28.02.1983
Neðri deild: 46. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2306 í B-deild Alþingistíðinda. (2068)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég er eins og aðrir sem hér hafa talað ánægður með það, að samkomulag hefur tekist milli allra þingflokka um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins að því er varðar kjördæmamál og kosningar til Alþingis og 18 ára kosningaaldur.

Langæskilegast hefði verið að mínu mati að afgreiða stjórnarskrármálið allt á þessu þingi, en til þess vinnst ekki tími úr því sem komið er. Margir telja óæskilegt að fjölga þm. um þrjá og hafa hátt um. Auðvitað hefði verið æskilegra að ná viðunandi jafnvægi milli þéttbýlis og dreifbýlis án fjölgunar þm. Ég tek undir það. En ég tel það þó ekki vera stórt atriði úr því að samkomulag náðist um að fjölgað verði aðeins um þrjá þm., en áður var talað um mun hærri tölu.

Margir, sem nú tala hátt um fjölgun þm. um þrjá og telja hana óþarfa og óæskilega, hafa lítið sagt um fjölgun bankamanna um 1800 frá 1960 og lítið sagt um það, að samningur við opinbera starfsmenn um lengingu orlofs á síðasta ári jafngildir fjölgun opinberra starfsmanna um 250–300. Mér finnst að talsvert skorti á að samræmis gæti í málflutningi þeirra sem hæst hafa um þetta efni.

Þó að samkomulag hafi náðst um tilteknar breytingar á stjórnarskránni, sem ég er mjög ánægður með, miðað við allar aðstæður, og þó að samkomulag hafi náðst um að leggja fram í grg. drög að frv. um breytingar á kosningalögum, þá er ég ekki að öllu leyti sammála öllum atriðum í þeim drögum. Ég á þar einkum við 29. gr. sem er breyting á 115. gr. núgildandi kosningalaga um valfrelsi kjósenda. Ég tel að þar sé allt of skammt gengið. Samkv. þeirri grein þarf meira en 50% kjósenda til að breyta röð frambjóðenda og þeir þurfa allir að breyta röðinni á sama veg. Ég tel að hér sé allt of skammt gengið til móts við óskir kjósenda og vísa í þeim efnum til frv. míns og tveggja annarra hv. þm. Alþfl. um þetta efni í þskj. 332. Ég læt í ljós ánægju mína með það, að hv. 1. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Reykv., hæstv. félmrh.. hafa báðir lýst sig fúsa til þess að skoða þetta atriði betur.

Þá tel ég einnig að úthlutun sæta í sveitarstjórnum eigi í aðalatriðum að lúta sömu reglum og úthlutun þingsæta í kjördæmum og tel því að breyting á lögum um sveitarstjórnarkosningar að þessu leyti sé óþörf. Ég hef fyrirvara á um þessi tvö atriði sem ég hef hér minnst á.

Herra forseti. Þetta frv. er árangur samkomulags allra þingflokka og því ekki þess að vænta að allir séu fyllilega ánægðir með öll atriði þess. Sumir hefðu t. d. viljað ganga lengra til jöfnunar kosningarréttar milli þéttbýlis og dreifbýlis. Aðrir minna réttilega á að mikið skortir á jöfnuð á ýmsum öðrum sviðum milli dreifbýlis og þéttbýlis, dreifbýlinu í óhag og vilja beita sér fyrir auknum jöfnuði á þeim sviðum einnig.

Ég tel, herra forseti, að samkomulagið sé mjög vel viðunandi miðað við allar aðstæður og lýsi ánægju minni með það. Ég tek undir þakklæti þeirra flokksformanna sem hér hafa talað til þeirra sem mest hafa að þessum málum unnið.