28.02.1983
Neðri deild: 46. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2343 í B-deild Alþingistíðinda. (2075)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég er nú að líta í kringum mig til að gá hvar hv. flm. eru hér í salnum. Það mun að vísu vera siður að það sé aðeins þegar um stjfrv. er að ræða að hægt sé að krefjast þess að sá ráðh. sem hefur með málið að gera sé hér í þingsölunum. Þegar um þmfrv. er að ræða sé ekki hægt að krefjast þess. En hér er dálítið sérstakt mál á ferðinni. Það er verið að ræða hér um stjórnarskrá lýðveldisins, frv. til stjórnskipunarlaga. Ég vil því óska eftir því við hæstv. forseta að hann sjái um að hv. flm. séu hér í salnum á meðan verið er að ræða þetta mál. (Forseti SvH: Ég vil benda á að einn aðalflm. er viðstaddur, hv. 2. þm. Reykv. Ég vil og geta þess, sem auðvitað er, að allir fluttu flm. rækilega framsögu, sem er óvenjulegt, að allir flm. flytji slíka framsögu fyrir máli. Þá er þess að geta, að þetta er aðeins 1. umr. þannig að tvær eru eftir og gefst þá hv. þm. kostur á að fá skýringar ef þeir þurfa með frv. Enn er þess að geta, að mér heyrist á velflestum ræðumönnum að þeim þyki þetta frv. afar einfalt í sniðum svo að það þarf kannske ekki flóknar útskýringar. Í síðasta lagi ber að leggja á það áherslu að óframkvæmanlegt er af hálfu forseta að sjá svo um, að flm. frv. séu viðstaddir. Það hefur verið tíðkað að reyna að sjá svo um að ráðh. væru viðstaddir þegar um stjfrv. er að ræða. Ég er til að mynda með hér í höndum frv. sem eru 13 flm. að. Ef einhver tæki nú upp á því að standa í stól og krefjast þess, að þeir væru allir við, og þetta er endilangur stjórnarandstöðuþingflokkur Sjálfstfl., veit ég að hv. ræðumönnum mundi ekki hugnast að slíku. Læt ég þess vegna skýringum mínum núna lokið.)

Herra forseti. Ég verð að segja það að hér er um allt annað og óvenjulegt mál á Alþingi að ræða. Það er frv. til stjórnskipunarlaga og ég verð að lýsa óánægju minni yfir því að hér skuli vera haldið áfram að ræða þetta frv. undir lágnætti yfir tómum þingsal.

Ég vil að þessu loknu skýra frá því að ég hef áskilið mér allan rétt í þessu máli frá upphafi. Ástæðan fyrir því er að ég tel að þetta mál, sem hefur tekið svo langan tíma hér á Alþingi, sé ekki það mál sem mest liggur nú á að ræða og leita úrlausnar á. Ég tel að það séu allt önnur mál. Ekki síst þegar menn velta fyrir sér efnisatriðum þessa frv. sem eru aðeins tvö. Það er um að fjölga þm. um þrjá. (Gripið fram í.) Er það það nauðsynlegasta sem Alþingi Íslendinga þarf að gera, að fjölga þm. um 3. Og í öðru lagi að færa kosningaaldur niður í 18 ár. Það hefur verið athugað í sumum skólum að þar eru mjög skiptar skoðanir um það hvort menn vilja þiggja þennan kosningarrétt sem er verið að veita. Og a. m. k. er það alveg klárt að þetta er ekki það mál sem þjóðin þarf nú helst að leiða til lykta. Út af þessum tveimur efnisatriðum, án þess að taka heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar til afgreiðslu, á síðan að stefna þjóðinni, við þær aðstæður sem nú eru, út í tvennar kosningar. Það er engin furða þó að hv. kjósendur séu undrandi á því ástandi sem ríkir hér í sölum Alþingis.

Ég vil taka það sérstaklega fram, áður en ég held lengra í máli mínu, að ég er þess fullviss að ef hv. formaður Framsfl., Steingrímur Hermannsson, hefði ekki fjallað um þetta mál með hinum forustumönnum þingflokkanna hefði þetta frv. og þau drög sem eru að kosningalögum o. fl. þó verið á annan veg en hér er og ennþá óaðgengilegra fyrir þá sem búa við skertan hlut í þjóðfélaginu. En þó að ég viðurkenni það finnst mér það samt sem áður ekki réttlæta það að standa að svona frv.

Það er margt sem ég hef við þetta að athuga, en mun fátt eitt tína til, þar sem hér við 1. umr. er því miður ekki nema einn hv. flm.

Hv. alþm. ræða mjög um réttlæti og mannréttindi. Í máli þeirra eru einu mannréttindin, að manni skilst, jafnt vægi atkvæða. Það er a. m. k. það sem liggur mest á í þeirra augum að leiðrétta. Í mínum huga er fleira mannréttindi, sem kannske lægi meira á að byrja á, ef ætti að koma á einhverju réttlæti í þessu þjóðfélagi. Hafa menn hugleitt hvernig á því stendur að enda þótt vægi atkvæða sé svo miklu meira t. d. á Vestfjörðum en hér skuli fólk ekki flytja vestur á firði af suðvesturhorninu til að njóta þessara mannréttinda? Hvernig skyldi standa á því? Væri ekki rétt fyrir menn að hugleiða það? Því flytja menn þaðan, jafnvel þeir sem eru að tala um þessi mannréttindi hér? Ætli það sé ekki vegna þess að aðstöðumunurinn er nokkuð mikill á milli þeirra sem búa víðs vegar úti á landinu og hinna sem búa hér á suðvesturhorninu? Það er ekki nóg að hafa sama tímakaup ef framfærslukostnaðurinn er þriðjungi meiri eins og mun vera nú. Eitt af því sem ræður úrslitum er hitunarkostnaðurinn á hinum köldu svæðum fyrir utan allt annað. (GJG: Fátækt er mest hér í Reykjavík.) Ég veit að hér er fátækt. En hún er ekki síður annars staðar. Ég þekki a. m. k. allsleysi annars staðar en í Reykjavík. Og eitt er víst, að ef menn hafa sömu krónutölu í vasanum, þá er meiri kostnaður að búa annars staðar en hér þegar allt er skoðað.

Ég mun athuga það að flytja brtt. við þetta frv., brtt. um að tekin skuli upp aðstöðuvísitala eða þjónustuvísitala eða hvað sem menn vilja kalla hana, hvað það kostar að búa á Vestfjörðum, hvað það kostar að búa á hinum og öðrum stað og menn fái skattaafslátt í samræmi við það. Það er ekki sæmandi fyrir Alþingi Íslendinga að afgreiða þetta mál án þess að í leiðinni sé reynt að jafna aðstöðumun í þjóðfélaginu. Ef það er skoðun hv. þm. á annað borð að þjóðinni sé nauðsynlegt að byggja landið allt, eins og a. m. k. er haldið fram í hátíðarræðum á tyllidögum að ég hygg af öllum forustumönnum þeirra þingflokka sem hér eru, þá verður líka að bregðast við í samræmi við það, en ekki gera ráðstafanir sem verka alveg öfugt, þannig að skriðan af fólki komi utan af landsbyggðinni hingað á suðvesturhornið. Ég mun athuga hvort ég hef möguleika á að flytja slíka till. um þjónustuvísitölu eða aðstöðuvísitölu við þetta frv. Þá sést hver réttlætistilfinningin er hjá hv. þm.

Það er ýmislegt fleira sem ég _tel aðfinnsluvert við þetta frv. Ég tel það t. d. sjálfsagt mál að hvert kjördæmi fái að ráða kjöri sinna manna, þess fjölda þm. sem má vera í hverjum stað, en það séu ekki kjósendur annarra staða sem ráði því. Þar af leiðandi tel ég, fyrst búið er að ákveða með þessum hætti — það er auðvitað ekki ákveðið með þessu, en það er stefnt að því, það er auðséð á fylgifrv. hér — að það verði bundið ákveðinni tölu, að þeir skuli allir kosnir beinni kosningu á hverju svæði. Og sé um það tvennt að ræða, þá vil ég a. m. k. heldur fækka þm. utan af landsbyggðinni en það séu aðrir sem ráði kjöri þeirra fulltrúa sem þaðan eru. Því að það er náttúrlega ekkert samræmi í því að segja, að það skuli vera svo og svo margir þm. utan af landsbyggðinni og síðan að svo og svo margir séu kosnir og það sé svo ákvarðað af mönnum úr öðrum kjördæmum hverjir verða þar fulltrúar.

Ég er líka alveg mótfallinn því undir þessum kringumstæðum að fjölga þm. Það er engin ástæða til þess, ekki nokkur. Mér finnst það hreint ábyrgðarleysi, undir slíkum kringumstæðum sem nú eru, að steypa þjóðinni út í tvennar kosningar, eins og mér skilst að tveir flokkarnir sem að þessu standa stefni að, þ. e. Alþb. og Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu. Ég hefði haldið að það væri annað sem lægi meira á.

Á morgun hækkar allt kaup um 14.74%. Sumir halda því fram að það sé kjarabót fyrir láglaunafólkið að fá slíka hækkun. Mér detta nú í hug öfugmælavísurnar frá því í gamla daga þegar ég heyri þetta. Málið er svo einfalt. Atvinnuvegirnir, a. m. k. flestir þeirra, geta eins og sakir standa ekki borgað hærra kaup. Það er vitað að hækkunarskriða er komin strax í kjölfarið. Landbúnaðarvörur hækka um 25–30%. Fiskvinnslan þarf að fá gengisfellingu upp á ég veit ekki hvað, ég ætla ekki að nefna neinar tölur. En eitt er alveg víst, að ef atvinnuvegirnir geta ekki borið neitt af þessari hækkun verður hlutur þeirra skertur sem hafa lægstu launin. Ef atvinnureksturinn á að fá þetta allt aftur til sín með einhverjum hætti, þá stendur maðurinn sem hefur meðallaunin kannske nokkurn veginn jafnréttur, en hinir, sem eru fyrir neðan strikið, tapa. Ofan á þetta bætist svo það að þjónustufyrirtækin, verslunarfyrirtækin eru að ræða um það þessa dagana að þau neyðist til að fara að segja upp fólki, 15–20% þar sem það er hægt. Hvar stöndum við? En á meðan þetta er að gerast er rætt um að fjölga þm. um þrjá og færa kosningaaldurinn niður í 18 ár. Það er brýnasta málið, herra forseti. Ég spyr enn: Hvar stöndum við? Hvað hugsum við?

Ég lýsi ábyrgð á hendur þeim mönnum sem ætla sér að stefna þjóðinni út í tvennar kosningar á þessu ári undir slíkum kringumstæðum algerlega að ástæðulausu. Það hefði verið allt annað ef heildarniðurstaða hefði verið um stjórnskipunarlögin, ef það hefði fylgt með, það var þó afsökun. En það er engin afsökun þegar hér er í raun og veru ekki um neitt að ræða.

Já, menn ræða mikið um mannréttindi. Einn hv. þm. sagði áðan að menn ættu að standa á jöfnum rétti til áhrifa, allir þegnar eigi að sitja við sama borð. Það er einmitt þetta sem ég er að tala um. Ef það væri stæði ekki á mér að hafa vægi atkvæða jafnt, ef fyrst væru gerðar ráðstafanir til þess að minnka aðstöðumuninn eftir því sem hægt er í þessu þjóðfélagi.

Mér skildist á hv. þm. Jóni Baldvin áðan að hann vildi eiginlega láta lögbinda ójöfnuðinn, hvorki meira né minna.

Klukkan er nú orðin 12 á lágnætti. Ég mun athuga það að koma með brtt., ef sú till. skyldi skjóta upp kollinum, ganga aftur hér í þinginu, sem er búið að nema brott úr þessu frv. Ég sá bráðabirgðaákvæði sem er nú til allrar hamingju horfið hér brott. Ég mun líka athuga um brtt. við þá till. ef hún kemur fram.

Ég vil svo endurtaka það að mér finnst þetta frv. — það eru að vísu hér fylgifrv. sem eiga að koma til umfjöllunar næsta þings ef þetta frv. til stjórnskipunar laga verður samþykkt á þessu þingi — mér finnst að þetta frv. sem við erum að fjalla um sé heldur lítið og léttvægt miðað við þann tíma og vinnu og umstang og umræðu sem hefur farið fram í þjóðfélaginu að undanförnu.