28.02.1983
Neðri deild: 46. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2337 í B-deild Alþingistíðinda. (2074)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það líður nú á kvöld og sú spurning verður æ áleitnari hvort það sé í virðingarskyni við stjórnarskrána að þetta mál er tekið fyrir á kvöldfundi. Það er kunnara en frá þurfi að segja úr sögunni, að mörg voru myrkraverk framin og oft nauðsyn að notast við skjól nætur til að fremja það sem menn treystu sér illa til að koma á framfæri um bjarta daga. Mér er forvitni á að vita hvort ætlunin er að nota mesta dimmasta tíma sólarhringsins til að koma því máli í gegn og til nefndar, sem á að sjá um að hér verði ekkert endurskoðað, heldur afgreitt fyrirstöðulaust út úr þinginu. Þetta eru út af fyrir sig forkostuleg vinnubrögð, og ég tel það hreina móðgun við stjórnarskrána að meta hana svo lítils að halda kvöldfund, þegar stór hópur þm. er lagstur á síðuna heima fyrir eða er úti í bæ við aðra iðju, og þar skuli stjórnarskrármálið tekið fyrir. Þetta eru forkostuleg vinnubrögð, forseti. Og við sem einu sinni trúðum því að það væri þingræði í þessu landi brjótum nú heilann um hvort framkvæmdavaldið sé ekki að leggja undir sig þingræðið í landinu. Og það mætti fyrrv. dómsmrh. vita, sem hér valsar um salinn, að á sínum tíma sem handhafi framkvæmdavaldsins skipaði hann dómara, setti lög með bráðabirgðaafgreiðslu og lét líka semja frv. fyrir þingið. Er það ekki drottnandi framkvæmdavald sem gerir forseta þingsins svo huglausa að þeir hlýða hvaða fyrirmælum sem koma frá stjórninni? (VG: Er það Alexander, hv. þm.?) Forseta þingsins, sagði ég. Hann er ekki fleirtala. Því vona ég að hv. þm. geri sér grein fyrir.

Þetta segir eiginlega allt um stöðu málsins. Menn vilja koma því inn í þingið, flytja ræðu fyrir því, koma ræðunum á prent í dagblöðunum, tryggja það að ríkisfjölmiðlarnir séu við, en svo eru þeir horfnir eins og halaklipptir hundar út úr salnum.

Það er alveg furðulegt að það skuli geta gerst, þegar verið er að vinna að endurskoðun stjórnarskrárinnar og það verk allvel á veg komið, að út úr stjórnarskránni skuli tekinn sá hlutinn sem sennilega er hvað viðkvæmastur og þyrfti nú mestrar umfjöllunar við í þjóðfélaginu. Hann er slitinn úr samhengi. Honum er dembt inn í þingið og ætlast til þess að hann sé afgreiddur á örstuttum tíma. Og svo eru menn að tala um að þeir vilji koma stjórnarskránni áfram sem heild. Er þá ætlunin að hafa tvennar kosningar í sumar og svo tvennar kosningar að sumri, ef áhuginn er svona mikill á því að koma stjórnarskránni áfram, eða er ætlunin að koma þessu máli einu í gegn og svæfa svo hitt í 10–20 ár, eins og látið hefur verið viðgangast á undanförnum árum þegar farið hefur verið í að endurskoða stjórnarskrána?

En ég ætla þá að víkja örlítið að efnisatriðum frv. og vinnubrögðunum sem hér hafa verið viðhöfð. Stjórnskipunarlög eru rétthærri öðrum lögum. Önnur lög eru víkjandi ef merking þeirra rekst á merkingu stjórnskipunarlaga. Til að reyna að tryggja að vandað sé til slíkrar lagasetningar þarf meira að hafa fyrir því ef breyta á stjórnskipunarlögum en öðrum lögum. Yfir því frv. til stjórnskipunarlaga, sem hér liggur fyrir, hafa setið hinir mætustu menn, formenn fjögurra stjórnmálaflokka. Þeir hafa gefið sér forsendur og haft allt að því konunglegan reiknimeistara sér til aðstoðar. Hér hefur ekki verið notast við hugarreikninginn frá Sölva Helgasyni. Dr. Þorkell Helgason hefur vissulega beitt betri vinnubrögðum og haft tölvu sér til aðstoðar. Honum var það fljótlega ljóst að sum markmiðin, sem honum voru uppgefin, hlutu að verða víkjandi gagnvart öðrum, sem ætlað var að verða ríkjandi. Þetta er algengt úr erfðafræðinni, þar sem talað er um víkjandi og ríkjandi gen.

Það markmið sem númer eitt skyldi verða ríkjandi var að fullur jöfnuður væri milli þingflokka. Með jöfnuði milli þingflokka er átt við að allir flokkar hafi álíka marga kjósendur að meðaltali á bak við hvern þm. Það markmið að meira vægi ætti að vera hjá hverju atkvæði úti á landi en í aðalþéttbýlinu var víkjandi og þegar atkvæðin verða sett í einn pott til að reikna út þingsætahlut hvers stjórnmálaflokks verða þau ekki vegin upp með því misvægi, sem verið er að tala um, heldur öll metin jöfn. Það er því hnífjafnt vægi atkvæða hvar sem er á Íslandi. En aðalþéttbýlissvæðið fær ekki að hafa allan þann þingmannafjölda, sem það ræður, skráðan hér á suðvesturhorninu, heldur skulu þeir ráða kjöri manna að hluta til í kjördæmunum úti á landi. Á þessi kjördæmi skulu skráðir fleiri þm. en fólkið í kjördæmunum fær að ráða. E. t. v. liggur sú hugsun að baki, að aukin menntun hér á suðvesturhorninu geri réttlætanlegt að þeir hafi vit fyrir þegnum dreifbýlisins að hluta til, þ. e. þeim sem fjármála- og fjölmiðlavaldið hefur ekki snúið fyrir kosningar. Miðað við þá reglu, sem gilt hefur við að ákveða hverjir hafa náð kjöri í hinum ýmsu kjördæmum, má segja að hin smærri kjördæmi ráði eftir breytinguna varla yfir færri en 3 af 5 þm., en samkv. hinni nýju reglu, sem upp er tekin vegna breytts vægis á dýrlingum, er látið líta svo út sem hin smærri kjördæmi ráði 4 þm. af hverjum 5.

Herra forseti. Við lifum á tímum vísindalegra vinnubragða. Við hafnargerð er það orðin regla að gera módel af viðkomandi höfn og hefja svo straummælingar í sérstöku tilraunakerfi til að mæla frákast og öldugang í höfninni. Það eru jafnframt metin botnlag, ölduhæð utan hafnarmannvirkis og styrkleiki fáanlegs efnis. Það vantar mikið upp á að allt sé upp talið, enda má segja að það heyri til hreinna undantekninga ef hafnarmannvirki taka upp á að hverfa, eins og gerðist í Grímsey.

Segja má að ekki séu vinnubrögð af lakara taginu ef vegir eru lagðir. Ef ætlunin er að fara yfir fjarðarbotn eða botn á vogi dettur engum annað í hug en allsherjarrannsókn á plöntu- og skordýralífi viðkomandi svæðis, þó einstaka menn kvarti undan því að erfitt sé að telja skorkvikindin. Hér er því ekki rasað um ráð fram. Skorkvikindunum skal ekkert mein gert er orsakað geti búseturöskun í þeirra heimahögum.

Nú er mér ljóst að formennirnir fjórir eru vel menntaðir menn og hafa vissulega hagnýtt sér vísindaleg vinnubrögð að hluta til, þ. e. hinn stærðfræðilegi þáttur. Mér sýnist það einnig sýnt, að áfram beri að halda á þeirri braut og kalla nú til félagsfræðinga, frá Háskólanum og láta þá meta áhrif frv. Hvað með hinar dreifðu byggðir, ef þetta verður að lögum?

Margt er það sem athuga ber f þessu sambandi. Þm. eru og verða hagsmunagæslumenn, m. a. ákveðinna landssvæða. Hvort skyldi nú vera auðveldara verk að gæta hagsmuna Vestfjarða sem 1 af 5 eða Reykjavíkur sem 1 af 18? Þetta leiðir hugann að því, hvort ekki ætti fremur að skipta upp í fleiri kjördæmi í fjölmennustu kjördæmunum. Er ekki innbyggt óréttlæti í því að hafa kjördæmin með mismarga þm. Í þeirri stjórnarskrá sem við höfum má segja að áhrif embættismannavaldsins og stofnananna hafi ekki verið tekið með. En hugsum okkur nú pólitísku stöðuna. Við getum hugsað okkur að við röðuðum skattheimtu landsins á skinn eitt mikið og gættum svo að hver yrðu örlög þeirrar summu. Segjum að 5 togi þá fjármuni í vestur, 5 í norðvestur, 11 í norður, 5 í austur, 6 í suður og samtals 22 í suðvestur. Mér sýnist einsýnt hvert sá sjóður yrði dreginn. Þó geri ég ráð fyrir mannvali fyrir norðvesturhornið. Ég hefði gaman af því að sjá þetta útfært og prófa þetta eins og gert er nú með hafnarmannvirkin í módeli, raða liðinu niður og sjá hvernig til tækist.

E. t. v. segja menn að þetta sé ekki svona í framkvæmd. Hvernig fór nú með öldrunarsjóðinn, sem safnað var í skattpeningum af öllu landinu? Fór það ekki svo, að suðvesturhornið dró hann til sín að mestöllu leyti? Er ekki verið að byggja fyrir SÁÁ hér uppi í Grafarvogi? Hvaðan skyldu þeir peningar koma? Koma þeir ekki af landinu öllu? Hvert fara þeir? Á einn stað. Var ekki landssöfnun í gangi núna að frumkvæði forseta og forsrh.? Hvert fór það fé? Þetta er alvaran stóra í þeirri stöðu sem við stöndum frammi fyrir.

Hvernig hafa aðrar þjóðir leyst það vandamál að ofurmáttur stjórnstöðvanna dragi ekki til sín svo mikið vald og auð að til framleiðsluröskunar leiði fyrir þjóðfélagið? Bandaríki Norður-Ameríku eru sambandslýðveldi og þannig er reynt að koma í veg fyrir of mikla miðstýringu. Vestur-Þýskaland er einnig sambandslýðveldi. Hið forna þjóðveldi byggði einnig á hinum fornu fjórðungum. Segja má að þar hafi verið tryggt að ekkert ákveðið svæði landsins fengi drottnunarrétt yfir öðrum svæðum. Félagsfræðilega eru brotin öll þau lögmál, sem tryggja frið í mannlegum samskiptum, í þessu frv. Hvernig ætla þm. að verja það, að Austfirðingar og Sunnlendingar, svo að dæmi séu tekin, skuli hafa miklu minna um virkjanir að segja í sínum heimabyggðum en Reykvíkingar eftir að þetta er orðið að lögum?

Byggðist ekki nýlendustefnan á því að ná undir sig auðlindum annarra? Eru menn búnir að gleyma Laxárdeilunni og átökunum á milli Akureyrar og Þingeyjarsýslu? Hvaða áhrif ætli það hafi á fasteignir úti um land ef fólksflutningar til suðvesturhornsins aukast frá því sem er? Má gera ráð fyrir að þeir sem flytja tækju upp arðbærari störf fyrir þjóðfélagið? Verða þær breytingar, sem hér er verið að leggja til, til þess að leiðrétta annað óréttlæti í þjóðfélaginu? Verður aðstaða til menntunar jafnari? Má ætla að jöfnun orkuverðs í landinu fylgi á eftir? Er markmiðinu náð með því að sjónvarpið sendi myndatökumenn til að kvikmynda sérvitringa, sem eftir sitja, til að sýna þá á stórhátíðum og tyllidögum? Verður það til hagsbóta fyrir höfuðborgarsvæðið ef framleiðslusvæðin enda f þrengingum? Allt þetta og margt fleira teldi ég verðugt rannsóknarefni fyrir félagsfræðinga, þjóðfélagsfræðinga og hagfræðinga áður en ákvörðun er tekin um kjördæmabreytingu.

Menn skyldu gera sér grein fyrir því, að röskun eins og hér er verið að tala um hefur ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Í dag erum við á sögulegum vendipunkti. Verður það til farsældar að lýðveldið Ísland ákveði að breytast í borgríkið Reykjavík í áföngum? Það er nefnilega verið að láta í það skina að hér sé aðeins verið að stíga skrefið til hálfs, þetta sé áfangaaðgerð í því sem til umr. sé.

Sannleikurinn er sá, að enginn getur séð til fulls fyrir afleiðingar þeirrar þróunar sem fylgir auknum þingstyrk hér á suðvesturhorninu. Það er aftur á móti söguleg staðreynd, að borgríki með mikilli miðstýringu er miklu hættara við að tapa sjálfstæði sínu en lýðveldi með dreifðu valdi. Persónulega tel ég að heppilegra hefði verið að auka á sjálfsforræði byggðanna, Reykjavíkur sem annarra byggða. Því hefur verið haldið fram, að þetta frv. sé sáttargjörð á milli dreifbýlis og þéttbýlis. Þetta frv. er stríðsyfirlýsing. Það hlýtur hver óvitlaus maður að sjá. Það er stríðsyfirlýsing þar sem annar aðilinn heimtar til sín hluti, sem hann segir að hann eigi rétt á, en hinn hópurinn, sem ranglæti er beittur í þjóðfélaginu, fær ekkert af því sem hann hefur verið að berjast fyrir.

Ég minnist þess, að ég flutti frv. á Alþingi Íslendinga þar sem mælst var til þess að vísitala framfærslukostnaðar yrði reiknuð út fyrir landið allt og þannig hægt að komast að því hver væri kostnaðurinn á hinum ýmsu svæðum. Hæstv. félmrh. taldi það heilaga skyldu sína að koma í veg fyrir að þetta yrði reiknað út. Þannig er hugsunargangur Alþb. í málinu.

Hæstv. iðnrh. er búinn að hella yfir þessa þjóð mestu hækkun sem yfir hana hefur dunið í einum flokki, raforkumálunum. Það er búið að velta 800% hækkun yfir landslýð. Og menn eru hissa þó að fólk úti á landi telji að það sé hægt að tala um fleira en atkvæðisréttinn! Menn eru hissa þó að það sé farið að hitna í dreifbýlinu. Hvað yrði sagt ef menn hefðu fengið hér almennt 800% hækkun yfir sig?

Það blasir við að hnefarétturinn er í sókn hér á landi. Og upp eru að renna þeir tímar að misvitrir menn, með því að taka ekki á þessum málum sem heild, annars vegar að breyta að einhverju leyti vægi atkvæða og hins vegar að leiðrétta annað misrétti, eru að skipta þjóðinni upp í tvær stríðandi fylkingar. Lúðvík Jósepsson gerir sér grein fyrir þessu í riti Alþb., Þjóðviljanum. Hann segir svo, með leyfi hæstv. forseta, þetta er f Þjóðviljanum 19. 20. febr.:

„Kjördæmamálið: Umræðan um kjördæmamálið hefur ekki orðið til að auka á bjartsýni um samstarf og samheldni landsmanna. Með ofsakenndum og öfgafullum áróðri hefur tekist að skipta þjóðinni í tvær fjandsamlegar fylkingar í þessu máli. Annars vegar er hrópað á fullan jöfnuð atkvæða um allt land og enga fjölgun þm. Hins vegar standa aðrir og neita öllum breytingum. Þeir sem mest kvarta um skertan atkvæðisrétt telja sig berjast fyrir jöfnun mannréttinda og rekja orðið flest sem aflaga hefur farið í þjóðfélaginu til rangs „atkvæðavægis“ eins og það er kallað.

Krafan um fullan jöfnuð atkv. milli landshluta og enga fjölgun þm. þýðir á mæltu máli, að Vestfjarðakjördæmi, sem nú er fámennasta kjördæmið, fái 2 þm. í stað 5–6, en að Reykjavík fái 25 í stað 15 nú.

Áróður þessara „réttlætismanna“ er m. a. sá, að ekki sé hægt að stjórna efnahagsmálum þjóðarinnar vegna þessa ranga atkvæðavægis. Þeir segja, að teknar séu rangar fjárfestingaákvarðanir vegna þessa misréttis að gengið sé á hlut þéttbýlisbúa. Hér er með gífuryrðum alið á fjandskap milli landshluta. Hér er verið að halda því fram að fjárfest hafi verið óeðlilega t. d. á Vestfjörðum á kostnað höfuðstaðarbúa og til ógagns fyrir þjóðarheildina. Til Vestfjarða hafa þá líklega verið keypt of mörg fiskiskip og byggð of mörg frystihús.

Á Vestfjörðum starfa um 55% allra vinnandi manna að frumvinnslugreinum, þ. e. landbúnaði og sjávarútvegi. Í Reykjavík starfa hins vegar að frumvinnslugreinum um 3.1%. Auðvitað vinna Reykvíkingar eigi að síður að þjóðhagslega nauðsynlegum störfum. En þessar tölur sýna fyrst og fremst hve gagnkvæmt samstarf og samvinna eru nauðsynleg á milli Vestfirðinga og Reykvíkinga.

Sjósókn og fiskvinnsla Vestfirðinga er á vissan hátt undirstaða undir störfum Reykvíkinga og störf Reykvíkinga eru auðvitað nauðsynleg Vestfirðingum, þó að þau séu mest á sviði verslunar, stjórnsýslu og æðri menntunar. Fjárfestingin í Reykjavík á sviði verslunar, opinberrar þjónustu og æðri menntunar hefur ekki verið lítil. Hún hefur örugglega ekki skilað meiri hagvexti en fiskveiðar Vestfirðinga.

Sú afstaða sem leiðtogar stjórnmálaflokkanna tóku í upphafi varðandi kjördæmamálið var eðlileg og skynsamleg. Þeir sögðu: Við teljum ekki rétt að raska núverandi kjördæmamörkum og ekki rétt að fækka kjördæmakosnum þm. fjarlægustu og smæstu kjördæma. Við teljum hins vegar rétt og sjálfsagt að rétta nokkuð hlut þéttbýlissvæðanna með fleiri þm. þeim til handa. Slík leiðrétting verður að eiga sér stað nú eins og alltaf áður með einhverri fjölgun þm. og með breyttum reglum varðandi skiptingu uppbótarþingsæta.“

Ég hygg að það sé fróðlegt að lesa hér örfáar tölur, og er nú skaði að Sverrir Hermannsson, (Gripið fram í: Hann er kominn.) 4. þm. Austurl. er ekki í forsetastól, því að hann ber ábyrgð á þeim næturvígum, sem hér á að vinna á stjórnarskránni, og einnig á þeim tölum sem eru í þeirri bók sem ég hef hugsað mér að lesa hér nokkuð upp úr, með leyfi forseta:

Skipting mannafla í Vestur-Ísafjarðarsýslu eftir atvinnuvegum, ársverk. Meðaltekjur á ársverk og hlutfallstölur fyrir árið 1980:

Landbúnaður 17.8%. Meðaltekjur á landsmælikvarða 90.8 % , þ. e. meðaltekjurnar eru þá 100 og þetta er undir meðaltekjum. Fiskveiðar 11.6%, en meðaltekjur 112%. Tekjur sjómanna á Vestfjörðum eru hærri en annars staðar, enda munu þeir draga einna mestan fisk úr sjó miðað við hvern starfandi mann í sjávarútvegi á Íslandi. Fiskvinnsla 97.7. 35.6% af ársverkunum eru í fiskvinnslunni, en tekjurnar 97.7%. Iðnaður 5.7%, en tekjurnar 90.9%. Rafmagns-, hita- og vatnsveitur 1.5%, en tekjurnar 89.3%. Byggingarstarfsemi 5.8%, en tekjurnar 88.9%. Verslun 5.4%, en tekjurnar 86.7%. Samgöngur 5%, en tekjurnar 86.4%. Bankar og tryggingar 1.2%, en tekjurnar 74%. Þjónusta 10.4%, en tekjurnar 86.7%.

Meðaltekjurnar eru undir landsmeðaltali. Ég hygg að hver sem hlýðir á þennan lestur geri sér grein fyrir því, að þarna er verið að vinna að hagnýtum störfum fyrir þjóðfélagið. Engu að síður er það staðreynd, að vegna misheppnaðra raforkusölusamninga aðalorkuveitu landsins hefur verið tekin um það ákvörðun af forráðamönnum í iðnaði og orkumálum að velta yfir hin „köldu svæði“ landsins þessum mistökum óheftum.

Það er fróðlegt að skoða í Þjóðviljanum 22. febr. 5. síðuna, með leyfi forseta. Þar kemur í ljós, að á árunum 1967–1980 fluttu yfir 7000 manns úr landi umfram aðflutta. Á framleiðslusvæði landsins hefur þurft að flytja inn útlendinga til vinnu vegna þess að menn hafa frekar viljað fara úr landi til að stunda þar störf en að sinna þeim störfum sem þetta þjóðfélag þó lifir á. Það er alvaran stóra. En niðurstaðan, hver er hún? Jú, eitt af því sem ákveðið er að rýmka til er með kosningarrétt þeirra sem í útlöndum dvelja. Niðurstaðan er sú, að sá hópur, sem enga skatta borgar til íslenska ríkisins í stórum stíl, hefur þegið námslán frá íslenska ríkinu og notið bestu menntunar, skal hafa meiri áhrif á stjórn þessa lands en Vestfirðingar þrátt fyrir að það verður sá hópurinn sem stendur í því að borga skuldirnar fyrir stóriðjuævintýrin sem við erum svo blekktir af í dag.

Herra forseti. Ég vænti að það sé í virðingarskyni við stjórnarskrána og mikilvægi hennar sem forseti telur vitlegast að hafa kvöldfund um stærsta mál þingsins. Og það er fróðlegt að fylgjast með því og meta hvort þar blundar enn snefill af sjálfstæði og viljafestu Vestfirðings sem einu sinni stundaði sjósókn við Djúp eða hvort það er orðið svo kaghýtt það eðli að það þori ekki annað en hlýða framkvæmdavaldinu og fylgja dagskipuninni: Látið þá tala þangað til umr. er lokið.