28.02.1983
Neðri deild: 46. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2346 í B-deild Alþingistíðinda. (2076)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég tek undir niðurlagsorð hv. síðasta ræðumanns um þetta frv., að það er ótrúlega lítið og léttvægt miðað við alla vinnuna og allan aðdragandann. En erindi mitt í annað skipti í þessum umr. í ræðustól er hins vegar enn sem fyrr að vekja athygli á því, að þetta frv. fjallar ekki fyrst og fremst um þá átakspunkta sem vissulega gætu verið til staðar og sumpart eru til staðar í samfélaginu á milli þéttbýlis og dreifbýlis og menn hafa hér gert nokkurt mál úr, kannske af ofur eðlilegum ástæðum, vegna þess, herra forseti, að í þessu frv. til stjórnskipunarlaga er engin slík afstaða tekin. Allar slíkar ákvarðanir eru geymdar til næsta þings, sem enginn getur sagt með nokkurri nákvæmni nú hvernig saman muni verða sett.

Ég vil segja það, herra forseti, að ósvífnin, sem í þessu frv. felst, byggir á þessu. Ég held að það hafi vafist fyrir mönnum — og það er tæknileg útskýring — að menn eru að bera þetta frv. saman við frv., sem var auðvitað miklu merkilegra og róttækara og allt öðruvísi, um meiri háttar breytingu á kjördæmaskipuninni, sem gerð var 1959. Þá var kjördæmaskipan breytt með róttækum hætti og þá fóru fram tvennar kosningar. En sannleikurinn var sá, að þá var í mörgum meginatriðum allt önnur tíð í þessu landi í stjórnarfars- og stjórnmálaflokkalegum skilningi, eins og fram kom hjá hæstv. félmrh. í dag þegar hann fór að lesa upp úr gömlum bréfum og álitum Alþb. Þá var meira og minna flokksræði. En slíku er ekki fyrir að fara í dag með sama hætti. Það gáfu fáeinir einstaklingar út með hvaða hætti flokkar og þingflokkar mundu hegða sér og það stóð. Við urðum að horfa upp á það hér í kvöld, og ég vil taka það fram að ég tel að sú þróun sé af hinu góða, að það eru í raun og veru uppi allt önnur viðhorf í þeim efnum.

Dæmi um hvað menn leggja þetta niður fyrir sér að minni hyggju með röngum hætti: Menn eru hér að ýja að því að um eitt skeið hafi inni í þessu frv. verið ákvæði til bráðabirgða um tvennar kosningar. Slíkt væri ekki aðeins formlega rangt, heldur lagatæknilega rangt, því að slíkt byggir ekki aðeins á því að þetta þing samþykki að viðhafa tvennar kosningar, heldur einnig hið næsta þing, sem eftir á að kjósa. Þetta þing, sem nú situr, og þessir hv. fjórir flokksformenn, sem frv. hafa lagt fram, geta auðvitað sett hvaða ákvæði til bráðabirgða inn í frv. sem er og samþykkt það. En næsta þing er ekki með nokkrum hætti bundið af því að fara eftir því. Það getur gert það að sínu fyrsta verki að fleygja slíku ákvæði til brb. út í hafsauga og sitja svo til fjögurra ára, ef það svo kýs.

Með öðrum orðum: slíkt ákvæði til bráðabirgða er dauður bókstafur. Menn gerðu þetta svona 1959, en þá voru allt aðrar ástæður í landinu. Mér sýnist að miklu meira í þessu frv. byggi á þessari hugsanavillu, sem menn rekja að einhverju leyti til 1959 og eru að bera saman til 1959, en gleyma því að flokksaginn var þá með öðrum hætti og þótti kannske sjálfsagðara mál en hann þykir í dag. Slíkt ákvæði til bráðabirgða í slíkum lögum, flutt af 4 eða 2 eða með einhverjum hætti, er auðvitað alfarið dauður bókstafur. Alveg jafngilt væri ef gefin væri út einföld yfirlýsing. Bráðabirgðaákvæði væri jafnmikils virði og slík yfirlýsing, þó það héti ákvæði til bráðabirgða í þessu frv. og þó að samþykkt yrði. Það yrði næsta þing, hverjir sem það koma til með að skipa, sem slíkt ákvæði. Í þessu frv. er auðvitað ekki hægt að heita neinu í þeim efnum. Öll þessi hugsun. hygg ég, er röng.

Þetta, herra forseti, er annað af þessum tæknilegu atriðum. Hitt er það, að í þessu frv. til stjórnskipunarlaga og alveg óháð þeim átökum, sem sumpart eiga sér stað hér í málflutningi um jafnan eða ójafnan atkvæðisrétt, um jafna eða ójafna aðstöðu, er sá kjarni málsins að fjölga þm. um þrjá. Þá undanskil ég að vísu næstu grein á eftir um lækkun kosningaaldurs. En að því er kosningakerfið varðar gengur þetta út á það eitt að fjölga þm. Það er tekið fram í b- og c-staflið að 9 þingsætum skuli ráðstafað í kosningalögum. Það eru að vísu einhverjar tillögur í grg. um hvað í þessum kosningalögum skuli standa, en alveg af sömu ástæðu og þessir hv. herramenn segja næsta þingi ekki nokkurn skapaðan hlut um hve lengi það skuli sitja — það er þess að ákvarða það — segja þessir herramenn næsta þingi ekki heldur á þessu augnabliki nokkurn skapaðan hlut um hvernig þessum 9, sem heimilt verður að bæta við 54, skuli ráðstafa. Engar tillögur í grg. og engar tillögur í fskj. þessa þings megna að fá neinu um það ráðið hvað næsta þing kemur til með að gera. Þess vegna, og fyrir utan aðrar augljósar hugsanaskekkjur, sem í þessu eru, er þetta frv. verra en ekkert.

Við skulum aðeins segja frá bæjardyrum okkar þéttbýlismanna: setjum svo að næsta þing ákvæði nú að fara allt öðruvísi að og taka þessa nýju þm. og færa þá til sín. Ég hygg að vísu að til slíkrar óbilgirni kæmi ekki, en það er ekkert í þessum pappír sem kemur í veg fyrir að svo skuli að málum staðið. Meira að segja í staflið b, þar sem fjallað er um 8 af þessum 9 þm. sem ekki eru bundnir við kjördæmi, segir: „A. m. k. 8 þingsætum skal ráðstafa til kjördæma fyrir hverjar kosningar samkv. ákvæðum í kosningalögum.“ — Það segir ekkert um, sem mér þó skilst að eigi að vera hugsunin í þessu, að þar eigi að fara eftir því hver fólksfjöldi er að baki. Menn hafa talað — mér liggur við að segja tuðað — í þá veru, en það segir ekkert um það í þessu plaggi. Það segir um það í einhverri grg. og einhverjum fskj., en næsta þing verður ekki bundið með grg. og fskj.

Sannleikurinn er sá fyrir utan allt annað, að þessi pappír er svo illa unninn, eftir fimm ár eða hvað það er, að það er náttúrlega öllum aðstandendum til hreinnar skammar.

Ég vil taka undir mörg þau sjónarmið, sem hér hafa verið flutt af þeim sem eru hv, þm. fyrir dreifbýli, að því leytinu til að vitaskuld er um aðstöðumun að ræða að mörgu leyti og til slíks þurfa menn að taka tillit. En ef ég engu að síður tala sem þéttbýlismaður er ekki einu sinni nefndur hér sá öryggisventill sem þó átti að vera í þessu, og til hvers er þá leikurinn gerður? M. ö. o.: hér kynnu menn að vera að búa til meiri vanda en þann sem þeir þykjast vera að leysa. Þegar svona er í pottinn búið er auðvitað ekki von á góðu.

Eins, herra forseti, undirstrika ég það, sem lögfróðir menn segja mér, að það orðalag sem lagt er til hér í stjórnarskrárgrein finnst hvergi annars staðar, þá á ég við þegar segir: .,Við úthlutun þingsæta samkv. kosningaúrslitum skal gæta þess svo sem kostur er“ að heimilt sé o. s. frv. — Slíkt orðalag fyrirfinnst ekki í nokkurri stjórnarskrá nokkurs lýðræðisríkis. Í raun og veru er verið að opna til tveggja eða fleiri átta, að breiða yfir ágreining með loðnu orðalagi. Það er auðvitað þekkt í öllum samskiptum mannanna að slíkt sé gert, en það er óþekkt í stjórnarskrám að fara að með þessum hætti. Þetta er orðalag sem menn geta túlkað sem „einn maður — eitt atkvæði“ innan þeirra marka sem tölulega er gert ráð fyrir fyrir ofan og sem menn geta túlkað að jafna skuli út til hinna dreifðu byggða vegna aðstöðumunar sem sannanlega er til staðar. Að bjóða upp á slíkt orðalag í tillögum til stjórnarskrárbreytinga, og ég endurtek það, nær ekki nokkurri átt.

Ég hef, herra forseti, verið að endurtaka og um leið bæta við þær tæknilegu ábendingar sem ég hef gert við þetta frv. Ég held að það sé alveg ljóst að það yrði þessari stofnun til skammar ef hún léti frv. fara frá sér með þessum hætti. Þetta er væntanlega gert til þess að fulltrúar flokkanna, þar sem eru auðvitað skiptar skoðanir að ekki sé meira sagt, geti túlkað þetta tungum tveim eða þrem, eftir því hvar þeir eru staddir á landinu, í þeim kosningum sem menn halda að þeir séu að leggja út í. Þéttbýlismennirnir geta sagt: Það er verið að jafna inn á þéttbýlið hér á suðvesturhorninu og Eyjafjarðarsvæðinu kannske. Aðrir geta sagt: Þessir 8 verða fluttir inn til okkar. Svo ætla menn að hafa óbundnar hendur þegar sest er niður að kosningum loknum. Þetta er náttúrlega svo ódýr leið, sem hér er verið að fara, að það verður með öllum aðferðum; sem réttar leikreglur gera ráð fyrir, að koma í veg fyrir að hv. Alþingi afgreiði þetta með þessum hætti.

Ég vil svo, herra forseti, vegna orða sem féllu hjá hv. 9. þm. Reykv. hér í kvöld vegna þeirra tillagna, sem ég hef mælt fyrir og menn þekkja og aths. sem fram koma, aðeins skýra betur og undirstrika. Við höfum lagt til að kosningarréttur verði jafnaður að hálfu, verði jafnaður framkvæmdavaldsmegin, að framkvæmdavald, ríkisstj., forsrh., ríkisstjóri eða hvað menn kjósa að kalla það, sá helmingur þessa valds, verði kosið kosningu þar sem Landið sé eitt kjördæmi og þar sem sérhver kosningabær Íslendingur hafi eitt og jafnt atkv. Við höfum sagt að að þessu gerðu og að því gerðu að skilið sé á milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds, — sjóðavaldið þar með tekið af þinginu, en því fengið eftirlitsvald í staðinn, — þá sé í þágu hinna dreifðari byggða réttlætanlegt að hafa kjördæmaskipan óbreytta með því innbyggða ójafnvægi sem nú er þar að finna. Þetta eru í sjálfu sér einfaldar tillögur.

Þá segir hv. þm. og aðrir gagnrýnendur hafa sagt: Hér er verið að bjóða upp á stríð milli dreifbýlis og þéttbýlis, vegna þess að ef ríkisstj. er kosin með einu og jöfnu atkv. hvers atkvæðisbærs manns, en löggjafarvaldið hins vegar með ójöfnu atkv., er kosið með ólíkum hætti og þá lendir í pólitískri styrjöld, t. d. um fjárlög eða hvað annað, á milli þessara tveggja sumpart ólíku sjónarmiða. Frakkar, sem leystu þessi mál með þeim hætti sem við í Bandalagi jafnaðarmanna höfum lagt til, svöruðu þessu með því að setja í sína stjórnarskrá ákvæði um að ef til slíks ágreinings eða missættis kæmi á milli framkvæmdavalds annars vegar og löggjafarvalds hins vegar væri hvorum aðilanum um sig, löggjafarvaldinu eins og það er í dag, en þess utan framkvæmdavaldinu, heimilt að beita þjóðaratkvæði.

Reynslan í Frakklandi segir okkur: Þessu hefur í raun og veru aðeins einu sinni verið beitt þó að atkvgr. hafi tvisvar farið fram, því að í annað skiptið var raunverulega um það að ræða að sitjandi forseti varð að biðja um traust, sem hann hlaut ekki, og sagði raunar af sér embætti 1969. En það er ekki kjarni málsins, heldur er hitt kjarni málsins, að þegar þetta pólitíska vopn er til staðar forðast menn að til slíks komi og menn mætast á miðri leið. Svarið er einfaldlega það, að menn verða að hafa þá trú á þm. og framkvæmdavaldi framtíðar að slík ágreiningsmál, sem auðvitað kunna upp að koma, t. d. um gerð fjárlaga eða hvað annað, séu leyst og menn mætist.

Vitaskuld er rétt að að þessu leytinu til er slíkt fyrirkomulag í þágu dreifbýlis, en engu að síður er það takmark í sjálfu sér að byggð sé haldið uppi í landinu og engin ástæða er til að ætla að okkar reynsla verði öðruvísi en sú í Frakklandi og menn mætist á miðri leið frekar en að efna til styrjaldar sem í þjóðaratkvæði endar, en komi til slíks er slíkt tæki til staðar. Þetta er franska útfærslan — útfærsla í þeirri stjórnarskrá á vandamáli sem tæknilega og fræðilega talað getur upp komið. En reynslan þar segir: Vegna þess að þessi pólitíska aðferð er til staðar kemur ekki til vandræða, enda má áreiðanlega treysta því að við slíkar aðstæður hverfur þessi gamli og heiftúðugi skilningur okkar á því að hluti þm. sé í stjórn og hluti þm. sé í stjórnarandstöðu. Svo eru menn að hegða sér samkvæmt því og auðvitað langt út fyrir það sem samviska þeirra raunverulega býður þeim. Þetta er gamall kreppuskilningur, sem þarf að eyða að hluta vegna þess að nú er 1983, en ekki 1933, og við stefnum fram, en ekki aftur. Þetta, herra forseti, hygg ég að séu ekki rök gegn þessum hugmyndum, sem máli skipta.

Einnig má bæta því við, að ég fullyrði að talsmenn þessara hugmynda og aðstandendur Bandalags jafnaðarmanna, þó að þm. sé að sinni ekki nema einn, eru einu stjórnmálasamtökin í landinu, a. m. k. sem fulltrúa hafa á Alþingi, sem tala sama tungumáli í stjórnarskrár- og kjördæmamálum suður í Keflavík og norður á Húsavík, á Ísafirði og Höfn f Hornafirði. Ég fullyrði að flokkarnir fjórir eru allir því markinu brenndir að þeir tala tungum tveim í þessu máli. Þetta er auðvitað lýsing á hrynjandi og deyjandi flokkakerfi og aldeilis allt í lagi með það. Að vísu halda þessir ríkiseinokuðu fjölmiðlar og niðurgreiddu dagblöð uppi þeirri mynd að hér fari heldur heillegt kerfi. En sannleikurinn er auðvitað allur annar. Flokkakerfið gamla er þverklofið að því er þetta varðar.

Hv. þm. Jóhann Einvarðsson talar allt annað tungumál suður í Garði en hinn talar austur á fjörðum og það gildir um það allt saman. En við erum að leggja til eitt og jafnt atkv. framkvæmdavaldsmegin, ójafnt atkvæði — og það skal nefna það réttum orðum — löggjafarvaldsmegin, og við þurfum ekki að tala tungum tveimur að því er þetta varðar. En það, herra forseti, er útúrdúr.

Í dag lýsti ég nákvæmlega þeim brtt. eða hluta af þeim sem við komum til með að flytja við þetta frv. Nú er mér ekki alveg ljóst hver tímasetningin verður og hvenær ætlað er að þetta frv. verði lagt fram til 2. umr. En við þá hv. þm. sem í þessa nefnd veljast, sem um þetta mál á að fjalla, — og ég hef að vísu enn ekki hugmynd um hverjir verða, en einhverjir spekingar úr fjórflokkakerfinu verða það væntanlega, — vil ég samt segja að textinn eins og hann stendur í þessu frv. er ónýtur.

Ég vakti á því athygli í dag og geri enn, að í síðustu mgr. 1. gr. er þessa setningu að finna, og með leyfi forseta vitna ég:

„Er þá heimilt að úthluta allt að fjórðungi þingsæta hvers kjördæmis, samkv. a- og b-lið 2. mgr. þessarar greinar, með hliðsjón af kosningaúrslitum á landinu öllu.“

Herra forseti. Eins og hún stendur stenst ekki þessi setning sé litið á „allt að fjórðungi þm.“ T. d. er gert ráð fyrir í greininni að þm. Reykvíkinga verði 14. Ef á að bæta við allt að fjórðungi eru það ekki nema þrír þm. Þá eru þm. ekki nema 17. Hér er stjórnarskrárgrein sem á að taka mið af drögum af lagafrv. sem er í fskj. M. ö. o.: það er njörvuð inn í stjórnarskrá viðmiðun við niðurstöðu í lagafrv. sem er að finna í drögum að frv. sem flutt er sem fskj. og gert er ráð fyrir að verði samþykkt á næsta þingi. Samkv. því verða þeir 18 og þá er fjórðungurinn orðinn 4. Þetta eru forkastanleg vinnubrögð.

Menn verða að taka hlutina í réttri röð. Ef menn eru að tala um 18 þm. fyrir Reykjavík skulu menn halda sig við töluna 18 og reikna svo út frá því. Mér dettur í hug að vera kunni að einhver sé öðrum klókari í þessari nefnd og það sé verið að plata með einum eða öðrum hætti. En eins og þetta stendur þarna verða þm. ekki 18. Svo er ekki samkv. venjulegum skilningi á mannamáli. Það er málið.

Mér sýnist að allur þessi texti sé meira og minna þessu markinu brenndur fyrir utan annað sem ég hef bent á og ég bendi á. Ég hef satt að segja verið að spyrjast fyrir um hverjir séu hinir lagalegu ráðgjafar um samningu þessa máls.

Þá vek ég enn athygli á því, að menn hafa sagt, að vísu stendur það ekki hér, um ákvæði til bráðabirgða um tímasetningu kosninga, og fjölmiðlarnir túlka sem þetta þing geti ráðið því hvort það verða einar eða tvennar kosningar, þegar það er ekki þetta þing, heldur næsta þing, sem fólkið í landinu á eftir að kjósa. Kannske vildi fólkið í landinu t. d. kjósa þá þm. sem vilja einar kosningar og ekki hina sem vilja tvennar. Og um hvað er þá verið að tala? Mér sýnist svo margt af þessu vera þessu markinu brennt.

Herra forseti. Mér er ekki nákvæmlega ljóst, eins og ég hef sagt, hver framvinda þessa máls hefur orðið. En það er ekki nóg með að niðurstaðan sé lítil, heldur er hitt kjarni málsins, að forustumenn fjórflokkanna, með hjálp hinna ríkiseinokuðu fjölmiðla annars vegar og hinna niðurgreiddu dagblaða hins vegar, eru að halda skröksögum að fólkinu í landinu um hvað raunverulega stendur í þessu plaggi. Í þessu plaggi er ekki neitt annað en fjölgunin um þrjá. Hitt er allt óuppgert og það verður þingið, sem kosið verður kannske 23. apríl, sem á eftir að segja um það. Meira að segja er ekkert um að þessir 8, sem bætast við hina 54, eigi að koma fram á hin fjölmennari kjördæmi skulum við segja. Það er ekkert um það í þessum efnum. Til hvers er þá verið að þessu? Hvað er verið að gera?

Ég held að þessir menn ættu að fá sér betri lagalega ráðgjafa og vanda sig betur næst og áður en þeir ná samkomulagi, því að að þessu sinni hefur ekki vel tekist til. Og sé það svo, herra forseti, að þeir séu raunverulega að sýna að þrátt fyrir allt sé þetta gamla flokkakerfi einhvers megnugt hefur hroðalega tekist til. Þá hefur sú sýning, að ég hygg, misheppnast með öllu. Það er mín sannfæring og mín spá stendur til þess, að það eigi kyrfilega eftir að koma í ljós á næstunni, þegar allur almenningur sér fram hjá Morgunblaðinu og Þjóðviljanum og ríkisfjölmiðlunum og fari að sjá þetta frv. eins og það stendur allt of bert, og fólk muni spyrja: Nú, er þetta allt og sumt? Og svarið. herra forseti, getur ekki verið annað en það: Já, þetta er allt og sumt.