28.02.1983
Neðri deild: 46. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2315 í B-deild Alþingistíðinda. (2070)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umr. er ekkert venjulegt mál. Það sem hér liggur fyrir er frv. til stjórnskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Flm. eru formenn þriggja stjórnmálaflokka og varaformaður eins stjórnmálaflokks.

Þegar flutt er þvílíkt stórmál sem hér um ræðir er það að mínu mati, herra forseti, alger lágmarkskrafa af hálfu þm. að hér séu viðstaddir flm. málsins, ella sé ég lítinn tilgang í því að halda umr. áfram, og óska því eindregið eftir því að gerðar verði ráðstafanir til að þeir mæti hér og hlýði á umr. Ég mun gera hlé á máli mínu þangað til við þeim óskum verður orðið. (Forseti: Einn hv. flm. er ekki í húsinu. Það er alveg þýðingarlaust fyrir hv. ræðumann að ætlast til þess að allir séu mættir hérna. Við því verður ekki orðið. Hann getur þess vegna staðið þarna eins lengi og hann óskar.) Það látum við gott heita að sinni. herra forseti, enda þrír flm. mættir til leiks.

Aðalatriði þessa frv. eru tvö. Þau eru um fjölgun þm. um þrjá og um rýmkun kosningarréttar, þannig að nú skuli allir sem eru 18 ára eða eldri, í stað 20 ára áður, fá kosningarrétt. Annað er það ekki.

Þrátt fyrir mikið starf stjórnarskrárnefndar á undanförnum árum við heildarendurskoðun stjórnarskrár eru í þessu frv. engar aðrar tillögur gerðar um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins. Það verður að teljast rýr eftirtekja. Hvers vegna er það svo? Því er borið við, að þjóðin verði að fá ráðrúm til þess að fjalla um þær tillögur sem fram hafa verið lagðar um hina almennu endurskoðun stjórnarskrárinnar. Því er til að svara, að stjórnarskrá hefur verið í endurskoðun á vegum margra stjórnarskrárnefnda áratugum saman. Allar þær hugmyndir, allar þær tillögur sem fram hafa verið settar um hina almennu endurskoðun eru í raun og veru gamalkunnar og hafa gengið aftur í íslenskri þjóðmálaumræðu árum saman, flestar þeirra. Ekki hefur þess orðið vart, að gerðar hafi verið af hálfu hinna ýmsu samtaka sérstakar kröfur um það að mál hljóti nú að tefjast af þeim sökum. En ef ástæða er til að ætla að þjóðin þurfi lengri umhugsunartíma til að fjalla um hina almennu endurskoðun stjórnarskrárinnar, þá má spyrja: Hvers vegna þarf þjóðin þá ekki að vera tilkvödd í þessu máli, sem varðar þó hvorki meira né minna en grundvallarpólitísk mannréttindi hennar, þ. e. kosningarréttarmál? Sé ástæða til þess að gefa þjóðinni lengri tíma til umræðna um hina almennu endurskoðun stjórnarskrárinnar sýnist rétt að það gildi um endurskoðun stjórnarskrárinnar í heild og þá kosningarréttarmálið líka.

Þessu frv. fylgja þrenn fskj. Í fyrsta lagi drög að frv. til l. um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis ásamt grg. og fskj. Þetta er í raun og veru aðalatriði þess máls sem hér er flutt, en er þó raunverulega ekki í frv. heldur í fskj. og kemur því til kasta nýs þings að loknum kosningum að fjalla um það. Í annan stað fylgja þessu frv. drög að frv. til l. um breytingu á lögum um sveitarstjórnarkosningar ásamt grg. og í þriðja lagi skýrsla stjórnarskrárnefndar um endurskoðun stjórnarskrár frá því í jan. 1983. Ljóst er að öll þessi mál koma til umfjöllunar næsta þings að loknum næstu kosningum og eru því hér einungis sem fskj., en varla að heitið geti að þau séu hér til umr., enda kemur það til kasta annars þings að afgreiða það eða taka um það ákvarðanir. Auk þess liggur fyrir í grg. þessa frv. yfirlýsing, fáein orð á blaði um að flokkarnir muni beita sér fyrir auknu sjálfsforræði sveitarfélaga sem og sérstökum aðgerðum til þess að jafna félagslega og efnalega aðstöðu manna, þar sem mismununar gætir vegna búsetu.

Þetta er allt og sumt sem formenn stjórnmálaflokkanna og meiri hluti þingflokkanna hefur komið sér saman um að gera í stjórnarskrármálum eftir margra mánaða þrotlaust starf og samningaumleitanir. Slík niðurstaða hlýtur óneitanlega að valda verulegum vonbrigðum. Ég hlýt að nota tækifærið og skýra frá því að það var eindreginn vilji þingflokks Alþfl. að fleiri atriði og nýmæli úr tillögum stjórnarskrárnefndar varðandi endurskoðun stjórnarskrár yrðu hér með í þessari afgreiðslu mála. Þeirri ósk var hins vegar hafnað af öðrum flokkum.

Það var hinn 6. maí 1978 sem Alþingi ályktaði að tilnefna níu menn í stjórnarskrárnefnd af hálfu þeirra stjórnmálaflokka sem fulltrúa áttu á Alþingi. Með erindisbréfi var nefndinni falið að skila álitsgerð og tillögum um endurskoðun stjórnarskrár og taka sérstaklega til meðferðar kjördæmaskipun, kosningaákvæði stjórnskipunarlaga, skipulag og starfshætti Alþingis og kosningalög. Þetta bendir til þess að þá hafi vakað fyrir Alþingi að um heildarendurskoðun yrði að ræða. Nefndin hefur skilað til þingflokkanna fjórum skýrslum, þ. á m. skýrslu um heildarendurskoðun stjórnarskrár og sérstakri skýrslu um kjördæmamál. Eftir er í hennar starfi að skila tillögum um endurskoðun á skipulagi og starfsháttum Alþingis.

Í tillögum stjórnarskrárnefndar um endurskoðun stjórnarskrár í heild er að finna fjölmörg nýmæli sem lengi hafa verið á dagskrá með þjóðinni. Sum þeirra eru þýðingarmeiri en önnur. Meðal þeirra þýðingarmestu má nefna tillögur um gagngerar umbætur á störfum Alþingis, t. d. að Alþingi skuli framvegis starfa í einni deild, en jafnframt þeirri breytingu komi til aukið vald og verksvið þingnefnda, þannig að stærri hluti af starfi þingsins fari fram í nefndum og þeim verði falið í ríkari mæli en verið hefur eftirlitsstarf með framkvæmd lagasetningar á vegum framkvæmdavaldsins.

Meðal nýmæla í tillögum stjórnarskrárnefndar er að þingrofsrétturinn færist frá forsrh. og ríkisstj. til meiri hl. Alþingis og að heimild ríkisstj. til útgáfu brbl. verði verulega þrengd frá því sem nú er, auk þess sem einn flokkur, Alþfl., hefur lagt fram till. um að heimild ríkisstj. og réttur til útgáfu brbl. verði með öllu afnuminn. Allt eru þetta mjög þýðingarmikil nýmæli sem öll beinast að einu markmiði: Því að auka sjálfstæði löggjafarsamkomunnar, löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdavaldinu. Í tillögum stjórnarskrárnefndar er líka að finna ítarlegri mannréttindaákvæði. Ég nefni aðeins tvö, bann við afturvirkni skattalaga og um umboðsmann Alþingis, sem einnig hlýtur að teljast mikilvægt mannréttindaákvæði, þar sem almenningur getur leitað til slíks embættismanns með umkvartanir um afgreiðslu mála á vegum framkvæmdavaldsins. Þá er þar að finna ákvæði um heimild til þjóðaratkvgr. og ný ákvæði um það hvernig stjórnarskrá verði breytt í framtíðinni, m. ö. o. slík breyting leiði til þess að efnt verði til þjóðaratkvgr., auk þess sem hana þurfi að samþykkja á tveimur þingum.

Þetta eru aðeins nokkur dæmi af fjölmörgum nýmælum í tillögum stjórnarskrárnefndar, sem lúta að styrkingu löggjafarvaldsins og auknum réttindum þegnanna. Ekki eina einustu af þessum till. er að finna í því frv. sem hér liggur fyrir. Þar með er ljóst að stjórnmálaflokkarnir eða meiri hluti þeirra kýs að fresta afgreiðslu stjórnarskrármálsins. Hversu lengi er ekki vitað, eitt kjörtímabit, tvö kjörtímabil, um það er ekki unnt að fullyrða á þessu stigi.

Þetta hlýtur að vekja upp alvarlega spurningu. Er það þess virði að efna til breytinga á stjórnarskrá og þar með talið hugsanlega endurtekinna kosninga, í því þjóðfélagsástandi sem nú ríkir, af því tilefni einu saman að nauðsynlegt sé að fjölga þm. og færa kosningarréttinn niður í 18 ár? Væri þá ekki nær að fresta málinu í heild úr því að tilefnið er ekki brýnna? Ef brýnt þykir að breyta kosningatilhögun, og það vefengi ég ekki, er þá ekki sá kostur fyrir hendi að takmarka það við þær breytingar sem unnt er að gera með breytingum á kosningalögunum einum, án þess að lagt sé út í stjórnarskrárbreytingu með þeim afleiðingum sem það hefur, þ. á m. hugsanlega tvennum kosningum?

Það er unnt að ná sambærilegum árangri að því er varðar kosningarréttarmál, þ. e. í leiðréttingu þess hróplega misvægis í atkvæðarétti sem nú er, án þess að breyta kjördæmaskipun, án þess að fjölga þm. og samt tryggja það með sérstöku ákvæði í kosningalögum að ríkjandi misvægi verði síðar meir leiðrétt í áföngum, eftir því sem búsetuþróun gefur tilefni til við hverjar kosningar. Allt þetta er unnt að gera, án þess að efna til sérstakrar stjórnarskrárbreytingar. Að því mun ég víkja betur síðar.

Í fyrstu skýrslu stjórnarskrárnefndar segir að nefndarmenn hafi rætt hugsanlegar breytingar á kjördæmaskipun og kosningafyrirkomulagi út frá því sjónarmiði að þær fullnægi eftirtöldum þremur meginskilyrðum:

1. Að þær stuðli að auknu jafnvægi atkvæðisréttar kjósenda milli kjördæma, án tillits til búsetu.

2. Að þær stuðli að auknu jafnræði milli flokka hvað varðar atkvæðamagn að baki hverjum þm.

3. Að réttur kjósenda til persónukjörs verði aukinn.

Allar tillögur í kjördæmamálinu ber að mínu mati að vega á þennan mælikvarða. Þær tillögur sem hér liggja fyrir standast illa það próf. Ljóst er að það er fyrst og fremst annað markmið, nr. 2, þ. e. að auka jafnræðið milli flokka, sem hér hefur hlotið forgang. Eftir sem áður er gert ráð fyrir verulegu misvægi atkvæða landsmanna eftir því hvar þeir eru búsettir á landinu. Samt sem áður verður að rifja það upp að megintilefni þess, það sem knúði Alþingi til þess að hefjast á ný handa um endurskoðun stjórnarskrármálsins, var fyrst og fremst krafan um það, að hið hróplega mikla og vaxandi misvægi atkvæðisréttar, sem við nú búum við, verði leiðrétt. Niðurstaðan er sú, að ekki næst meiri árangur í jafnréttisátt, svo að orð sé á gerandi, en þegar hafði náðst árið 1959, fyrir rúmum tveimur áratugum, tæpum aldarfjórðungi, þannig að mismunur milli vægis atkvæða verður áfram um það bil 1:2.6. Sú skipan er enn staðfest að um 60% kjósenda eigi aðeins að kjósa 29 þm. af 63 eða vel innan við helming þm., m. ö. o., sú skipan er staðfest með þessu frv. að minni hluta þjóðarinnar, um 40%, eigi áfram að vera tryggður meiri hluti á löggjafarsamkomunni.

En það sem verra er, ætlunin er að halda áfram að stjórnarskrárbinda þetta misvægi atkvæðisréttar. Það er ekki nóg með að hér sé gert ráð fyrir að halda áfram misréttinu, heldur er það fastmælum bundið að binda það með varanlegum hætti í stjórnarskrá. Sá meiri hluti þm. sem ákveður að svona skuli þetta vera samanstendur af þm. sem minni hluti þjóðarinnar hefur kosið.

Þá sýnist mér einnig mikið vanta á að um raunhæf áhrif kjósenda á val frambjóðenda á listum sé að ræða. Ég get ekki látið hjá líða í þessu samhengi að minna á að í tillögum stjórnarskrárnefndar í kjördæmamálinu er bent á leiðir, sem tryggja öllum þegnum ríkisins þau grundvallarmannréttindi lýðræðislegrar stjórnskipunar, sem fólgin eru í jöfnum atkvæðisrétti án tillits til búsetu, stéttar, efnahags, kynferðis eða annarra félagslegra þátta og án fjölgunar þm. Þetta er hin gamla tillaga Alþfl. í stjórnarskrármálum um að landið sé eitt kjördæmi. Hún var sett fram í stjórnarskrárnefnd af okkur dr. Gylfa Þ. Gíslasyni, fulltrúum Alþfl. í nefndinni.

Það er alveg ljóst að sú till. nýtur ekki stuðnings hér á hv. Alþingi eða meðal þingflokkanna. Hins vegar benda skoðanakannanir og umr. í þjóðfélaginu til þess að þeirri till. hafi mjög vaxið fylgi með þjóðinni. Ég nefni þessa leið fyrst og fremst til þess að minna á að fram hafa verið lagðar tillögur í kjördæmamálinu, sem virða grundvallarregluna: einn maður — eitt atkv., og þær tillögur eru framkvæmanlegar. Hitt er svo aftur á móti pólitísk staðreynd, að fyrir þeim er ekki meirihlutavilji á Alþingi. Það er margt sem bendir til þess að í kosningarréttarmálum sé upp kominn alvarlegur árekstur milli meiri hluta þjóðarinnar og meiri hluta þings.

Það er ljóst að þessar tillögur, sem hér liggja fyrir í kjördæmamáli, eru málamiðlun. Þær eru tilraun til þess að leysa því sem næst óleysanlega þraut. Hér á Alþingi er mikill meiri hluti þm. sem kosnir eru í krafti atkv. sem vega mun þyngra, allt að því fimm sinnum þyngra í almennum kosningum en atkv. annarra. Þessi meiri hluti vill áfram viðhalda sinni meirihlutaaðstöðu, og krefst þess því að ekki megi fækka þm. í neinu hinna fámennari kjördæma hvað svo sem búsetuþróun þjóðarinnar líður.

Í öðru lagi, tillögur um breytingar á kjördæmaskipuninni sjálfri, sem auðveldað gætu lausn málsins, eiga ekki heldur fylgi að fagna á Alþingi. Þá er aðeins eftir ein leið til þess að jafna atkvæðisréttinn að nokkru, fjölgun þm. Mikil og vaxandi andstaða í þjóðfélaginu gegn þeirri lausn veldur því hins vegar, að þeir flokkar sem tilbúnir voru að ganga lengst í þessu efni samkv. yfirlýstum samþykktum sínum létu undan síga í þeirri afstöðu fyrir sterku almenningsáliti. Innan þessara þröngu marka hefur þessi málamiðlun náðst og má heita að vera því sem næst óleysanleg þraut. Niðurstaðan er sú, að sá áfangi sem menn bjuggust við að ná við þessa endurskoðun, að því er varðar leiðréttingu atkvæðamisréttis, er of smár.

Þetta staðfestir hversu óeðlilegt og óviðeigandi það er að þm., sem margir hverjir eiga endurkjör sitt undir margföldu misvægi atkvæðisréttar, skuli hafa síðasta orðið um breytingar á kjördæmaskipan, kosningalögum og almennum reglum um úthlutun þingsæta. Eðlilegra væri að þjóðin sjálf hefði hér síðasta orðið með almennri þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar ítarlegrar umræðu með þjóðinni allri og fyrir opnum tjöldum. Ein af tillögum stjórnarskrárnefndar er einmitt um það að framvegis skuli leita til þjóðarinnar sjálfrar í þjóðaratkvgr. við endurskoðun stjórnarskrár.

Staða málsins er þó þessi: Meiri hl. þm., sem kosinn er af minni hl. þjóðarinnar og er hugsanlega á öndverðum meiði við meiri hluta vilja þjóðarinnar. ætlast til þess að fulltrúar þjóðarmeirihlutans sætti sig við það að umbjóðendur þeirra skuli áfram flokkaðir sem annars flokks borgarar, þegar kemur að grundvallarmannréttindum um pólitísk áhrif í þjóðfélaginu. En ekki nóg með það. Það er ekki nóg með að þeir hafi komið sér saman um framhald misréttisins, heldur leggja þeir fram tillögur um að misréttið skuli með varanlegum hætti bundið í stjórnarskrá lýðveldisins. Þar er of langt gengið. Svar mitt við því er einfalt. Það er til of mikils mælst.

Ég er andvígur fjölgun þm. Þeirri skoðun minni hef ég lýst ítrekað í umr. innan stjórnarskrárnefndar og í ræðu og riti um þetta mál. Starf Alþingis og alþm. er þess eðlis, að fjölgun þm. auðveldar ekki lausn á neinum þeim vanda sem við er að etja í þjóðfélaginu. Fyrir því má færa rök að bætt starfsaðstaða þm. og bættir starfshættir þingsins, en með því á ég einkum við greiðari aðgang þm. að sérfræðilegri ráðgjöf á sviði löggjafar og ýmissa tæknilegra mála, gæti auðveldað þeim störfin og skilað raunverulegum árangri með bættri löggjöf og skynsamlegri niðurstöðum í þingstörfum. En fjölgun þm. leysir engan vanda nema þá hugsanlega þm. sjálfra, en hlutverk þeirra á að vera að leysa vandamál en ekki að vera vandamál.

Auk alls þessa fullyrði ég. enda liggur það fyrir, að unnt er að ná sambærilegum árangri að því er varðar leiðréttingu á misvægi atkvæðisréttar án fjölgunar þm. Það er bitamunur en ekki fjár hvort misvægið skuli áfram vera 1:2.15 eða 1:2.56. Samkv. tillögum stjórnarskrárnefndar, sem þar gengu undir auðkenninu A3 eða A4, er unnt að ná þessu markmiði án fjölgunar þm. Meiri hl. landsbyggðarþm., sem kosinn yrði af minni hl. þjóðarinnar, er samkv. þessum till. áfram líklega fimm þm., en fjórir samkv. þeim till. sem hér liggja fyrir. Það er líka bitamunur en ekki fjár. Kjarnaspurningin sýnist mér vera þessi:

Við skulum ganga út frá því sem pólitískri staðreynd, að meiri leiðrétting á misvægi atkvæðisréttar sé ekki unnt að ná samkomulagi um hér og nú á Alþingi, ekki í þessum áfanga. Þá er spurningin: Getur meiri hl. þjóðarinnar sætt sig við slíka málamiðlun? Það er hugsanlegt að svara þeirri spurningu játandi, en a. m. k. með einu skilyrði. Það skilyrði er þetta: Að um leið verði bundið í stjórnarskrá ákvæði, sem fæli í sér sjálfvirka leiðréttingu á misvægi atkvæðisréttar eftir búsetuþróun í áföngum, fyrir hverjar kosningar í framtíðinni, eða að slík ákvæði verði ella í kosningalögum. Því er haldið fram, að í þeim drögum að breyttum kosningalögum sem fylgja þessu stjórnarskrárfrv. í fskj. sé slíka leiðréttingu að finna. Ég tel að sú fullyrðing standist ekki nema að afar litlu leyti. Staðreynd er það, að í stjórnarskrá er bundinn sá lágmarksfjöldi þingsæta sem um er að ræða í fámennustu kjördæmunum, þannig að þótt átta sætum sé úthlutað samkv. fyrri úrslitum, þ. e. fyrir fram, og þar verði tekið tillit til búsetuþróunar, þá geta þær í reynd einungis þýtt tilfærslu þingsæta milli fjölmennustu kjördæmanna og í reynd einungis milli Reykjavíkur og Reykjaness. Það er því ekki rétt að þarna sé um að ræða leiðréttingarákvæði sem brúklegt sé.

Ég endurtek: Ég tel það vera lágmarksskilyrði fyrir slíkri málamiðlun að sjálfvirkt leiðréttingarákvæði verði um leið bundið í stjórnarskrá, þannig að leiðréttingin verði í áföngum, eða tekið út úr stjórnarskrá ella. Það er naumast viðunandi að biðja meiri hluta þjóðarinnar að sætta sig við það að fá enga leiðréttingu mála umfram þá sem náðist þegar árið 1959 og jafnframt að það misrétti skuli með varanlegum hætti bundið í stjórnarskrá. Það tel ég ekki koma til greina. Það tel ég vera svo ósanngjarna kröfu, að ekki verði til þess ætlast að við henni verði orðið. Þess vegna er tvennt í þessu efni. Í fyrsta lagi kemur til álita að þau ákvæði 1. gr., þ. e. 31. gr., sem gerir ráð fyrir að bundin verði í stjórnarskrá lágmarkstala þm. í hverju kjördæmi, verði numin brott. Þá verður hins vegar að játa að lítið er eftir af þessu frv., þ. e. aðeins ákvæðið um niðurfærslu kosningarréttar í 18 ár. Í staðinn verði ákvæði þessa efnis að finna í kosningalögum alveg eins og hér er gert ráð fyrir, að sú aðferð sem beita á við skiptingu þingsæta milli flokka, þ. e. svokölluð meðaltalsaðferð, sé aðeins ákveðin í kosningalögum. Því er haldið fram, að meðaltalsaðferðin sé til verulegra bóta umfram reglu d'Hondts, sem í gildi hefur verið til þessa, einkum til þess að tryggja jafnræði milli flokka. Þetta á m. ö. o. að vera helsti ávinningur þeirra kosningalaga sem fylgja frv. í fskj. Samt er sú aðferð ekki stjórnarskrárbundin. Það er ekki kveðið á um hana í ákvæðum þeirra stjórnarskrártillagna sem hér liggja fyrir. Það þýðir að unnt verður að breyta þessari aðferð með einföldum meiri hl. á Alþingi, jafnvel þegar eftir næstu kosningar, ef meiri hl. Alþingis svo kýs. Þá spyr maður: Úr því að aðferðin sem á að vera helsti ávinningurinn er ekki stjórnarskrárbundin, hvers vegna er þá verið að stjórnarskrárbinda misrétti atkvæðisréttar í þessum tillögum?

Annar kostur gæti verið sá, að bætt verði nýju ákvæði inn í þessar stjórnarskrártillögur, sem kveði á um það að fyrir hverjar kosningar framvegis skuli endurskoða skiptingu þingsæta miðað við búsetuþróun sem orðið hefur á kjörtímabilinu, með það að markmiði að fullum jöfnuði atkvæðisréttar verði að lokum náð. Slík ákvæði er að finna ýmist í stjórnarskrám eða kosningalögum flestra nágrannaríkja okkar. Upplýsingar um það má finna í sérstakri álitsgerð frá stjórnarskrárnefnd um þetta mál sem dags. er 1. apríl 1982. Þar segir t. d. um Danmörku:

,,Fjöldi þingsæta í hverju kjördæmi er endurskoðaður af innanríkisráðuneytinu á 10 ára fresti eftir að manntal hefur verið tekið.“

Um Svíþjóð segir: „Í nýju sænsku stjórnarskránni segir að kjördæmakjörin þingsæti skiptist milli kjördæma á grundvelli útreiknings hlutfallsins milli kjósendafjölda í hverju kjördæmi og kjósendafjölda í landinu öllu. Er það reiknað út þriðja hvert ár fyrir hverjar kosningar.“

Í Finnlandi háttar svo til, að þar eru ítarleg ákvæði um kjördæmi, kjördag og framkvæmd kosninga einungis sett í lögum, þannig að einfaldur þingmeirihluti dugar til þess að breyta fjölda þingsæta í kjördæmum eftir búsetuþróun fyrir hverjar kosningar. Í Vestur-Þýskalandi er slík ákvæði að finna í kosningalögum. Í Belgíu er slík ákvæði að finna í stjórnarskrá. Eina landið sem hér er fjallað um þar sem svipað hagar til og hér, þ. e. fjöldi þm. er stjórnarskrárbundinn í hverju kjördæmi, er Noregur.

Að mínu mati verður það að teljast í meira lagi hæpið í ríki, sem vill viðhafa lýðræðislega meirihlutastjórn að meginreglu, að jafnvel minni hlutinn sjálfur geti ákveðið leikreglur, sem feli það í sér að að staðaldri skuli minni hlutinn ráða. Alla vega þykir mér einsýnt að sé ákvörðun um þetta efni tekin af minni hluta þjóðarinnar samrýmist það illa grundvallarhugmyndum manna um lýðræðislega stjórnskipun. Ég tel það þess vegna siðferðilega skyldu alþm. að bera þetta mál undir dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvgr. Samþykki meiri hluti þjóðarinnar þessa skipan, þá er ljóst að taka beri hana upp. Vilji meiri hlutinn sætta sig við það að sinni, gegn því að misréttinu verði eytt í áföngum í krafti slíks endurskoðunarákvæðis stjórnarskrár, sem ég hef nefnt, fyrir hverjar næstu kosningar þá er sjálfsagt að una því.

Í umr. um misvægi atkvæðisréttar, sem var upphafið og kveikjan að tilraunum manna til endurskoðunar stjórnarskrármálsins í heild, er oft vísað til þess að félagslegur aðstöðumunur þegnanna sé slíkur, að það réttlæti misvægi atkvæðisréttar. Af þessu tilefni hafa margir menn orðið til þess að vara við því, að þjóðin skiptist í tvær andstæðar fylkingar milli þéttbýlis og dreifbýlis í hatrömmum deilum um sjálf grundvallaratriði stjórnarskipunar og pólitískra mannréttinda. Ég tel að röksemdir af því tagi að misvægi atkvæðisréttar megi réttlæta vegna pólitísks eða félagslegs aðstöðumunar fái ekki staðist.

Í fyrsta lagi geta menn endalaust deilt um það hverjir eru kostir eða gallar þess að búa í þéttbýli eða dreifbýli. Það dæmi verður seint gert upp svo að endanlegt sé. Auðvitað er það svo, að hægt er að tíunda dæmi á báða bóga um aðstöðumun í ýmsum efnum. Þó hygg ég að ekki liggi fyrir nein úttekt, neinar niðurstöður, sem óyggjandi geti talist, um það á hvorn veginn hallar, ef menn vilja meta þetta á reiknistokk kostnaðar og útgjalda. Enda er kjarni málsins sá, að um þetta getur málið ekki snúist. Menn eru hér að bera saman ósambærilega hluti. Auðvitað er í fullu gildi öll pólitísk viðleitni manna til þess að jafna aðstöðumun í þjóðfélaginu, þó svo sá aðstöðumunur verði aldrei endanlega jafnaður. Auðvitað á slík pólitísk barátta fullan rétt á sér, en þá pólitísku baráttu verður að heyja samkv. þeim leikreglum sem lýðræðið kveður á um, að menn gangi til þess leiks með jöfnum rétti til áhrifa. Það er með öllu óviðunandi og fornaldarsjónarmið að binda í stjórnarskrá ákvæði af því tagi sem flokka borgarana í ólíka gæðaflokka eftir einhverjum tilbúnum verðskuldunarmælikvörðum.

Við þekkjum það úr sögunni að sú var tíð að þeir einir þóttu bærir til þess að hafa óskertan og fullan atkvæðisrétt sem eitthvað áttu undir sér í þjóðfélaginu, sem meira áttu undir sér en aðrir. Atkvæðisrétturinn var bundinn eignum, efnahag o. s. frv. Það er ekki svo ýkjalangt síðan að ekki þótti við hæfi í ýmsum þjóðfélögum Evrópu að konur nytu fulls atkvæðisréttar. Ég hefði haldið að slík sjónarmið tilheyrðu liðinni tíð. Ég átti satt að segja ekki von á því að það hvarflaði að neinum manni að verja slíkar skoðanir, jafnvel ekki þó að dæminu sé snúið við og á það litið með öfugum formerkjum, þ. e. þeim rökum sé haldið fram, að þeir aðilar þjóðfélagsins, sem taldir eru njóta verri aðstöðu að einhverju leyti, ættu þess vegna að fá það bætt með auknum atkvæðisrétti. Ég endurtek: hér er verið að bera saman ósambærilega hluti, annars vegar atkvæðisréttinn, leikreglurnar sjálfar, sem samkv. öllum lýðræðislegum hugmyndum eiga að vera jafnar, allir þegnar ríkisins eiga að sitja þar við sama borð, og svo hins vegar pólitísk markmið, pólitískar stefnuyfirlýsingar, pólitíska baráttu, sem miðar að því að jafna félagslegan aðstöðumun.

Ef þessi röksemdafærsla um mismunandi félagslegar aðstæður væri leidd til rökréttrar niðurstöðu sjá menn í hendi sér hversu fjarstæðukennd hún er. Það er hægt að færa fyrir því gild rök, að félagsleg aðstaða manna innan eins og sama kjördæmis er ólík, munurinn er meiri innan eins og sama kjördæmis heldur en milli þéttbýlis á landsbyggðinni annars vegar og þéttbýlis hér á suðvesturhorni landsins hins vegar. Félagsleg aðstaða bónda. sem býr afskekkt, er öll önnur en þeirra sem njóta félagslegrar þjónustu í þéttbýliskjörnunum innan sama kjördæmis. Þessi röksemdafærsla endar með því að menn verða að fara að vega og meta félagslega aðstöðu hvers einasta einstaklings og úthluta honum atkvæðavægi eftir því. M. ö. o.. röksemdafærslan endar í fjarstæðu, endar með því að menn verða að fara að draga þegnana í dilka eftir einhverjum meira eða minna vafasömum verðleikamælingum.

Það er að mínu mati viðurkennd og viðtekin skoðun að þm. eiga að setja þjóðinni almenn lagafyrirmæli, almennar leikreglur sem nái til allra. Sér í lagi hlýtur það að eiga við um stjórnarskrá ríkisins. Hún tryggi öllum þegnum ríkisins, án tillits til óendanlegra mælinga á mismunandi þjóðfélagsstöðu, eða aðstöðu, sama pólitíska rétt. Það er einfaldlega grundvallaratriði lýðræðislegrar stjórnskipunar.

Því má út af fyrir sig halda fram, að þar sem við Íslendingar höfum með undirskrift okkar staðfest mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, þá séum við siðferðilega skuldbundnir til að virða þessar grundvallarreglur í okkar stjórnskipunarlögum. Í 21. gr. þeirrar mannréttindayfirlýsingar segir svo, með leyfi forseta:

„Vilji þjóðarinnar skal vera grundvöllur að valdi ríkisstj. Skal hann látinn í ljós með reglubundnum, óháðum og almennum kosningum, enda sé kosningarréttur jafn og leynileg atkvgr. viðhöfð eða jafngildi hennar að frjálsræði.“

Samkv. þessu er íslenska ríkið siðferðilega skylt að laga löggjöf sína að þessari mannréttindayfirlýsingu. Í samræmi við það hefur verið reynt í starfi stjórnarskrárnefndar að taka mið af mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og mannréttindayfirlýsingu Evrópuráðsins, sem íslenska ríkið á aðild að, við framsetningu þeirra mannréttindaákvæða og þeirra nýmæla í þeim efnum sem sett hafa verið inn í stjórnarskrá.

Sum ríki í Vestur-Evrópu fara þessa leið, þ. e. binda í stjórnarskrá ákvæði um jafnan atkvæðisrétt. Önnur ríki Vestur-Evrópu hafa þessa reglu í heiðri þó að hún sé ekki fastmælum bundin berum orðum í stjórnarskrá. Út frá öllum þessum röksemdum er það niðurstaða mín að ekki sé með nokkru móti hægt að fallast á þá skoðun eða þá till. að misrétti þegnanna að því er varðar atkvæðisrétt skuli bundið í stjórnarskrá með varanlegum hætti.

Af þessu tilefni leyfi ég mér að minna á þá sögulegu staðreynd, að það er einhver glæsilegasti þátturinn í baráttusögu Alþfl. fyrir auknum mannréttindum í þessu þjóðfélagi að berjast fyrir jöfnum atkvæðisrétti allra þegna ríkisins. Allt frá því að Héðinn Valdimarsson flutti fyrst hér á hv. Alþingi till. Alþfl. um landið — eitt kjördæmi samkv. hlutfallskosningum árið 1927 hefur það verið stefna flokksins að berjast fyrir jöfnum atkvæðisrétti án tillits til efnahags, búsetu, kynferðis eða annars aðstöðumunar í þjóðfélaginu. Þetta hefur verið rauði þráðurinn í mannréttindabaráttu Alþfl. alla tíð og einhver glæsilegasti kaflinn í sögu hans.

Þetta breytir að sjálfsögðu engu um það að kröfum þjóðfélagsþegnanna um jöfnun á félagslegu misrétti, ber auðvitað að svara og þær ber að taka alvarlega. En svarið er ekki fólgið í því að versla með grundvallarmannréttindi eins og atkvæðisréttinn. Svarið hlýtur að vera fólgið í því að færa vald og ákvörðunarrétt sem næst fólkinu sjálfu. Svarið við kröfum um jafnari félagslega aðstöðu er einmitt í því fólgið að færa fjármuni, vald og ákvörðunarrétt yfir málefnum fólks til sveitarstjórna eða samtaka þeirra, frá miðstjórnarvaldi ríkisins. Þetta er sú leið sem fara ber í stað þess að ætla að bæta mönnum slíkt upp með misjöfnum atkvæðisrétti.

Ég vil í þessu efni minna á t. d. þáltill. sem þm. Alþfl. undir forustu hv. þm. Magnúsar H. Magnússonar fluttu hér á síðasta þingi um þetta mál, þar sem var till. til þál. um aukið sjálfsforræði sveitarfélaga. Það er sú leið sem fara ber. Það er svarið við þessu tali um að bæta eigi mönnum upp félagslegan aðstöðumun með því að vega atkvæðisrétt manna misjafnlega eftir annarlegum sjónarmiðum. Í þeirri till. felst að að því beri að stefna að sameina sveitarfélög, efla þau og styrkja, stækka þau, gera þau fjárhagslega sjálfstæð, fela þeim vald til að ákveða gjaldskrá sinna eigin þjónustustofnana og yfirleitt gera þeim kleift að taka ákvarðanir um ráðstöfun fjár, og þá öflun fjár í því skyni, til þess að sveitarstjórnirnar og samtök þeirra verði ekki í þeim mæli sem nú er háð afgreiðslu Alþingis eða miðstjórnarvaldsins í höfuðborginni. Það er sú leið sem fara ber í staðinn.

Í þessum umr. hefur verið bent á nýjar patentlausnir sem eigi að höggva á þennan Gordionshnút. Þar er um að ræða þál. hv. 4. þm. Reykv., formanns Bandalags jafnaðarmanna, þar sem því er vísað til stjórnarskrárnefndar að flytja hér frv. til stjórnskipunarlaga, sem feli í sér að æðsti handhafi framkvæmdavaldsins, forsrh., verði kosinn beinni kosningu á grundvelli reglunnar einn maður — eitt atkvæði. En á sama tíma verði hins vegar sæst á það að óbreytt skipan ríki að því er varðar kosningar til Alþingis. M. ö. o., till. gerir ráð fyrir því að breyta engu að því er varðar kosningar til Alþingis, sætta sig við margfalt misvægi atkvæðisréttar í kosningum til löggjafarþingsins, sem full ástæða er til að ætla að muni fara enn vaxandi frá því sem það þó nú er. Engu að síður er ekki gert ráð fyrir því að afnema þingræðið. Forsrh., sem kjörinn yrði í beinni kosningu, yrði eftir sem áður að leita eftir meirihlutafylgi þings, sem kosið er með allt öðrum hætti, fyrir þeim tillögum, fyrir þeirri löggjöf sem hann óhjákvæmilega þarf að ná fram. Það er gert ráð fyrir því eftir sem áður, a. m. k. að forminu til, að þingræðið verði ekki afnumið. Alþingi á eftir sem áður að hafa fjárveitingavald, réttinn til þess að kveða á um útgjöld ríkisins í fjárlögum og lánsfjárlögum.

Þetta er sú till. sem hér hefur verið lögð fram, ákaflega einföld, kennd við franskt kerfi, og það er boðað með miklum ákafa að þetta sé sú till., sú patentlausn sem geti leyst vandann. Ég tel þessa till. í ýmsum atriðum vera misskilning á því sem kallað er franskt kerfi, vegna þess hversu ólíkum hlutum er þar saman að jafna bæði að því er varðar kosningaaðferðir og flokkaskipan, sérstaklega þá það að í Frakklandi er kosið með sama hætti og með sama kosningarréttarvægi til bæði framkvæmdavalds og þings. Og fleira er þar ólíkt. En það er ekki kjarni málsins. Kjarni málsins er þessi: Til hvaða niðurstöðu er líklegast að þessi skipan mundi leiða? Flm. sjálfur viðurkennir að yfirgnæfandi líkur hljóti að vera á því að hinn þjóðkjörni forsrh., kosinn samkv. reglunni einn maður — eitt atkvæði, muni reynast verða fulltrúi meiri hluta þjóðarinnar, sem í þéttbýli býr, enda kosinn með sama hætti og nú gildir um forseta ríkisins. Á móti honum kæmi hins vegar Alþingi sem væri kosið með allt öðrum hætti. Við vitum að þrátt fyrir það að minni hluti þjóðarinnar er búsettur utan þessara tveggja kjördæma hér á suðvesturhorninu, þá er mikill meiri hluti þingsins úr hinum sex kjördæmunum. Þetta byggist á misvægi atkvæðisréttar, sem samkv. þessari till. á ekki einasta að vera óbreytt, heldur má gera ráð fyrir að fari enn vaxandi.

Hver er trúlegasta niðurstaðan af þessu kerfi? Langsamlega líklegasta niðurstaðan er auðvitað sú, að upp komi alger árekstur milli annars vegar framkvæmdavaldsins, forsrh. og þeirrar ríkisstj. sem hann skipar, og hins vegar þess meiri hluta sem á Alþingi situr. M. ö. o., líklegasta niðurstaða þessarar till. er sú, að það ástand sem við nú höfum haft fyrir augunum hér á hv. Alþingi allan s. l. vetur, þar sem situr forsrh. sem styðst ekki við meiri hluta þings og getur ekki komið fram málum, og annars vegar er um að ræða ekki þingmeirihluta en stjórnarandstöðu sem hefur ekki aðstöðu til að koma fram málum gegn vilja og valdi forsrh. og þess þinghluta sem hann styðst við. Við höfum í allan vetur haft fyrir augunum slíkt stjórnleysisástand. Þjóðin hefur horft á það með vaxandi andúð, tortryggni og skelfingu. Hér höfum við horft upp á lömun stjórnkerfis. Við höfum horft upp á getulaust Alþingi og við höfum horft upp á getulaust framkvæmdavald. Langsamlega líklegasta niðurstaðan, ef þessi patentlausnartillaga yrði framkvæmd hér, yrði sú að gera þetta ástand, þetta forkostulega, hneykslanlega ástand að viðvarandi ástandi í ríkinu: algera lömun stjórnkerfisins. Það sem á að vera lausn er í raun og veru ekkert annað en till. að gera varanlegt það stjórnleysisástand sem nú er að ríða málefnum þjóðarinnar því sem næst að fullu.

Ég vek sérstaklega athygli á því, að samkv. þessum patentlausnartillögum er gert ráð fyrir því að kosningar til Alþingis verði enn og áfram samkvæmt óleiðréttu misvægi atkvæðisréttar. Engu að síður er viðurkennt að misvægi atkvæða, og þar með mismunandi geta byggðarlaga til þess að koma ár sinni fyrir borð gagnvart almannasjóðum, eins og segir í grg. með þáltill. hv. 4. þm. Reykv., þetta misvægi atkvæða eigi þyngsta sök á því sem varðar efnahagslega óstjórn lýðveldisins á undanförnum árum. Engu að síður er gerð till. um að það skuli halda áfram og engin tilraun gerð til að leiðrétta það. Að vísu á öllu að vera bjargað með því að rækileg skil verði gerð milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds, með því að sjá um að alþm. sitji ekki í stjórnum þeirra stofnana sem úthluta lánsfé, t. d. banka, fjárfestingarlánasjóða og annarra slíkra. Það er lofsvert markmið, um það er enginn ágreiningur milli mín og hv. 4. þm. Reykv. Um það markmið erum við sammála og því markmiði er unnt að ná eftir allt öðrum leiðum. En það er um fleira að ræða en yfirráð yfir sjóðakerfi. Kjarni málsins er sá, að Alþingi hefur eftir sem áður fjárveitingavald, ekki aðeins löggjafarvald heldur einnig fjárveitingavald. Meiri hluti Alþingis mun eftir sem áður samkv. þessum tillögum ráða niðurstöðum að því er varðar fjárlög og lánsfjárlög, þ. e. alla þá ráðstöfun fjár sem beint er út til sjóðakerfisins, og mikið af þeim fjármunum sem sóttir eru til framkvæmda í hinum einstöku kjördæmum eru auðvitað sóttir til þessara laga, þ. e. fjárlaga og lánsfjárlaga eða annarra laga.

Nú er spurning: Ef hinn þjóðkjörni forsrh. og sjálfskipuð ríkisstj. hans vilja leggja fyrir Alþingi, sem kosið er eftir allt öðrum reglum og þar sem allt annar meiri hluti er ráðandi, lagafrv. eða afla sér lagaheimilda fyrir þeirri uppstokkun á efnahagskerfi og hagstjórn sem boðuð er, til hvers mundi það leiða? Það er auðvelt að ímynda sér að slíkur þjóðkjörinn forsrh., sem ekki styðst við meiri hluta á Alþingi, leggi fyrir Alþingi frv. um eilífðardeilumál í íslenskum efnahagsmálum. Mér verður fyrir að nefna t. d. verulega minnkun eða afnám stórfelldra niðurgreiðslna á landbúnaðarafurðir eða afnám í áföngum á útflutningsbótum eða sjálfvirkum framlögum samkv. lögum til fjárfestingar í hefðbundnum atvinnugreinum. Það er hægt að hugsa sér ótal slíkar tillögur. Langsamlega líklegast er samkv. þessu kerfi að sá meiri hluti sem kosinn er á grundvelli áframhaldandi og vaxandi misvægis atkvæða standi hér fullkomlega í vegi fyrir því sem ríkisstj., sem kosin er með allt öðrum hætti og endurspeglar allt annan pólitískan vilja, vill fá fram.

Svarið við því á að vera að forsrh. geti skotið slíkum ágreiningsefnum milli þings og stjórnar undir þjóðaratkvgr. Það er út af fyrir sig lofsvert. Þjóðaratkvæðagreiðslum á að beita um stór deilumál, ef þau eru þess eðlis að hægt er að afgreiða þau í þjóðaratkvgr. með skýrum og einföldum, afdráttarlausum hætti. En ef kerfið á að vera þannig að einstök lagafrumvörp af þessu tagi, sem varða hagstjórn, sem varða skattamál, sem varða framlög til verklegra framkvæmda, eigi að fara undir þjóðaratkvgr., þá er hætt við því að niðurstaðan verði að þetta stjórnkerfi endi í lömun, endi í stjórnleysi, endi í töfum, verði svo óskilvirkt að það megi heita óvirkt.

Þessar tillögur um beina kosningu framkvæmdavaldsins voru á sínum tíma mikið til umr. innan Alþfl. Það reyndi aldrei á það hvert fylgi þær hefðu innan flokksins. Það var aldrei á það látið reyna í stofnunum flokksins, hvorki á flokksþinginu né annars staðar, hvort svo væri. Umr. leiddi til þess yfirleitt að menn komust að þeirri niðurstöðu þó að margt væri eftirtektarvert í þessum tillögum og þá sér í lagi enginn ágreiningur um það markmið að stefna bæri að aðgreiningu löggjafarvalds og framkvæmdavalds, að menn höfðu ekki trú á því að þetta kerfi mundi standast í reynd. Við nánari umhugsun er ég reyndar sannfærður um að svo er ekki. Þetta er ekki rétta leiðin. Við getum ekki fallið frá kröfunni um það að stjórnskipunin verði byggð á þeirri grundvallarreglu lýðræðis að allir þegnar ríkisins sitji við sama borð að því er varðar atkvæðisrétt. Það er grundvallarregla sem ber ekki að hvika frá. Ef það er pólitísk staðreynd að hún náist ekki nú, þá er hugsanlegt að sætta sig við það að því markmiði verði náð í áföngum. En það ber ekki að víkja frá þessu markmiði. Það er hægt að sætta sig við að það verði tekið í áföngum gegn því að þetta markmið verði viðurkennt, en það ber undir engum kringumstæðum að sætta sig við það að misréttið verði hins vegar bundið í stjórnarskrá. Það er einfaldlega brot á grundvallarsjónarmiðum manna um það til hvers stjórnarskrá er. Stjórnarskrá á að tryggja mönnum mannréttindi, tryggja mönnum jafnan rétt, og það er fráleit hugmynd að binda í stjórnarskrá misrétti af þessu tagi.

Að því er varðar hins vegar hinn pólitíska eða félagslega aðstöðumun í landinu eftir héruðum eða búsetu er svarið við því líka annað. Okkur ber að gera þær breytingar á stjórnkerfinu að færa vald og fjármuni frá miðstjórnarkerfinu til sveitarfélaga, sameina sveitarfélög, stækka sveitarfélög, gera þau að virkari framkvæmdaaðilum. Það er leiðin, það er rétta svarið í þeim efnum.

Herra forseti. Ég hef nú lýst afstöðu minni til þess frv. til stjórnskipunarlaga, sem hér hefur verið lagt fram. Ég hef einnig farið nokkrum orðum um till. til þál. um gerð frv. til stjórnskipunarlaga, sem snertir þetta mál að sjálfsögðu, þó að ekki sé hún hér til umr. Ég vil síðan víkja örfáum orðum að þeim drögum að kosningalögum, sem fylgja í fskj. þó ekki komi þau til kasta þessa þings.

Það er fljótsagt að kostir þessara tillagna eru fyrst og fremst þeir að sæmilega er um hnútana búið til þess að tryggja jafnræði milli stjórnmálaflokka að því er varðar atkvæðamagn að baki hverjum þm. Gallarnir eru hins vegar ýmsir. Fyrst og fremst er óhjákvæmilegt að gagnrýna að þessi málamiðlun hefur fyrst og fremst verið unnin af tiltölulega fáum einstaklingum og fyrir luktum dyrum. Nú stefnir allt til þess að reynt verði að keyra þessa málamiðlunarlausn í gegnum þingið og ekkert ráðrum, ekkert tóm og enginn tími gefist til þess að skjóta þeim málum til þjóðarinnar eða jafnvel upplýsa hana um málið. Og það verður að játast að það er óþarflega flókið, — óþarflega flókið, segi ég, vegna þess að forsendur málsins eru slíkar, að málið er ekki hægt að leysa eftir þessum leiðum án þess að það verði óhjákvæmilega flókið. A. m. k. er það svo, að þeir sem gagnrýna það eða halda því fram að ekki sé unnt að afgreiða stjórnarskrármálið í heild vegna þess að þjóðin eigi kröfu á að ræða það ítarlegar, þeir geta ekki um leið haldið því fram að hins vegar sé sjálfsagt að afgreiða þennan þáttinn, þ. e. kosningarréttarmálin, án opinberrar umr. og án þess að þjóðin fái ráðrúm til þess að segja sína skoðun. Þess vegna kemur auðvitað til álita að vísa þessu máli í heild til sérstaks stjórnlagaþings, skoða það í heild, afgreiða það í heild og vísa því til sérstaks stjórnlagaþings, eins og reyndar tveir stjórnmálaflokkar hafa á sínum tíma gert tillögur um. Þar á ég við Alþfl. og Framsfl.

Kosningalagatillögurnar eru smíðaðar utan um fyrir fram gefnar niðurstöður stjórnmálaflokkanna. Það verður að teljast galli að raunveruleg áhrif kjósenda á val frambjóðenda er of takmarkað, enda eru hugmyndirnar um persónukjör að verulegu leyti ófrágengnar, eins og fram kom í umr. hér í dag, og var vísað til þess að óskað væri eftir því að þingnefndir fjölluðu betur um það mál.

Herra forseti. Ég ítreka það að ég hef á öllum stigum þessa máls látið uppi fyrirvara um afstöðu mína til málsins. Það hef ég gert í mínum eigin þingflokki og opinberlega í ræðu og riti. Ég hef lýst þeirri skoðun minni að ég er andvígur fjölgun þm., sérstaklega með hliðsjón af því að hægt er að ná svipuðum áfanga í leiðréttingu á misvægi atkvæðisréttar án þess. Það gefst m. ö. o. kostur á því að ná svipuðum markmiðum með einföldum kosningalagabreytingum.

Í annan stað tel ég leiðréttingu á misvægi atkvæðisréttar eftir búsetu, sem hér er gert ráð fyrir, ófullnægjandi nema jafnframt fylgi ákvæði í stjórnarskrá um leiðréttingu atkvæðavægis eftir búsetuþróun í áföngum, fyrir hverjar kosningar framvegis, með vísan til þess, að slík ákvæði er að finna ýmist í stjórnarskrá eða kosningalögum flestra nágrannaríkja, eða taka þessi ákvæði út úr stjórnarskrá, eins og ég hef þegar rakið. Þess vegna áskil ég mér allan rétt um afstöðu til málsins, svo og til þess að fylgja eða flytja brtt.

Ég játa að sú lausn sem hér liggur fyrir veldur mér vonbrigðum. Spurningin er raunverulega sú: Geta menn sætt sig við þá málamiðlun sem hér er lögð fram? Þar tel ég meginatriðin vera þessi. Við getum ekki unað því að misvægi í atkvæðisrétti verði áfram stjórnarskrárbundið. Aðferðin til þess að breyta því er annaðhvort sú að taka ákvæðin sem kveða á um lágmarksfjölda þm. í hverju kjördæmi út úr stjórnarskrá eða, ef þau verða áfram í stjórnarskrá, að setja þá jafnframt í stjórnarskrá ákvæði sem kveður á um sjálfvirka leiðréttingu á misvægi atkvæðisréttar í áföngum í næstu kosningum.