02.11.1982
Sameinað þing: 12. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (197)

Umræður utan dagskrár

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég mun ekki mæla í ljóðum, en mig langar þó að leggja orð í belg. Þingflokkur framsóknarmanna gerði á fundi sínum í gær samþykkt um vexti og lánskjaravísitölu svohljóðandi:

„Þingflokkur framsóknarmanna leggur á það áherslu að úr þeim mikla viðskiptahalla, sem nú er, verður án tafar að draga. Í því skyni er nauðsynlegt að framkvæma skilyrðislaust allar þær aðgerðir sem ríkisstj. hefur boðað til þess að draga úr verðbólgu. Grípa verður til allra tiltækra ráða til þess að draga úr óþarfa innflutningi og áherslu ber að leggja á aukna framleiðslu og útflutning.

Þingflokkurinn telur hins vegar hækkun lánskjaravísitölu og vaxta í þessum tilgangi óraunhæfa leið í þeirri stöðu sem nú er. Þótt verðtrygging sparifjár sé eðlileg, þegar til lengri tíma er litið, verður að framkvæma slíkt með fullu tilliti til greiðslugetu almennings og atvinnuveganna. Þingflokkurinn telur að endurskoða beri útreikning lánskjaravísitölu þannig, að fram komi áhrif opinberra aðgerða til hjöðnunarverðbólgu til lengri tíma en nú er gert, og jafnframt tryggt að vextir og lánskjaravísitala hækki ekki umfram greiðslugetu almennings og atvinnuveganna þegar yfir nokkurn tíma er litið.

Þingflokkurinn varar eindregið við þeirri miklu hækkun lánskjaravísitölu og vaxta, sem Seðlabankinn hefur nú einhliða ákveðið, ásamt stórhertum útlánareglum, sem kunna að leiða til greiðsluþrots atvinnufyrirtækja og atvinnuleysis, ef ekki verður gripið í taumana í tæka tíð. Með tilvísun til 37. gr. laga um efnahagsmál frá 1979 mótmælir þingflokkurinn sérstaklega einhliða ákvörðun Seðlabanka Íslands um hækkun vaxta á viðbótarafurðalánum og rekstrarlánum atvinnuveganna. Ákvörðun um vexti og lánskjaravistölu er óaðskiljanlegur þáttur aðgerða í efnahagsmálum, sem ríkisstj. verður að hafa á sínu valdi. Það verður að tryggja með lagabreytingu ef nauðsynlegt reynist.“

Þessi ályktun var samþykki samhljóða og var kynnt í ríkisstj. í morgun. (Gripið fram í: Var Tómas á fundinum?) Ég hygg að fundurinn hafi verið fullskipaður.

Það þarf ekki mörgum orðum við þessa ályktun að bæta. Það hávaxtakerfi sem við búum við hefur að mínum dómi sannað annmarka sína. Þetta kerfi kann að vera bærilegt í lækkandi verðbólgu en ekki í hækkandi. Verðbólgan verður nefnilega ekki læknuð með háum vöxtum. Það held ég að menn séu búnir að reka sig á. Auðvitað er hagur sparifjáreigenda mikilvægur og til hans ber að líta, en þeirra hagsmunir eru líka að þjóðfélagið lamist ekki. Háir vextir gagna lítið ef atvinnulífið lamast. Atvinnulífið í landinu ber ekki þann fjármagnskostnað sem því er ætlað að bera nú. Við siglum í strand, ef við breytum ekki um stefnu, og gerum fjölda manns, þar á meðal húsbyggjendur, gjaldþrota. Þessi stefna er nefnilega til þess að gera þá ríku ríkari og þá fátæku fátækari.

Fulltrúar Alþfl. hafa talað langt mál í þessum umr. og sumir þeirra verið mjög stórorðir og talað af mikilli óvild í garð atvinnuveganna. Ég var t.d. alveg furðu lostinn yfir ræðu hv. þm. Kjartans Jóhannssonar, formanns Alþfl. og fyrrv. sjútvrh., þegar hann var að tala um að bankarnir stælu beinlínis af mönnum, og jafnframt að núv. sjútvrh. segði að ef hann ekki fengi að stela þessu og hinu af sparifjáreigendum og dæla út í sjávarútveginn, þá gerðist þetta og hitt. Svona voru orðalepparnir. Hv. þm. sagði t.d. orðrétt: „Ef ég væri vel stæður framleiðandi núna, annaðhvort við framleiðslu landbúnaðarafurða eða í sjávarútvegi, mundi ég væntanlega fá afurðarlán á 29% vöxtum. Það væri hægurinn,“ sagði hann, „það væri hægurinn að leggja þessa peninga inn á verðtryggða bók. Það er búið að skapa vítahring, svikamyllu. Það sem gerist er það, að af 1 millj. kr., sem menn fá í afurðalán, geta menn haft 310 þús. kr. í gjöf yfir árið með því að fara svona með peningana, 310 þús. kr. í gjöf af hverri millj., 31%. Þetta eru engar smáræðis fjárhæðir.“ Svo mörg voru þau orð hjá fyrrv. sjútvrh.

Ég veit ekki hvar hv. fyrrv. sjútvrh. finnur svo vel stæð framleiðslufyrirtæki að þau geti lagt afurðalánin inn á verðtryggða bók. Mér finnst þetta þungar sakir. Ég vil að menn sanni hvaða fyrirtæki það eru, sem misnota svo afurðalánakerfið, að þessi orð séu réttmæt. Mig undrar það ekki þó að hv. þm. Kjartan Jóhannsson hafi ekki verið farsæll sjútvrh., því að með svona hugsunarhætti er ósköp fljótlegt að koma atvinnulífi landsins á hausinn. Ég held að við séum á nokkrum vegamótum. Menn verða að gera það upp við sig hér hvort við ætlum að lifa af atvinnuvegunum í landinu ellegar þá af vaxtatekjum.