefa um sig sjálf. Ég get varla bent á nokkurt fyrirtæki sem farið hefur á hausinn þrátt fyrir allar hótanirnar aftur og aftur undanfarin ár. Það er þetta sem er.

Ég veit vel að það var þáv. 1. þm. Austurl. sem var með þetta á heilanum og kom þessari setningu inn í 37. gr. nefndra laga um efnahagsmál um sérákvæði. Látum vera með afurðalán. Það er þó sérstök hugsun í þeim. En rekstrarlán. Hvað þýðir orðið rekstrarlán? Og er ekki maður sem á fyrirtæki neytandi líka? Eins og ég segi, étur hann ekki? Keyrir hann ekki bíl? (Gripið fram í: Eru rekstrarlánin til þess?) Ég er að segja að þau eru notuð til þess í stórum stíl. Ég skil vandræðaskapinn. Það er þetta sem er kjarni málsins og það, að þessi ríkisstj. skuli vera að eyðileggja siðlegt inntak verðtryggingar með því að skilja á milli launamannavaxta annars vegar, sem eru firna háir þó að þeir séu enn undir markinu, og fyrirtækjavaxta hins vegar. Það er það sem er óhugnanleg pólitísk viska. Vitaskuld vilja fyrirtækjaeigendur eins og allir aðrir menn, og það skal þeim ekki láð, sem best kjör sér til handa. Það var ekki spurt um móral í slíkum efnum, það hefur aldrei verið gert í sögunni og er ekki gert núna. Vitaskuld vilja þeir borga lægri laun og ekki hærri laun. Vitaskuld vilja þeir hafa fjármagnið sitt meira niðurgreitt og ekki minna niðurgreitt. Það er ofureðlilegt og er ekki verið að finna að því í sjálfu sér. En það er verið að finna að stjórnvöldum, sem hafa gefist upp, sem ganga út frá þessari mismunun og öllu því sukki og því innbyggða ranglæti sem svona skömmtunarkerfi hlýtur að bera í sér. Og hæstv. bankamálaráðh., sem á að bera ábyrgð á framkvæmd þessa kerfis, hefur ekki framkvæmt lög. Hann gengur aftur í söguna sem ráðh. sem framkvæmdi ekki lögin sem er uppálagt. Ríkisstj. kemur hér, aðallega kommaráðherrarnir í gær, hæstv. ráðh. Alþb., og lýsir þeirri persónulegu skoðun sinni að ráðh. séu á móti lagagr. eins og þær standi. Gott og vel. Það er auðvitað þeirra réttur að vera á móti lagagreinunum eins og þær standa. En fyrst breyta menn lögum og síðan hegða menn sér eftir hinum nýsettu lögum. Þeir neita ekki að framkvæma lög og koma svo og lýsa þeirri persónulegu skoðun sinni að þeir séu á móti lögunum hvort eð er. Þetta sýnir auðvitað að lagakerfið í landinu er ónýtt. Ekki þarf að loka bankamálaráðh. inni. Við gerum ekki slíkt. En við gerum það við marga aðra lögbrjóta. Við bara lokum þá inni. Og hver er munurinn, ef menn hugsa það grannt? Það er auðvitað rétt, að lögskýringastéttin í landinu hefur verið alin upp af tveimur stjórnmálaflokkum fyrst og fremst og með árangri sem blasir við út um allt samfélagið. Þetta er samfélag sem ekki hlýðir lögum. Hér er ríkisstj. sem ekki hlýðir lögum. Það er ein af skelfingum þessa samfélags þess utan, að þetta er ónýtt lagakerfi. Við horfum á 33. og 37. gr. nefndra laga. Ráðherrar, sem standa hér í ræðustól, segjast vera á móti efni laganna, framkvæma þau þess vegna ekki og segja svo að einhvern tíma í framtíðinni eigi kannske að breyta þessum lögum. Það er það sem er skelfilegt.

Þegar talsmenn jafnaðarmanna kynntu raunvaxtastefnuna hér fyrst eða verðtryggingarstefnuna, þá fylgdi alltaf og ævinlega eitt. Þessi stefna gengur ekki upp þrátt fyrir allt sitt siðlega inntak nema eitt fylgi. Og það varðar lán til húsnæðismála. Það er staðreynd og kemur út af fyrir sig stjórnmálaskoðunum ekki við, að húsnæðisvandamál fólks hafa hvergi í veröldinni verið leyst með svokölluðu frjálsu framtaki. Við þurfum velferðarkerfi af einhverju tagi til að undirbyggja þannig að grundvallarmannréttindum manna sé fylgt, að menn hafi hús að búa í. Það á að vera stolt hvers samfélags að hafa gott kerfi í þeim efnum, sem fólk á góðan, sanngjarnan, réttlátan aðgang að. En af þeim sem fyrstir boðuðu þessa stefnu og með stolti segja: ég er einn af þeim, — þá sögðum við ævinlega: Þetta gengur ekki nema afborgunarbyrði af húsnæðismálum sé lengd og hún sé létt. Það eru skelfileg dæmi um fólk sem hefur lent í því vegna þess að þetta hefur ekki verið gert. Þm. jafnaðarmanna í Ed., hv. 2. þm. Reykn. o.fl., hafa á tveimur þingum flutt frv. um að bankakerfið gripi þarna inn í. Auðvitað sjá menn að verðtryggingarstefnan, þrátt fyrir allt sitt almenna réttlæti, sem er mikið, gengur ekki nema húsnæðislánakerfið sé tekið út fyrir sviga og leyst sérstaklega, þó ekki væri nema þegar af þeirri ástæðu að hvergi í veröldinni búa menn við jafnrétti og siðsemi í húsnæðismálum nema það sé með félagslegu inngripi af einu eða öðru tagi. Og þá ekki hér. Og þess vegna varð að gera þetta. Hin hroðalegu mistök þessarar ríkisstj. eru þau að hafa svikið í húsnæðismálum. En af hverju svikið? Það er ekki alltaf svo að þessir herramenn hafi talað í þeirri tóntegund um verðtryggingu sem þeir notuðu hér í gær, og á ég þá aðallega við kommaráðherrana.

Í aths. með fjárlagafrv. í fyrra, frá 1981, segir svo á bls. 166, með leyfi hæstv. forseta:

„Verðtrygging útlána fjárfestingarlánasjóða hefur styrkt fjárhagslega stöðu þeirra verulega og er ekki jafnmikil þörf og áður á að sjá þeim fyrir óafturkræfum framlögum úr ríkissjóði.“

Það eru fleiri aths. af þessu tagi hér. Ég minni á þjóðhagsáætlun á sama tíma. Hæstv. fjmrh. Alþb. mælti fyrir þessu plaggi, hæstv. forsrh. mælti fyrir hinu plagginu. Það var ekki annað að heyra en það sem þó hefði horft til jafnvægisáttar í ríkisfjármálum, sem skal viðurkennt að gerðist, rektu þeir beint til verðtryggingar. En hvað er gert núna? Það sem gerðist var auðvitað það, að fyrir einu til einu og hálfu ári komu fylkingar fyrirtækjaeigenda til ábyrgðarmanna hæstv. ríkisstj. og höfðu í hótunum og heimtuðu betri kjör af lánsfjármagni, eins og þeir kalla það, m.ö.o.: niðurgreiðslu á þeim „fronti“. Og ríkisstj., sem stöðugt er að segja fólkinu í landinu að nú þurfi að fara að herða sultarólarnar og nota þennan skelfilega kreppufrasa og óþarfa og eigi að fara að skerða kjörin núna um 10–11%, gafst upp á þessum „fronti“. Skoði menn hlutfóllin af fyrirtækjalánsfénu annars vegar og launamannalánsfénu hins vegar? Fyrir hverju er verið að gefast upp? Ef það væri til bandalag einstaklinga, launamanna, sem eiga lán í bönkum, ef það væru fulltrúar þeirra sem koma til ríkisstj. En það er ekki. Ef það væri til bandalag húsbyggjenda. Það er ekki. Kröfurnar eru ekki fleiri. Skoði menn umr. í kringum fiskverðið, hverjar kröfurnar voru hjá þessu fólki. Það voru atvinnurekendur — fjölmargir af þeim eru auðvitað óhæfir til þess að reka fyrirtækin ef við höfum kerfi sem gerir ekki upp á milli manna í slíkum efnum — sem báðu um ívilnun og tilslökun af hendi ríkisvaldsins fyrir sinn auma rekstur í formi niðurgreiðslu á lánsfé, og ríkisstj. lét undan. Látum vera þó að hæstv. ráðh. Gunnar Thoroddsen láti undan. Látum jafnvel vera með hæstv. ráðh. Tómas Árnason, sem aldrei hefur verið sterkur á neinu svelli hvort sem er. En ráðherrar Alþb., launamannaparturinn í ríkisstj., hvar voru þeir? Og hvernig stóð á því og stendur á því að þeir skrifa upp á efnahagsáætlun sem hefur lága fyrirtækjavexti og háa launamannavexti? Það er málið. Síðan kemur hér hæstv. félmrh. Svavar Gestsson og hann segir, þegar ríkisstj. sem situr hér er í andarslitrunum: Verðtryggingarstefna, raunvaxtastefna Alþfl., hefur brugðist. Af hverju er það hún sem hefur brugðist? Hvernig getur sú stefna hafa brugðist að fullorðinn maður eða barn, sem leggur 100 kr. inn í banka, fái 102 í árslok eða 101 eða bara 100? Hvernig getur sú stefna brugðist? Og hvaða mórall er hjá þeim sem telja að ógæfu þjóðfélagsins í efnahagsmálum sé að rekja til þeirrar staðreyndar að til er stjórnmálaflokkur í landinu sem vill að barnið, sem á 100 kr. í banka í ársbyrjun, eigi að raunvirði 101 í árslok? Er það það sem hefur brugðist? Það er undarleg samfélagsgerð og undarlegt pólitískt innræti hjá hæstv. félmrh., sem kemur í ræðustólinn og er sennilega raunverulega þessarar skoðunar. Það er allt í lagi með útgerðarrekendurna. Það er ekki um að tala vanrekstur þeirra eða vanhæfni á einu eða neinu. Nei, nei, nei það er barnið og gamla fólkið. Kröfunni um að sparifé þess standi kyrrt hefur mistekist að framfylgja að mati hæstv. ráðh.

Hv. 1. þm. Reykn. talaði hér í gær. Ég vildi nú, eins og einn ráðh.,-ég man ekki hver það var — spyrja hann til að hann svari því fyrir hönd Sjálfstfl.: Er Sjálfstfl. með eða á móti tillögum Seðlabankans? Ég er með þeim. Það er mjög einfalt. (Gripið fram í: Gengur Seðlabankinn nógu langt?) Og í annan stað væri fróðlegt að heyra hvað hv. þm. Matthías Bjarnason segir. (MB: Það kemur að því.) Já, því miður kemur að því. Málið er það, að í fyrsta lagi er skoðun okkar að það á hvorki að telja vexti upp eða telja vexti niður. Það á að telja þá rétta. Vextir eiga að vera réttir, svo að þeir sem eiga féð, sparifjáreigendur, fái sitt. Við verðum að átta okkur á því hverjir það eru sem eiga spariféð. (Gripið fram í: Sparifjáreigendur.) Það er gott. Það eru sparifjáreigendur. Og hverjir eru sparifjáreigendur? (StJ: Þeir sem eiga spariféð.) Já. Ég verð að segja að mér þykir róttæka bandalagið, bandalag íhalds allra flokka í þessum málum, vera heldur taugaveiklað og ég skil það vel. Þessi taugaveiklaði hlátur breiddist um salinn og ég skil það vel. Þetta er ekki málflutningur í þágu ríka fólksins. Það er það grundvallaratriði sem mestu máli skiptir. Fyrir því eru alls konar ástæður á Íslandi, sem eiga sér rætur langt aftur. En hverjir eru það sem hafa skaðast þegar spariféð hefur brunnið upp? Og horfi menn bara yfir sviðið. Vitaskuld eru þetta pólitísk átök. Horfi menn yfir sviðið, horfi menn á sitt nánasta umhverfi, þar sem menn þekkja best til. Það getur hver svarað fyrir sig. Hitt þarf ekki að koma neinum á óvart, að öðru hverju gerist það — það gerist á nokkurra mánaða fresti — að eigendur atvinnufyrirtækja koma og hóta allsherjarstöðvun. Síðast gerðist það með flotann fyrir nokkrum mánuðum. Menn eru alltaf að því. Sömu menn tala um óábyrga launþegaforustu aftur og aftur, hafa í hótunum við hana, hún sé að vinna gegn þjóðarhag. En þetta er allt saman kjaftæði. Horfi menn yfir útgerðarsviðið í sumar, þegar þeir hótuðu allsherjarstöðvun. Hvar var þjóðarhagur þá? Og hvað fengu þeir? Það var liður í svokallaðri lausn ríkisstj. Jú, jú, lækkun vaxta. Þeir hótuðu stöðvun. Þeir fengu lægri vexti. Þetta er auðvitað einfalt hagsmunamál. Það blasir við og það sér hver maður.

Að því er varðar tillögur Seðlabankans að mörgum forsendum gefnum, þá er ég þeirrar skoðunar að vextir eigi að vera réttir. Mér er það ljóst, að klúður þessarar hæstv. ríkisstj. er slíkt að lagfæring mun enn taka tímann sinn og fyrst og síðast koma þar svikin í húsnæðismálunum. Þegar við jafnaðarmenn fluttum frv. fyrst hér á Alþingi á fyrstu dögum þingsins haustið 1978 og það var síðan í grundvallaratriðum tekið upp í 33. gr. Ólafslaga, ákvæði þar til bráðabirgða, þá var margundirstrikað — eins og menn geta séð í þskj. og hvar sem er — að þetta hangir saman við félagslegar annars konar lausnir á húsnæðismálunum. Það er kjarni málsins. Og ríkisstj. hefur svikið það, getur ekki annað og gerir ekki annað í og með vegna þess að t.d. hæstv. ráðh. Alþb. hafa aldrei skilið raunvaxtastefnuna, hafa verið á móti henni frá upphafi. Það er ekki von á að slíkir menn verði að gagni. Í mars eða apríl 1979, þegar við vorum saman í ríkisstjórn, jafnaðarmenn, Alþb.-menn og framsóknarmenn, og þegar Ólafslögin voru samþ. hér og það hét svo að Alþfl. hefði fengið mikið fram, liðu ekki nema nokkrir dagar uns Þjóðviljinn byrjaði að ráðast á okkur í leiðurum og fullyrti að við ættum að sjá hvernig færi með húsbyggjendur. Dag eftir dag réðust þeir á okkur þegar kom að fyrstu hækkununum 1. júní og 1. sept., og það var eftir eina slíka aðför sem stjórnin sprakk haustið 1979. Við höfundar laganna sátum undir stöðugum árásum eins stjórnarflokksins. Vitaskuld eru verðtryggðir vextir erfiðari, og hugsum það orð í gæsalöppum, „erfiðari“, fyrir þann sem lánið tekur en niðurgreiddir vextir. Það segir sig alveg sjálft. Hægt er að undirstrika það. En á hinn bóginn fá fleiri lánin þegar þau eru verðtryggð og minna fer í súginn í ónýtar og einskis nýtar fjárfestingar. Þar liggur sparnaðurinn.

Samkv. upplýsingum, sem ég hef aflað mér um þessi efni, vantar eftir þessa hækkun, sem orðið hefur að tilhlutan Seðlabankans enn mikið á að raunvextir svokallaðra almennra útlána — þá er átt við víxla, hlaupareikninga og skuldabréf — séu jákvæðir. Þeir eru enn neikvæðir um á bilinu 8–10% eftir því hvernig reiknað er. Og um hvað eru menn að tala? Þetta eru enn neikvæðir vextir, þessir vaxtarverkir sem ríkisstj. er að taka út. Eins og hv. 2. þm. Reykn. orðaði það hér í gær: Þetta er spurning um hvort hinn fullorðni þjóðfélagsþegn, því að oft er þetta það fólk, sem leggur 100 kr. inn í ársbyrjun, fær 70 eða 80 kr. í árslok. Það er allt og sumt. Ríkisstj. engist í átökum sundur og saman og upp og niður um hvort fullorðni maðurinn fær 70 eða 80 kr. fyrir hverjar 100 kr. Það er undarleg ríkisstj. og undarleg vinstri stefna, vildi ég segja, að flytja peningana til svona. Hvað halda menn að vaxtamálin snúist um í grundvelli sínum? Þetta er flutningur á fé frá sparifjáreigendum til þeirra sem fá 3/4 af lánum, fyrirtækjanna, og þetta er spurning um hvort rýra eigi hjá sparifjáreigendunum til að geta niðurgreitt lán hjá fyrirtækjunum. Það er ekki að furða þótt Gunnar vilji hafa þetta svona. Hann hefur staðið fyrir því alla tíð, þeirri uppreisn, það er engin furða. En það er furða með piltana þrjá í ríkisstj., hæstv. ráðh. Alþb. Það er mikil furða að þeir skuli enn ekkert vera nema þrír litlir Lúðvíkar, að þeir skuli reka hér heimspeki hv. fyrrv. þm. Lúðvíks Jósepssonar. Það er augljóst að Þröstur Ólafsson og Ólafur Ragnar hafa ekki getað komið fyrir þá vitinu ennþá í þessum efnum, því að ég er sannfærður um að þeir tveir menn eru annarrar grundvallarskoðunar en litlu Lúðvíkarnir þrír í ríkisstj. Ég er sannfærður um að það er heimspeki hv. fyrrv. þm. Lúðvíks Jósepssonar sem ræður. Ég minni á að þegar við deildum hér um þetta fyrst haustið 1978, þá réðist hann að okkur jafnaðarmönnum af mikilli hörku, eins og hans var von og vísa, og fann okkur það helst til foráttu að við hefðum aldrei rekið hænsnabú, eins og hann orðaði það. Hv. þm. Lúðvík fann að því að við skyldum aldrei hafa verið atvinnurekendur og hafa ekki reynslu sem slíkir. Mér er ljóst að við erum að tala frá svolítið mismunandi sjónarhólum í þessum efnum. En að eftirmennirnir þrír skuli koma í halarófu á eftir gæsamömmu og endurtaka þessi vitleysisrök hver um annan þveran er hryggilegt. Það er hryggilegt fyrir framtíð íslenskrar vinstri stefnu að það skuli vera orðin örlög þessara manna að sitja í ríkisstj. sem greinir á milli vaxta, hinna háu launamannavaxta, þó ekki raunvaxta, og mjög lágra fyrirtækjavaxta og flytur fjármagn miskunnarlaust til.

Þeir segja að það þurfi að herða sultarólina. Þeir eru hér með brbl.Hæstv. viðskrh. mismælti sig nú reyndar í gær eða hélt að búið væri að leggja þau fram, en það er ekki búið. — Um hvað fjalla þau brbl.? Um að taka af launafólki 10–11% af launum af því að það þarf að herða sultarólarnar, eins og þetta kreppufólk tekur til orða þegar á þarf að halda. Herða sultarólarnar? En hvað er réttari leið, — við skulum nota það kreppuorð, herða sultarólarnar, — heldur en að lánsfjármagnið gangi á réttu verði? Auðvitað eiga einhverjir að herða sultarólarnar, fyrst og fremst fyrirtækin. Hluti af lánakerfinu á svo að vera á félagslegum grunni, tekinn út fyrir sviga, fyrst og fremst húsnæðislánakerfið. Ef við hefðum alvöruríkisstj. og værum að leysa málið með þessum hætti, hugsið ykkur hvaða gagn og greiða við værum að gera samfélaginu ölu. — Hún mundi þá reka þennan mann á morgun og hækka vextina þar. Alvöruríkisstj. ætti vitaskuld að reka hann á morgun. Það eru 28–29% svindlvextir þarna hjá Framkvæmdastofnun, sem er náttúrlega æpandi dæmi um óheiðarleik í þessu kerfi öllu, fyrir utan það að maðurinn er búinn að sitja hér bæði sem þm. og framkvæmdavaldshafi, sem er mál út af fyrir sig. Þeir hafa komið og gortað hér af því að hafa hækkað vextina frá 22 % upp í 28 % og ætlast til að þingið klappi fyrir sér. Hverjir fá lánin? Skoði menn listana. Þeir mega eiga það að þeir birta lánalistana, sem er þó til fyrirmyndar.

Svo tala þessir menn núna eins og vandinn sé verðtrygging. Þvílíkur vanskilningur! Vandinn er auðvitað ekki verðtrygging. Vandinn er ekki sá að reyna að tryggja fullorðnu fólki, börnum, almennu launafólki, að eignir þess, og réttmætar eignir, brenni ekki upp. Það getur ekki verið vandi nokkurs manns eða nokkurs þjóðfélags. Vandinn er sá, að verðbólgan er of há. Vandinn er sá, að þegar útgerðin krefst þess að fá hærra fyrir sínar afurðir erlendis og menn láta það flæða yfir samfélagið allt í formi gengisfellinga rjúka þessar tölur upp. Við erum að reyna að tryggja börn og gamla fólkið, að það verði ekki út undan, að það þyngist ekki á þeim að sama skapi. Ég man eftir því þegar ég var að alast upp hér á viðreisnarárunum og Þjóðviljinn kom inn um dyrnar h já okkur á morgnana. Þar var mynd af krónu sem átti að sýna siðleysi — og það var alltaf hreint sama krónan og birt vikulega — viðreisnarinnar. Svo var alltaf höggvið í hana, eins og 10% á ári. Þetta hefur hún rýrnað, sagði Einar gamli Olgeirsson og fleiri. Þetta var alveg rétt hjá þeim. 10% verðbólga var mikil. Krónan rýrnaði um þetta. Og þeir sýndu sparifjáreigendurna og þeir sýndu sitt fólk. Skoði menn þetta núna. Skoði menn mismuninn. Hvar er hann, ungi blaðamaðurinn sem þá var? Lesi menn ræðuna hans frá því í gær og hugi menn að myndinni af krónunni sem rýrnaði um þetta litla brot í þessum efnum en ekki meira þó vegna þess að þá, þrátt fyrir allt, þrátt fyrir utanríkispólitíkina og þrátt fyrir allt, stóðu þessir menn fyrir eitthvað sem kalla má móral í samskiptum manna, móral í viðskiptum. Menn gera það ekki lengur. Þessar myndir voru réttar. Það var gagnrýni vert, að viðreisnin skyldi vera með 9–10% verðbólgu meðan hún var 3–4% í öllum viðskiptalöndum okkar. Það var skelfilegt. Maður varð að vera sammála þessum vikulegu forsíðum Þjóðviljans að því leyti til.

En einn talsmaður útgerðar hefur þó mælt betur og skynsamlegar en þeir hafa gert um langa hríð og það er Ágúst Einarsson, sem er hagfræðingur hjá Landssambandi ísl. útvegsmanna. Á baksíðu eins dagblaðanna um helgina er hann spurður um þetta. Þetta er í Morgunblaðinu. Hann segir ekki það sem að þessu leytinu til er Morgunblaðinu alveg þóknanlegt, því hann segir — og ég vitna í viðtalið, með leyfi hæstv. forseta:

„Annars eru vextir einföld afleiðing verðbólgunnar í landinu og meðan ríkisvaldið gerir ekkert til að lækka verðbólguna, þá er ekki hægt að búast við öðru en að vextir hækki í samræmi við hana. Vextir munu ekki lækka hér á landi fyrr en tekist hefur verið á við verðbólguna.“

Þetta er auðvitað hárrétt. Þetta er kjarni málsins. Svik ríkisstj. í fyrsta lagi við sparifjáreigendur og í öðru lagi við húsbyggjendur, sem hvort tveggja eru mikil, eru fólgin í því að verðbólguhæðin skuli vera sennilega yfir 60%. Það eru hin raunverulegu svik. Þeir ætla að koma henni niður. Þeim hefur mistekist. Hvað með niðurtalninguna, sem er náttúrlega fimmaura brandari í þjóðfélaginu? Hvar er hún? Hverju lofuðu þeir? Ríkisstj. sem svíkur má sitja á 31, ég er alveg með á því, lögfræðilega. Jafnvel þótt Friðjón Þórðarson og Eggert Haukdal labbi út getur hún setið fræðilega á 30:30 og það er allt í lagi með það. Hún má sitja þess vegna. Hún ver sig vantrausti og er í sínum rétti og hefur ekkert að segja þó að ríkisstj. eigi að koma lögum í gegn. Þetta er allt rétt hjá dr. Gunnari. En ríkisstj. hefur svikið að ætla með niðurtalningu að koma verðbólgunni niður. Hún hefur þar með svikið sparifjáreigendur og þar með svikið húsbyggjendur og svikið alla. Hún á að fara. Og það er þess vegna.

Bankamálaráðh. hefur lög um að vextir skuli vera réttir og það átti að vera orðið svo fyrir einu og hálfu ári rúmlega. Hann hefur svikið. Hann framkvæmir ekki lög. Í Brettandi væri auðvitað flutt vantraust og samþykkt 59:1 á svona mann — eða 2 kannske, Stefán Valgeirsson, — en ekki hér. Og það er skelfilegt. Mitt mat er að kynslóðin sem kemur á eftir okkur leggi á það þungan dóm þegar hún horfir á verðbólguna, vextina og hæstv. bankamálaráðh., þessa þrenningu. Geðleysið, að sitja og láta sem ekkert sé, er kannske alvarlegast. Svo kemur hæstv. félmrh. hér í gær og hann ætlar að reyna að klína þessu á okkur jafnaðarmenn. Það er eins og hann hafi ekki vitað um tillögur okkar í húsnæðismálum, hafi ekki vitað að það var ævinlega undirstrikað að taka húsnæðislánakerfið út fyrir sviga.

Eitt til viðbótar. Ég vitna eftir minni í þjóðhagsáætlun frá því í fyrra, sem hér var mælt fyrir. Þar var, eins og vonlegt var, ríkisstj. hrósað. Eins og allar ríkisstj. á hún náttúrlega hrós skilið fyrir sumt og ekki eru þetta vondir menn, ekki neitt slíkt. En hvað var aðalhrósið og mest undirstrikað? Jú, það var að innlán í bankakerfinu hefðu aukist. Hverju var þakkað? Jú, verðtryggingunni. Það er rétt, að vextir voru í þann tíð minnst neikvæðir. Það vantaði ekki að þá hrósuðu þeir sér. En nú skamma þeir okkur. Það er undarleg hringrás í þessum málum. Stjórnin er í andarslitrunum. Það er verðtryggingarstefna Alþfl., segja þeir. Alþfl. er búinn að vera í stjórnarandstöðu á þriðja ár. Af hverju breyttu þeir ekki lögunum, a.m.k. meðan þeir höfðu Haukdal og meiri hlutann, og komu þá á þeim verðtryggingarlögum sem þeir vildu og framfylgdu þeim? Af hverju brutu þeir lög? Af hverju hefur bankamálaráðh. brotið lög? Það er undarlegt að sitja og segja ekki neitt. Það er það eina sem hann getur sennilega.

Það hafa orðið hér undarlegar umr. Ríkisstj. er komin í hár saman við Seðlabankann, sem lögum samkv. á að ákveða þessa hluti; í seðlabankalögunum, 13. gr., frá 1961 Síðan eru ráðherrarnir innbyrðis komnir í hár saman. Látum allt þetta vera. Svona ágreiningur á að fara fram fyrir opnum tjöldum, það er ekkert verið að finna að því. Seðlabankinn á að hlusta á ríkisstj. og hann á síðan að taka ákvörðun. Við verðum að skilja að seðlabankalögin 1961 eru ekki sett út í loftið. Þau eru sett að erlendum fyrirmyndum þess tíma til þess að vaxtaákvarðanir séu ekki háðar pólitískum sviptivindum, heldur séu ákvarðanir óháðar hinum pólitísku sviptivindum. Svona hugsun höfum við víðar í kerfinu. Af sömu ástæðum t.d. er dómsvaldið óháð hinum bandormunum tveimur. Þess vegna var þetta sett inn. En það var fleira sett inn. Þetta er sama hugsunin og með fiskverðsákvarðanir. Því kerfi eru menn að bylta í upphafi viðreisnar líka. Þá settu menn inn hæstaréttardómara fyrst, eins og menn kannske vita, en hurfu frá því og settu á Efnahagsstofnun eins og það heitir enn í lögunum frá 1964. Síðan, og einkum eftir 1970 eða 1971, hættu menn að framkvæma lögin svona og gerðu þessa ákvörðun að ríkisstjórnarákvörðun og þá byrjaði skelfingin. Það er ekkert óeðlilegt við þá pólitík að löggjafarvaldið taki þá ákvörðun að tiltekin ákvörðun eigi betur heima annars staðar en hjá hinum kjörnu fulltrúum. Það er auðvitað alveg hell brú og miklu meira; það er virðingarverð hugsun. Þannig er þetta hugsað. Menn geta haft persónulegar skoðanir á Jóhannesi Nordal og að hann eigi ekki að vera í Landsvirkjun og einhverju slíku. Það kemur ekki „prinsippinu“ við. Það er svona sem þetta er hugsað. Og ráðherrar eiga ekki að vera með puttana í. Það á engu máli að skipta hvort ráðh. er fyrirtækjaráðherra, eins og dr. Gunnar eða launamannaráðherra eins og Svavar vill vera. Það á engu máli að skipta að því er þessa ákvörðun varðar. Þetta á að vera annars konar ákvörðun. Við getum út af fyrir sig lagt til að stjórnarskránni yrði breytt og dómsvald yrði fært inn á Alþingi og þar yrði rætt hvað væri rétt og rangt. Engum dettur það í hug. Við viljum hafa það vald óháð sviptivindum hins pólitíska valds. Sama er um Seðlabankann. Þetta var hugsunin í lögunum upphaflega, og skoði menn málatilbúnaðinn með þeim hér á þinginu 1961. En þetta hefur ekki verið framkvæmt svona. Það er vandinn. Svo eru menn alltaf að rugla saman við persónum þeirra sem eru í seðlabankastjórn, láta þær fara meira eða minna í taugarnar á sér. Það kemur þessu máli ekkert við. Seðlabanki ríkisins á að búa við tiltekin „prinsip“. Það verð ég að segja, að að því er þessar ákvarðanir varðar treysti ég betur Seðlabankanum en hæstv. ríkisstj., af því að það er auðvitað lýðskrum, hreint lýðskrum, sem einkum ráðh. Alþb. fluttu hér í gær og hafa alla tíð flutt í þessu máli. Það er ómerkilegasta tegund af lýðskrumi, enda held ég að æ fleiri séu farnir að sjá í gegnum það.

Kjarni málsins er sá, og ég vek athygli á því, að í töflum, sem birtar eru frá Seðlabankanum og eru birtar á bls. 25 í Morgunblaðinu á laugardag, eru eyður við svokölluð endurseljanleg lán. Ríkisstj. hefur ekki ákveðið hvað þar komi. Menn velta fyrir sér hverjir það eru nú sem eru með þessi endurseljanlegu lán. Það er taflan, sem er fyrir margra hluta sakir athyglisverð, sem undirstrikar mismuninn á launamannavöxtunum og fyrirtækjavöxtunum, sem er sjálfur kjarni þessa máls. Afstaða jafnaðarmanna að því er varðar verðtryggingu hefur verið ljós um langa hríð. Hún er sú, að inn- og útlán skulu verðtryggð. Áður en það gerist fáum við ekki vit í þetta efnahagskerfi okkar. Það er ekki siðferði til staðar þegar svo er ekki. Svo er ekki heldur vit í þessu, vegna þess að ef þetta er ekki svona er enginn mælikvarði á það hvort menn fjárfesta vel eða illa, rétt eða rangt. Fjárfestingarnar eru allar skakkar. Peningar fara í hreina vitleysu, þeim er sólundað. Skoði menn Framkvæmdastofnun ríkisins, sem er ein sóun, sé hún ennþá til.

Kjarni málsins er sá: Vitaskuld erum við þeirrar skoðunar, að Seðlabankinn leggi rétt til alveg eins og honum ber. En málið er að það verður að breyta forsendunum. Í fyrsta lagi þarf ríkisstj. sem situr ekki aðgerðarlaus í 60% verðbólgu. Þess vegna er þessi ríkisstj. ónýt, þess vegna ætti hún að vera farin frá fyrir löngu. Ráðh. lofuðu öðru og þeir hafa svikið það. Auðvitað kenna þeir um ytri aðstæðum og einhverju, eins og þeir eru vanir, en það er ekki málið. Þeir lofuðu og þeir hafa svikið. Þess vegna eiga þeir að fara frá og því fyrr því betra svo að aðrir geti tekið við eða kosningar. — Þeir sviku. Hvað var niðurtalningin? Hverju lofuðu mennirnir? Út á hvað fengu þeir atkvæðin og meira að segja bættu við sig þm.? Svo svíkja þeir og þeir bara sitja í pólitísku geðleysi. Þeir eiga að fara frá. Öll ógæfan er sú, að verðbólgan er of há. Þess vegna eru vextirnir, hinir pappírslegu vextir, vextirnir á pappírnum, of háir. Og auðvitað eru þeir það. Ef verðbólgan hér væri 11% og vextirnir 11.5 væru allir ánægðir og enginn fyndi að því. Verðbólgan er það, að ráðh. láta undan útgerðinni í hvert skipti sem hún heimtar gengisfellingu og sýnir á eigin pappírum eigin rekstur, sumt satt og sumt logið. Ráðh. láta undan og fella gengið, færa peninga til útgerðarinnar með þeim hætti. Þá hækka auðvitað erlendu vörurnar, svo mælist það inn í kerfið og allt hækkar. Þetta þekkjum við. Ríkisstj. hefur ekki staðið sig betur en þetta og ætti auðvitað að vera farin frá fyrir löngu og segja: Okkur tókst ekki það sem við lofuðum. — Það er það sem er vandinn í þessum efnum.

Í öðru lagi eiga vextir að vera réttir, en á sama tíma verðum við að viðurkenna, og það er kjarni málsins, að hluti lána er félagslegur. Það er fyrst og fremst átt við lán til húsbyggjenda. Fyrir vikið á að taka þau út fyrir og þau lán eiga að vera til mjög langs tíma og afborganir ekki hærri en nema leigu. Þetta er mjög einföld hugsun. Það varð að skapa fé meðan verið var að koma húsnæðislánakerfinu af stað með þessum hætti. En ríkisstj. hefur ekkert gert í þessum efnum. Þess vegna er núna heil kynslóð andsnúin því efnahagskerfi sem hún býr við af mjög eðlilegum ástæðum. Það er félagskerfið sem ræður því. Ungt fólk, sem er sett í þá stöðu að það er að byrja að byggja og búa og sér þjóðfélagsástand sem leyfir því ekki að byggja yfir sig mannsæmandi húsnæði, getur ekki verið og á ekki að vera hrifið af þjóðfélagsgerðinni sem það býr við.

Þetta er ríkisstj. að kenna. Þeir geta setið hér og ausið og gusað yfir okkur jafnaðarmenn fyrir að vilja verðtryggja spariféð, sagt: Þetta er ykkur að kenna. En þessir menn eru búnir að sitja í þrjú ár. Þeir höfðu meiri hlutann hér áður en hv. þm. Eggert Haukdal hljóp. Þeir gátu sett hvaða lög sem þeir vildu. Af hverju settu þeir ekki lögin sem þeir vildu? Það er einkennilegt að kenna 10 manna þingflokki í stjórnarandstöðu um það sem mistekist hefur. Af hverju kom ekki bankamálaráðh. og lagði fram það vaxtafrv. sem hann vildi og lækkaði vextina eða gerði hvað hann vildi? Satt að segja var málflutningur í gær yfirgengilegur hvernig sem á er litið. Og svo sperrir hæstv. félmrh. sig í ræðustólnum og segir: Þetta er Alþfl. að kenna, — 10 manna stjórnarandstöðuþingflokki. Ég veit að ríkisstj. hefur ekki löggjafarvald núna, en hún hafði það þangað til í sumar meðan Haukdal var. Hann er að vísu farinn. Af hverju notuðu þeir sér það ekki meðan þeir höfðu Haukdal og settu vaxtalögin sín, vaxtareglurnar? Nei, stjórnarandstöðunni að kenna, sagði hann hér aftur og aftur, þ.e. Alþfl., því að Sjálfstfl. hefur víst ekki skoðun í þessu máli frekar en flestum öðrum.

Það er þetta sem er inntakið í okkar málflutningi. Hér var sagt í gær að stjórnarandstaðan hefði engar tillögur. Hæstv. viðskrh. hélt því fram. Þetta er rétt að því er Framsfl. varðar, en þetta er rangt að því er Alþfl. varðar. Ég krefst þess að hæstv. ráðh. viðurkenni það hér í umr., að í þeirri stefnu, sem hér hefur verið lýst af hv. 2. þm. Reykn. í gær og svo aftur mér í dag, felast mjög ákveðnar skoðanir í þessum málum. Hins vegar gagnrýnum við mjög tvennt: svikin í húsnæðismálunum og verðbólguhraðann, sem er ykkur að kenna, herrar mínir, og ekki innflutt. Hún er ykkur að kenna að 3/4 og það er það sem er málið. Þar hafið þið látið undan, skráð gengið fyrir mjög þröngan hóp í þjóðfélaginu o.s.frv. Það er orðfæri hæstv. félmrh., en andi dr. Gunnars sem ræður í þessari ríkisstj. Það er þetta sem er kjarni málsins.

Öll þessi deila undirstrikar andarslit núv. hæstv. ríkisstj. Hún má sitja hér og kenna jafnaðarmönnum um. Hún má sitja hér og kenna þjóðfélaginu öllu um, öllu því fólki sem réttilega er óánægt með þetta. Hún getur kennt öllu öðru um. En meðan hún er að því á þessum nótunum kennir hún engum aðilum um öðrum en sjálfri sér. Þetta er henni sjálfri að kenna. Þeir lofuðu lægri verðbólgu og þar með lægri vöxtum, en þeir sviku það. Þeir lofuðu framförum í húsnæðismálum, þeir sviku það. Þeir hafa ekki enn lofað að fara frá og þess vegna ekkert svikið í þeim efnum, en það er nákvæmlega það sem þeir ættu að gera.

Stefna okkar er skýr og ljós í þessum málum. Stefna Sjálfstfl. er óskýr og óljós, sé hún til, og hér eiga þeir eftir að tala sem verður kostulegt að fylgjast með. En stefna ríkisstj. er svo skýr og svo ljós sem heyra mátti í umr. í gær, þar sem þeir hnakkrifust hérna sundur og saman og rífast svo við Seðlabankann. Þetta kerfi gengur auðvitað ekki og hefur aldrei gengið. Vextir eiga að vera réttir. Menn eiga að fá verðtryggingu og einhverja smávægilega þóknun fyrir að leggja fé sitt fyrir, en það verður að keyra verðbólguna niður á móti og draga félagslegu lánin út úr. Allt þetta þrennt hefur brugðist. Í því eru svikin fólgin. Þess vegna gerið þið samfélaginu, herrar mínir, mest gagn með því að víkja sem fyrst og láta helst aldrei sjá ykkur aftur.