02.11.1982
Sameinað þing: 12. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (199)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Þeir atburðir, sem eru að gerast þessa dagana og þessar vikurnar og þessi umræða er dæmi um, eru hálfdapurlegir, jafnvel fyrir okkur stjórnarandstæðinga, sem höfum þó ekki neina sérstaka ástæðu til þess að daprast yfir því þó að ríkisstj. sé að leika sjálfa sig og flokka sína eins og nú ber á að lita. Það er mjög dapurlegt að horfa upp á hvernig ríkisstj. er smátt og smátt að reka í þrot og hvernig einstakir aðilar að þessari ríkisstj. og heilir flokkar eru að gera sig að athlægi. Því miður er orðið ljóst að svo er að fara. Þetta er orðið sjónarspil, sem jafnvel í augum okkar stjórnarandstæðinga er ekki allt of gaman að horfa upp á vegna þess að því miður eru þessir atburðir engum stjórnmálamanni til sæmdar. Við berum ekki ábyrgð á þessu, stjórnarandstæðingar. Það gerir ríkisstj. En það er dapurlegt að horfa upp á ríkisstj., þó svo að hún sé skipuð pólitíkusum andstæðingum manns, vera að sperrast við það dögum saman að vera til þó að hún sé ekki bara orðin valdalaus heldur gersneydd allri virðingu þeirra aðila sem við hana þurfa að skipta.

Það er auðvitað alveg ljóst og verður ekki í efa dregið, að bankastjórn Seðlabankans hefur í sínum höndum fullkomið og löglegt vald til að taka þá ákvörðun sem Seðlabankinn hefur nú tekið um ákvörðun vaxta. Hins vegar er líka ljóst, að það hefur ávallt verið venja að Seðlabanki hafi um það samráð við þá ríkisstj. sem að völdum situr í landinu hverju sinni og grípi til slíkra aðgerða, eins og nú hefur þó verið gripið til, nema að höfðu samráði við ríkisstj. og að fengnu a.m.k. óformlegu samþykki hennar. Sú ákvörðun sem Seðlabankinn hefur nú tekið, án þess að ríkisstj. hafi komið frá sér ákvörðun á tveimur og hálfum mánuði, ber vott um að voldugar stofnanir í samfélaginu hafa misst allt álit og alla virðingu á núv. hæstv. ríkisstj. Það er mjög dapurlegt að horfa upp á menn dragast svo upp dögum og vikum saman: ekki bara í valdaleysi heldur í virðingarleysi líka: Það er ekkert gaman, ekki einu sinni fyrir stjórnarandstæðinga, að horfa upp á þetta gerast.

Núv. hæstv. ríkisstj. var stofnuð við nokkuð undarlegar aðstæður, sem eru sennilega einsdæmi í þingsögunni. Endalok hennar ætla að verða einsdæmi líka, því hún ætlar að vera margar vikur að dragast upp og deyja, löngu eftir að hún er orðin valdalaus sem ríkisstj. í þessu landi og löngu eftir að hún er búin að missa alla virðingu þeirra aðila sem hún þarf að eiga viðskipti við.

Það er ekki neinum stjórnmálamanni til álitsauka að þurfa að horfa upp á þetta. Þeir hljóta, hæstv. ráðherrar, að finna fyrir því innra með sér þvílíkt virðingarleysi þeim er sýnt með þeirri ákvörðun sem hér hefur verið tekin og hvernig með þá ákvörðun hefur verið farið. Það alvarlegasta í málinu er að afstaðan, sem hæstv. félmrh. og formaður Alþb. lýsti í ræðu sinni hér á dögunum er þessi umræða fór fram, og afstaða þingflokks Framsfl., sem kom fram í samþykktinni sem formaður þingflokks Framsfl. las áðan, eru yfirlýsingar sem undir öllum eðlilegum kringumstæðum hefðu verið teknar mjög alvarlega og ekki aðeins af hálfu Alþingis heldur einnig stjórnenda Seðlabankans. Satt að segja stórefa ég, ef um alvöruríkisstjórn hefði verið að ræða, sem sæti með fullu umboði og völdum í landinu, að aðilum eins og bankastjórn Seðlabanka Íslands væri sætt eftir að tveir stjórnarflokkar hafa tekið með þeim hætti á ákvörðunum bankastjórnarinnar eins og Alþb. og Framsfl. hafa gert. En staðreyndin er sú, að þessar samþykktir og yfirlýsingar flokkanna eru gersamlega marklaus plögg og að engu hafandi, og aðilar í samfélaginu, sem ættu að bera virðingu fyrir þeim stofnunum sem þessar samþykktir hafa gert, eins og þingflokki Framsfl. og ráðh. hans í ríkisstj., hafa þessar samþykktir í raun og veru að háði og spotti vegna þess að þessa sitjandi ráðh. brestur allt vald til að koma fram þeim vilja sínum sem þeir þykjast vera að álykta um.

Hæstv. bankamálaráðherra, Tómas Árnason, sem virðist hafa skipt um skoðun á vaxtaákvörðunum Seðlabankans, brestur allt vald til þess að koma í framkvæmd hvaða stefnu sem hann kynni að aðhyllast í þessu máli. Til þess þarf að breyta lögum. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki lengur neitt vald til þess.

Hæstv. sjútvrh. og formaður Framsfl. hefur ekki aðeins tekið persónulega afstöðu gegn forvera sinum í starfi, hæstv. utanrrh., heldur virðist hann einnig vera andvigur öllu því sem við hann er kennt, jafnvel Ólafslögum, en það tekur enginn slíkar yfirlýsingar hátíðlega vegna þess að hæstv. ráðh. brestur allt vald til þess að mark sé takandi á þeim yfirlýsingum sem frá honum fara.

Um afstöðu hæstv. menntmrh. Ingvars, sem útvarpið kallar Helgason, en leiðrétti síðar og nefndi réttu föðurnafni, er ekki vitað. E.t.v. hefur hann þriðju afstöðuna: Ekki þá sem Tómas hefur, ekki þá sem þingflokkur Framsfl. hefur, ekki þá sem hæstv. formaður Framsfl. hefur og ekki þá sem hæstv. fyrrv. formaður Framsfl. hefur. Hans afstaða hefur ekki komið fram.

Það er, herra forseti, mjög dapurlegt að þurfa að horfa upp á ríkisstjórnina á Íslandi dragast upp eins og afvelta grip sitjandi valdalausa í ráðherrastólum og í stjórnarráði, sitjandi án virðingar þeirra stofnana sem við hana þurfa að skipta-stofnana sem geta haft hana að háði og spotti og látið sig engu varða hvaða afstöðu þessir flokkar og þessir ráðh. marka.

Þó að ekki beri að taka alvarlega það sem frá þingflokki Alþb. og þingflokki Framsfl. kemur við þessar aðstæður og þó svo að þessir aðilar hafi enga möguleika lengur á að koma vilja sínum í verk, þá held ég að það verði ekki hjá því komist, eftir þá þingflokkssamþykkt sem kynnt var hér áðan af hálfu formanns þingflokks framsóknarmanna, að óska mjög eindregið eftir að þessari umr. verði nú frestað og hún verði tekin upp síðar þegar tími gefst til að fá nánari skýringar á þessari afstöðu: ekki aðeins frá formanni þingflokks Framsfl., sem hljóp úr salnum um leið og hann hafði lesið samþykktina, heldur einnig frá formanni bankaráðs Seðlabanka Íslands, sem er alþm. og varaformaður Framsfl., og frá hæstv. sjútvrh., formanni flokksins. Í niðurlagi samþykktarinnar er þess nefnilega getið, að þingflokkurinn álykti ekki aðeins gegn þeirri ákvörðun sem Seðlabanki Íslands hefur tekið með vitund og, að því er virtist í gær, vilja hæstv. bankamálaráðh., heldur er ályktunin einnig á þá lund, að þingflokkurinn hyggst beita sér fyrir því á Alþingi að breytt verði einhverjum veigamestu atriðum þeirra laga sem kennd eru við fyrrv. formann Framsfl., hæstv. núv. utanrrh. Ég vona að hæstv. forseta sé ljóst, að eftir að slík yfirlýsing hefur verið gefin hér á Alþingi af formanni þingflokks Framsfl. er ógjörningur að halda áfram og ljúka umr. um þetta mál, eins og til stóð að gera. Ég hef ýmsar spurningar fram að færa við aðila að þessu máli, sem eru nú fjarstaddir, og ég óska eftir því að mér leyfist að gera nú hlé á ræðu minni og umr. verði frestað þangað til síðar að hæstv. forseti getur tekið til við umr. á nýjan leik. (Forseti: Ég mun verða við ósk hv. ræðumanns, en áður en ég fresta umr. mun hæstv. viðskrh. tala. Að því loknu mun ég svo fresta umr.) Ég óskaði eftir því að fá að fresta minni umr. Ég á ýmislegt ósagt sem er m.a. mál sem ég þyrfti að snúa mér með til hæstv. viðskrh. Ég tel ekki ástæðu til að halda áfram ræðu minni nú vegna þess að svo margir eru fjarverandi, sem eru ráðamenn í þessu máli, sem ég þarf einnig að beina spurningum til. (Forseti: Já, ég mun þá gefa hv. ræðumanni orðið næst þegar umr. hefst.) Ég þakka hæstv. forseta.

En ég vil aðeins vekja athygli manna á einu atriði áður en hæstv. viðskrh. tekur til máls hér á eftir. Af einhverjum ástæðum hefur mönnum skotist yfir það meginatriði málsins að hæstv. ríkisstj. hefur lagt hér fram á Alþingi plagg þar sem hún boðar tiltekna stefnu í þeim málum sem hér hafa verið til umr. Það plagg er þjóðhagsáætlunin fyrir árið 1983, sem hæstv. forsrh. lagði fram í nafni ríkisstj. og var fskj. með stefnuræðu hans, sem hann flutti fyrir hönd þessarar sömu ríkisstj. Í þessari þjóðhagsáætlun segir á bls. 6, með leyfi forseta:

„Undirbúningur fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar fyrir næsta ár er vel á veg kominn og verður áætlunin lögð fyrir Alþingi á næstu vikum. Áætlunin verður miðuð við að draga úr opinberum framkvæmdum og efla innlenda fjármögnun framkvæmda í því skyni að draga úr viðskiptahalla“.

Síðar í sama kafla segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Brýnasta verkefnið í peningamálum er að koma aftur á jafnvægi í peningakerfinu, bæði með því að draga úr aukningu útlána og með því að laða stærri hluta af sparnaði landsmanna til ávöxtunar í bönkum og sparisjóðum án þess þó að það valdi síðan útlánaþenslu á ný. Þetta er ekki síst mikilvægt í því skyni að auka innlenda fjármögnun atvinnuveganna,“ eins og fjárfestingar- og lánsfjáráætlunin á að byggja á.

„Stjórn peningamála verður að miðast við þetta fyrst og fremst. Þar þarf að tryggja viðunandi ávöxtunarkjör sparifjár í formi verðtryggingar og vaxta og koma á sem mestu samræmi milli vaxta og verðtryggingarkjara á útlánum. Þetta felur í sér breytingu á vöxtum óverðtryggðra inn- og útlána við núverandi aðstæður“.

Þetta er orðrétt tilvitnun í þjóðhagsáætlun hæstv. forsrh., sem hann leggur fram sem stefnuskjal ríkisstj. sinnar með stefnuræðunni. Þarna eru boðaðar í nafni ríkisstj. þær aðgerðir í vaxtamálum sem Seðlabankinn hefur nú framkvæmt. Ég leyfi mér að spyrja í ljósi þeirra umr. sem hér hefur farið fram og yfirlýsinga einstakra ráðh. um að þeir væru andvígir þeirri stefnu sem í ráðstöfun Seðlabankans fólst:

1. Höfðu þessir hæstv. ráðh. ekki lesið þá þjóðhagsáætlun sem hæstv. forsrh. lagði fram í nafni ríkisstj. og boðar þessa stefnu?

2. Hafi þeir lesið þessa áætlun, þar sem þessi stefna er boðuð, voru þeir andvígir stefnumörkuninni þegar áætlunin var lögð fram?

3. Hafi þeir verið andvígir stefnumörkuninni í þjóðhagsáætlun hæstv. forsrh., hvernig stendur þá á því að þeir hafa ekki látið þess getið?

Það er alveg fráleitt og furðulegt, að umr. eins og þessar, sem hér hafa farið fram, geti átt sér stað eftir að fyrir Alþingi hefur verið lögð stefnumörkun ríkisstj. um þessi mál, þar sem skýrt og skorinort er sagt að ríkisstj. hafi í hyggju að beita sér fyrir þeim aðgerðum í vaxta- og lánamálum sem nú hafa verið gerðar. Alþingi er tjáð, þegar þessi þjóðhagsáætlun er lögð fram, að þetta sé tilgangur ríkisstj. Menn vita ekki annað en að þar sé talað í nafni ríkisstj. allrar. Þegar þessi stefna hefur síðan verið framkvæmd rísa upp ráðh. tveggja flokka, Alþb. og Framsfl., og segjast vera andvígir þeirri stefnu sem Seðlabankinn er að framkvæma í framhaldi af yfirlýsingum ríkisstj. sjálfrar um hvaða stefnu hún aðhyllist.

Áður en hæstv. bankamálaráðh. tekur til máls vil ég því spyrja hann:

1. Var honum ekki kunnugt um hvaða stefnumörkun fólst í þjóðhagsáætlun, sem forsrh. lagði fram, í þessum vaxta- og verðtryggingarmálum?

2. Var hann ekki sammála þeirri stefnumörkun sem í þeirri áætlun fólst?

3. Vissi hann til þess að hæstv. forsrh. væri ekki í áætlun sinni að segja satt og rétt frá vilja þeirrar ríkisstj. og þeirra ráðh. sem í ríkisstj. sitja eða var honum kunnugt um að aðrir ráðh., þ. á m. ráðh. Alþb. allir og ráðh. Framsfl., a.m.k. hæstv. sjútvrh., væru í rauninni andvígir þeirri stefnu, sem mörkuð er í þjóðhagsáætluninni, sem forsrh. lagði fyrir Alþingi sem stefnumörkun þeirrar ríkisstj. sem hann situr í?