02.11.1982
Sameinað þing: 12. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í B-deild Alþingistíðinda. (194)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég held að ekki verði hjá því komist að ítreka enn við hæstv. forseta að hann sjái um að þeir hæstv. ráðherrar, sem í gær helltu úr skálum reiði sinnar yfir bæði flokka og menn hér á Alþingi, sjái sóma sinn í því að vera viðstaddir þegar okkur hinum óbreyttu gefst kostur á að ræða við þá og svara. Ég vil því gera þá kröfu til hæstv. forseta að hann geri ráðstafanir til þess að a.m.k. hæstv. félmrh., hæstv. fjmrh. og hæstv. samgrh. verði viðstaddir þá umr. sem nú heldur hér áfram. (Gripið fram í: Þeir munu vera að tala við Kjartan formann.) Ef ekki er hægt að ná þessum hæstv. ráðherrum til þinghalds innan tíðar, og þá á ég við innan nokkurra mínútna, (Gripið fram í: Það er upplýst að þeir eru að tala við formann Alþfl.) ef það á að ganga fyrir að tala við formann Alþfl. — þó að ég dragi ekki í efa að fyrst og fremst vilji þeir við hann tala, því að helsta bjarghringinn virðast menn finna í Alþfl. þessa dagana — en ef það á að ganga fyrir verður að fresta þessari umr., því að ég geri þá kröfu að þeir hæstv. ráðherrar, sem ausa hér auri yfir aðra þm. og stjórnmálaflokka, sjái sóma sinn í því að sitja undir umr. sem þessum. Ég hyggst ekki fara úr stól, herra forseti, fyrr en annaðhvort þessir hæstv. ráðherrar eru hér komnir eða umr. er frestað.

Mér finnst satt að segja — og ég veit að hæstv. forseti er mér sammála í því, hann er réttsýnn maður og drengur góður — mér finnst lágmarkskurteisi að ætlast til þess af hæstv. ráðherrum, sem talað hafa eins og gert var hér í gær, að þeir sitji undir umr. og hlýði á svör við þeim fullyrðingum sem þeir hafa hér fram sett. (Forseti: Ég gef hv. ræðumanni kost á að fresta ræðu sinni.) Það var ekki það sem ég var að óska eftir, hæstv. forseti. Ég var að óska eftir því að annaðhvort kæmu þessir hæstv. ráðherrar í salinn og hlýddu á umr. eða að umr. yrði frestað. — [Fundarhlé.]