02.11.1982
Sameinað þing: 12. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

Umræður utan dagskrár

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Þessi umræða er nú orðin ærið löng og e.t.v. ekki ástæða til að bæta mörgum orðum við hana. En það verð ég að segja, að í þau ellefu ár rúm sem ég hef átt sæti á hinu háa Alþingi hafa engar umr. orðið með þeim hætti sem maður varð áheyrandi að hér í gær. Fyrir ráðh. og hæstv. ríkisstj. eru lagðar fsp., sem þeir og svara, en menn urðu engu nær um stefnu hæstv. ríkisstj. Nú var það helst von mín að flokksfélagi minn sem svo á að heita, hæstv. forsrh., sem gaf sér tíma til þess að sitja hér andartak í dag, mundi hlaupa undir bagga og gefa okkur einhver svör. Og nú beini ég því til hæstv. forseta vors að hann athugi um það að kalla þessa hæstv. ráðh. hér til umr., af því að við erum að fjalla um ein mikilvægustu þjóðmálin sem menn hafa handa í milli í dag. Væri nú kannske ekki ráð að senda einhverja dráttarbáta upp í stjórnarráð að draga kapteininn af strandstaðnum og hingað niður eftir því hér á hann að vera? Ég sakna hæstv. félmrh., formanns Alþb., ég á erindi við hann, og ég sakna formanns Framsfl., svo ruglaður sem hann annars er í ríminu, bæði í þessu rími sem öðru, en ég þarf að leggja fsp. fyrir hann einnig. Ég þarf alveg sérstaklega að spyrja formenn Alþb. og Framsfl. að því hversu lengi þeir ætli að láta hafa sig að ginningarfíflum og sína flokka.

Það var dapurlegt, og sérstaklega af því að mér er nokkuð vel til þess manns af ýmsum ástæðum, að hlusta á svör hæstv. viðskrh. Hann skýrði frá því að frá Seðlabanka hefði komið erindi 11. ágúst um vaxtamál. Og nú er óhjákvæmilegt að menn geri sér grein fyrir því að það gilda lög um þessi efni, lög sem framkvæmdavaldinu ber að fara eftir og á ekkert að hafa um að segja að öðru leyti. En við hér á hinu háa Alþingi, og á þetta hef ég bent þrásinnis, höfum orðið að búa við það og látið okkur það lynda, því miður, að horfa upp á framkvæmdavaldið fara eftir lögum og að lögum að vild sinni. Og við höfum séð þetta í fleiri efnum en beinhörðum lögum reyndar, sem er skaðminna, þar sem þeir hafa foraktað þáltill. æ ofan í æ. — Það er einhver annar en ég sem á þessi skilaboð um að tala til kl. 4. En það eru sjálfsagt einhver tímamót í framboðsmálum í prófkjöri sem þarna skera úr um. En ég er ekki einn af þeim. (Gripið fram í: Það gæti verið til 4 í nótt.) — Þrátt fyrir skýlaus lagaákvæði sem um þetta gilda leyfir hæstv. viðskrh. sér að lýsa því yfir að það sé mikil tregða í ríkisstj. og stjórnarliðinu að fallast á hækkun vaxta. Hvað ætlar hið háa Alþingi lengi að láta bjóða sér þvílík vinnubrögð og þvílík andsvör um framkvæmd laga sem í gildi eru?

Hann gat þess hæstv. viðskrh., að þegar slík erindi sem þessi kæmu frá Seðlabanka væri nú mikið ráð og æskilegt að fljótt væri brugðist við um slíkar ákvarðanir. Það er alveg rétt. Það þykir mikill siður og góður að bregðast fljótt við í gengisbreytingarmálum og í stjórnun peningamála. En hvað skeði? Það liðu ellefu vikur þar til þetta var framkvæmt og svo er staðið hér upp og sagt að það sé mikilvægt að vera fljótur og bregðast fljótt við þegar svona rekur á fjörur manna, eins og þessi lögboðna ákvörðun um vaxtabreytingarnar var. En þeir standa frammi fyrir því, að atvinnuvegirnir eru vitanlega að stöðvast, aðalútflutningsatvinnuvegir okkar eru að stöðvast vegna óðaverðbólgunnar. Við getum ekki haldið áfram að flytja út kostnaðarhækkanir vegna verðbólgunnar. Og auðvitað er þeim ekkert haldið gangandi nema með áframhaldi gengissigs eða gengisfalls, eða hvað sem þeir vilja nefna þetta, og vítahringurinn heldur áfram sem aldrei fyrr. Þeir hafa haldið gangandi útflutningsatvinnuvegunum allt þetta ár með seðlaprentun niðri í Seðlabanka, ég get borið vitni um það. Og því á að halda áfram — baneitraðasta ráðið sem menn geta brugðið á þegar verðbólga geisar. Og allt er þetta gagnslaust „gymnastik“, allt sem þessir menn þykjast vera með handa í milli, eins og komið er okkar verðþróunarmálum, sem þessi ríkisstj. á aldrei eftir að fá fangs á og ber þess vegna að víkja frá.

Ég hef aldrei heyrt önnur eins svör hjá ríkisstjórnarmönnum og gáfust hér í gær. Það var auðvitað bágborið upplit á hæstv. ríkisstj. þegar að hún var að ganga fyrir ætternisstapa, ég minnist þess, 1974 og menn áttu ekki fóður undir fat. Það var auðvitað dapurleg sjón að sjá liðið sem æddi hér um, upplausnarlið stjórnarinnar, 1979 og gafst þá upp með aumkunarverðum hætti. Svona upplit á einni ríkisstj. hef ég aldrei séð, ekki viðlíka.

Það er talað um að ráðherranefnd hefði verið skipuð sama daginn og ríkisstj. ákvað að framkvæma þetta. Enginn þarf að segja manni, enda má vitna í yfirlýsingu Seðlabankans og embættismenn þar, að þeim detti í lifandi hug að birta yfirlýsingu um samráð við ríkisstj. nema af því að það hefur verið haft. Og það stendur þar skýrum stöfum. Auðvitað tók ríkisstj. ákvörðun um framkvæmd laganna, eins og vera bar og vera ber og þarf ekki að skjóta sér á bak við dr. Jóhannes Nordal eða neinn annan. Svo koma ráðh. hér og segja að stefna ríkisstj., eins og hæstv. viðskrh. sagði, væri að fara varlega í þessum sökum og þeir hefðu skipað fjögurra manna ráðherranefnd á fimmtudaginn til að fara að ræða þessi mál, 11 vikum frá því sem þeir fengu fyrstu tilkynninguna frá Seðlabankanum. Og hæstv. fjmrh. í þessu vesalings litla ríki okkar kemur hér upp og segist ekki vera sáttur við vaxtaákvarðanir sem um gilda skýlaus lög. Fjármálaráðh. í ríkinu segist ekki vera sáttur við ákvarðanirnar og að þær hafi komið sér á óvart. Hvar er komið högum þessara vesalings manna, sem eiga að heita hæstv. ráðh. og manni bera að ávarpa svo samkvæmt þingsköpum? Hann vefengir ekki, segir hann, að þeir hafi lagalegan rétt. Hann gerir það að vísu ekki, en hann er ekki tilbúinn til þess að framfylgja lögunum. Þessi maður, sem við höfum kosið hér eða þetta háa Alþingi, — að vísu ekki ég sem að líkum lætur — álítur sér ekki bera nein skylda til þess að framfylgja þessum skýlausu lögum. Og hann er andstæður því að framfylgja þeim og hann gagnrýnir Seðlabankann og tekur til að þetta hafi komið „eins og þjófur úr heiðskýru lofti“. Svo gera þeir hér upp í Hlaðbúð, Alþb., sérbókun á samþykkt um verðbótaþáttinn o.s.frv., að vaxtahækkunin fari ekki fram úr verðbótaþætti á hækkun launa. Allt saman yfirskin og út í bláinn!

Viðskrh. endaði sína ræðu á því að gagnrýna Sjálfstfl. fyrir andstöðu við brbl. Hvað vilja nú hæstv. ráðh. vera að minnast á þetta óbermi, sem heitir brbl., og hvar eru þau? Hæstv. viðskrh. hefur ekki hugmynd um hvort hæstv. forsrh. ætlar að leggja þau fram eða ekki. (VG: Hann hélt að það væri búið að því.) Ja, hann hélt það já. (Gripið fram í: Hann vissi ekki betur.) Já, það er ekki spaug að þessu, það er ekki spaug að þessum ruglingi öllum saman. En hann veit hvorki hvort það er búið né hvort það stendur til. Hann hefur ekki hugmynd um það, hæstv. ráðh. Allt er þetta upplit aumkunarvert.

En hvað fela brbl. í sér, eins og hér hefur verið bent á? Dettur mönnum það lifandi í hug að það verði ráðið til þess að bjarga okkar verðbólgumálum að seilast æ ofan í æ til hinna lægri launuðu í þjóðfélaginu og skera niður verðbæturnar? Dettur mönnum það í hug í 60–70% verðbólgu? Auðvitað er það mikilsvert ef verkafólkið í landinu telur sér tök á að gefa eftir. Auðvitað dregur það úr sem einn þáttur, getur verið mikilsverður þáttur, en að ætla að beita þessu sem reglu í þessari fljúgandi verðbólgu hlýtur óðar í bili að stefna til opinnar styrjaldar við þá sem eiga að gæta hagsmuna hinna lægst launuðu. Þetta sér hver heilvita maður. Ég er ekki að gagnrýna aðferðina út af fyrir sig, ef þannig stendur á að margvirkum aðgerðum er beitt í senn og hægt er að ná um það góðu samkomulagi við launastéttirnar að þær gefi eftir á þessu sviði. En í þessum ógnum, sem yfir dynja núna um verðbólgu og verðlagsþróunina sjálfa, mega menn ekki láta sér til hugar koma að þetta geti gengið eða taki nokkru tali.

Og hann segir, hæstv. viðskrh., að ef við ekki samþykkjum brbl. þeirra rjúki verðbólgan upp í 70–80%. Hún gerir það hvort sem er. Hún gerir það auðvitað hvort sem er. Þetta er allt saman á hverfanda hveli.

En hann kom svo hér hæstv. sjútvrh., formaður Framsfl. Hefur hæstv. forseti gert einhverja tilraun til að draga þessa menn hingað niður eftir til þess að tala við okkur? (Forseti: Hæstv. sjútvrh. er með fjarvistarleyfi á þessum fundi.) Það á ekki að gefa honum það. Hér þyrfti hann að vera því að hann þarf að fara að átta sig á hlutunum. — Hann tilkynnti að framkvæmd þessarar lögbundnu stefnu, þessarar stefnu sem ríkisstjórnin tók auðvitað ákvörðun um að framkvæma að þessu leyti og fól Seðlabankanum að framkvæma, muni leiða til greiðsluþrots hjá fyrirtækjunum í fiskiðnaði og sjávarútvegi. Hæstv. sjútvrh., formaður Framsfl., meginstólpi þessarar hæstv. ríkisstjórnar, tilkynnir „að framkvæmd þessarar stefnu hlýtur“, segir hann, „að leiða til greiðsluþrota hjá fyrirtækjunum.“ Afkoma frystingarinnar í núlli — gengisaðlögun kallar hann þetta hrap sem hefur orðið á genginu undanfarnar vikur — hrökkvi hvergi nærri til að mæta þessari nýju stefnu, sem þeir kalla svo, þessari framfylgd láganna um vexti. Hvað ætla þá þessir herrar að gera? Hvað er næst?

Ég krefst þess, herra forseti, að þessari umr. verði ekki slitið fyrr en við fáum alveg sérstaklega að ganga á hæstv. forsrh. um það, hver hans stefna er. Engin heil brú er í því sem komið hefur fram hjá þeim hæstv. ráðh. sem fyrir svörum hafa setið og ég hlýt og við hljótum að eiga kröfu á því hér á hinu háa Alþingi að fá að heyra hans álit. Hann flutti stefnuræðu fyrir okkur hér á dögunum, þar sem engu einasta orði var vikið að þessum mikilvæga þætti. Raunar er mér ekki margt, og ekkert, minnisstætt úr þeirri ræðu nema þar sem sagði: „Á öllu veltur“, sagði þar í næstsíðustu málsgreininni, „að við stöndum saman, tökumst á við erfiðleikana og verðum ekki sundrungaröflum að bráð“. Sælir eru þeir sem heyra slík orð og varðveita þau. Kannske mætti hafa þetta öðruvísi og segja: Heimskir eru þeir sem hlusta á slíka hræsni. En sama er, þetta er mér minnisstætt. Og bræður mínir: Það má vel vera að ég eigi eftir að hafa þetta yfir í annan tíma, sér í lagi ef hann sýndi okkur þá virðingu að vera viðstaddur svo mikilvæga umræðu.

Ég hygg þó að frægust hafi ræða hæstv. spítalaráðherra verið, formanns Alþb. Maður verður að fara að kenna slíka hæstv. ráðh. við sjúkrahús því að ég sé ekki betur en þeir eigi þar helst heima. Hann tilkynnti að lög sem sett voru um þetta efni, vaxtamálin, þegar hann var bankamálaráðherra, og það eftir að hafa stjórnað þessu ríki í þrjú ár, að sú raunvaxtastefna, sem er meginundirstaða í peningamálum, hafi gengið sér til húðar. Þetta tilkynnir hann og þetta uppgötvar hann eftir að hann er búinn að missa tök á því að setja lög á Alþingi. Í þrjú ár stjórnar hann við þær aðstæður að það þurfi, eins og hann segir, að fara fram gagnger endurskoðun allra laga — og ég bókaði þetta eftir honum — sem varða peningamál í landinu. Þegar komið er að því að þessi hæstv. ríkisstjórn druslist frá völdum uppgötvar formaður annars burðarássins í þessari hæstv. ríkisstjórn að öll meginstefna í peningamálum hæstv. ríkisstjórnar hafi gengið sér gersamlega til húðar, að það þurfi að endurskoða öll lög sem varða peningamál í þessu landi. Ég man ekki hvort hann orðaði það svo, en ég hef bókað hér með upphrópun: Niður með Seðlabankann. Ég bið hæstv. forseta um að það verði flett upp á þessu, ef ég fer með rangt mál, en nokkurn veginn svona hljóðaði þetta. Og sökin á þessu öllu saman, þessari kórvillu í peningamálum, peningapólitík þessarar þjóðar, er sök Alþfl., kratavesalinganna sem komu þessu á hér um árið og er eitt af því fáa sem þeir hafa af viti gert! En meginsökin er auðvitað ekki þeirra. Alveg eins er hjá hæstv. forsrh. Það er alltaf einhverjum úti í löndum um að kenna hvernig komið er, það er einhverju ósjálfræði annarsstaðar á hnettinum að kenna hvernig komið er hér. Hjá hæstv. félmrh. er Vilmundi um að kenna hvernig komið er í peningapólitík á Íslandi. Þetta heitir nú að finna sér blóraböggul í lagi!

Menn spyrja hér hvort heldur menn standi með ríkisstjórninni eða Seðlabankanum. Ég veit ekki hvernig á að fara að því að standa með ríkisstjórninni, því ég veit ekkert hvar hún stendur eða hvaða afstöðu hún hefur í þessu máli eða öðrum. Hver er að tala um það og hver er að spyrja um hvort þeir standi með Seðlabanka, sem er að fara að lögum? Hvers vegna þarf að vera að spyrja um það? Mér er það minnisstætt, að þegar þessi vaxtamál voru hér til umr. á sínum tíma gerði ég ekkert annað en að spyrja kurteislega um hvernig fyrirtæki í sjávarútvegi og fiskvinnslu ættu að fara að standa undir þessum kjörum. Menn túlkuðu þetta sem svo, að ég væri algjör andstæðingur þessarar aðferðar og höfðu það eins og vant er að vilja sínum. Þeir tala mest til að mynda um fjármálapólitík Framkvæmdastofnunar sem aldrei hafa kynnt sér hana. Til að mynda er allt það fé, sem okkur hefur verið falið nú til þess að halda fyrirtækjum gangandi, auðvitað fullverðtryggt og við höfum ráðið því og talið enda þá lagalegu stefnu uppi. En þetta er ég ekkert að upplýsa menn um, því að þeir sem vilja geta haldið sig við sitt rórill að fara með rangt mál og fer það best og eru mælskastir þegar svo stendur á.

En það er auðvitað alveg ljóst, að með þessum aðferðum, sem hér hefur verið beitt, hefur vitanlega ekki gengið á öðru en halda útflutningsfyrirtækjunum gangandi með hrapandi gengi eða stórum gengisfellingum. Þau gátu auðvitað ekki staðið undir þessu, eins og þeim hefur verið búin rekstursaðstaða í þessu þjóðfélagi. Að sjálfsögðu gátu þau það ekki. Allt hefur þetta orðið samvirkandi til þess að nú flýgur verðbólgan áfram sem aldrei fyrr. Auðvitað er sjálfsagt mál að beita þessari vaxtastefnu, ef menn háfa tök á verðbólgunni og þröngva henni niður með hörðu. Við getum auðvitað þolað þessa vaxtapólitík þegar og ef við náum tökum á verðbólgunni. En þegar menn missa hana út úr höndunum á sér jafnharðan, eins og þessi hæstv. ríkisstjórn, er þetta ekkert annað en olía á eldinn, magnaðasta olía sem hægt er að nota, og allar þessar hundakúnstir í sektarútreikningum Seðlabankans, sem hann beitir nú við viðskiptabankana í landinu, sem þyrfti nú að finna í minningu þessarar ríkisstjórnar eitthvert sérstakt nafn á.

Ég sé að strandkapteinninn verður ekki dreginn að þessu sinni hingað niður eftir til þess að hægt verði að eiga við hann orðastað, enda auðvitað tilgangslaust. Það yrðu þá ekkert nema yfirhylmingar sem farið yrði með. Það hefur aldrei verið gert annað. Þessi hæstv. ríkisstjórn hefur aldrei komið til dyranna eins og hún er klædd alveg frá því hún var stofnuð. En kannske ritari Framsfl., hæstv. viðskrh., vildi taka fyrir mig skilaboð til hæstv. sjútvrh. og samgrh. og formanns Framsfl. Þau eru þessi: Hversu lengi ætlar hann að láta hafa sig að ginningarfífli? Hann hefur nefnilega verið hafður það og hans flokkur síðan í desember 1979. Hverjum má trúa fyrir slíkum skilaboðum til Svavars Gestssonar hér inni? Ég sé nú engan í bili. (Gripið fram í.) Já, það er mikið rétt. Vill hann svo vel gera og taka þá fyrirspurn mína til hæstv. heilbr.- og trmrh. hversu lengi hann og hans flokkur ætli að halda áfram að láta hafa sig að ginningarfífli? (Gripið fram í: Það verður ekki lengi.)