28.02.1983
Neðri deild: 46. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2351 í B-deild Alþingistíðinda. (2077)

206. mál, stjórnarskipunarlög

Jóhann Einvarðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mikið þessa umr., enda er þegar áliðið nætur. En ég hef leyft mér á þskj. 409 að flytja brtt. við þetta frv., sem hérna liggur frammi, og mér þykir rétt að fylgja henni úr hlaði með örfáum orðum.

Um frv, sjálft í heild skal ég ekki fara mörgum orðum. Eins og komið hefur fram í orðum fyrri ræðumanna er það til þess að gera einfalt í sniðum og út af fyrir sig kannske ekki ástæða til að eyða mörgum orðum um þau fskj. sem fylgja frv. að öðru leyti en þeim ákvörðunum sem teknar eru í 1. gr. um fjölgun þm. og hvernig meiri hluti þeirra skuli skiptast á milli kjördæma. Ég vil taka það strax fram að ég mun fylgja þessum ákvæðum, enda tel ég að hér sé um vissa málamiðlun á milli þéttbýlis og dreifbýlis að ræða, og ætla síðan ekki að fara að karpa hér úr þessum ræðustóli, a. m. k. ekki að þessu sinni, við aðra þá ræðumenn sem hér hafa talað fyrr í kvöld og mælt gegn þessum breytingum.

En þar sem fleiri breytingar eru teknar inn í frv. heldur en einungis breytingar vegna kosninganna, nauðsynlegar breytingar vegna væntanlegra kosningalaga, m. a. breytingin um að lækka kosningaaldurinn í 18 ár, svo að eitthvað sé nefnt, þá tel ég ástæðu til þess að flytja við frv. þessa brtt. Vil ég í því sambandi aðeins vitna til ákvæða í stjórnarskránni eins og hún er núna varðandi breytingar á stjórnarskránni. Í núv. stjórnarskrá segir í 81. gr., með leyfi herra forseta:

„Stjórnskipunarlög þessi öðlast gildi þegar Alþingi gerir um það ályktun, enda hafi meiri hluti allra kosningarbærra manna í landinu með leynilegri atkvgr. samþykkt þau.“

Þetta hefur í sjálfu sér verið túlkað á þann veg, að við næstu alþingiskosningar séu þessar tillögur til stjórnlagabreytingar einnig til vals hjá kjósendum. Ég vil meina að það hafi í raun ekki verið þannig, heldur hafi kosningarnar fyrst og fremst snúist um flokkana eða um stefnumál flokka og frambjóðendur og þetta hafi í raun verið fylgiefni í þeim kosningum. Í þeim umr. sem fram fara í þjóðfélaginu í dag hefur oft verið um það talað að við þm. höldum málum hér innan nefnda, innan deildarinnar og leyfum ekki hinum almenna borgara að hafa nein áhrif á hvað við erum að gera. Þetta kemur skýrt fram m. a. í frv. því að nýrri stjórnarskrá eða tillögum, sem stjórnarskrárnefndin hefur samið, varðandi flestar eða allar greinar stjórnarskrárinnar. Þar er m. a. þessi till. sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 409. Hún orðast svo:

„Sé tillaga um breytingu á stjórnarskránni samþykkt á Alþingi skal fara fram um hana þjóðaratkvgr. Hljóti hún þar samþykki og sé einnig samþykkt óbreytt á Alþingi að loknum næstu kosningum skal hún staðfest af forseta og er hún þá gild stjórnarskipunarlög.“

Um þetta ákvæði er fullt samkomulag innan stjórnarskrárnefndarinnar, að því er ég best veit. Ef við reiknum með því að þessi stjórnarskrárbreyting verði samþykkt núna og síðan aftur að loknum næstu alþingiskosningum, en þá munu fram koma megintillögur frá stjórnarskrárnefndinni og þar með þetta ákvæði, þá tekur það ekki gildi fyrr en að loknum enn öðrum alþingiskosningum að við getum vísað slíkum tillögum til þjóðaratkvgr.

Í skýrslu þeirri sem stjórnarskrárnefnd afhenti þingflokkunum er svohljóðandi grein gerð fyrir þessu ákvæði:

„Lagt er hér til að nýr háttur verði hafður á við breytingar á stjórnarskránni. Eftir sem áður þarf til samþykki tveggja þinga með kosningum á milli. Ekki er hins vegar lengur skylt að rjúfa þing strax og fyrra þingið hefur samþykkt stjórnarskrárbreytinguna. Nýmæli er það einnig að nú skal fara fram sérstök þjóðaratkvgr. um stjórnarskrárbreytinguna að loknu samþykki fyrra þingsins. Ráðast því örlög breytingarinnar af vilja þjóðarinnar. Svo er hins vegar ekki í dag, þar sem þjóðaratkvgr. fer ekki fram um stjórnarskrárbreytinguna sérstaklega, heldur eiga sér einvörðungu stað almennar alþingiskosningar eftir þingrof, þar sem um margt annað er kosið en stjórnarskrárbreytinguna.“

Í sjálfu sér held ég að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um þessa till. mína. Ég tel að með samþykki hennar séum við að nálgast þá þörf sem ég held að sé í þjóðfélaginu í dag hjá þjóðinni sjálfri til þess að fá tækifæri til að tjá sig með almennri atkvgr. um málefni sem um er fjallað á Alþingi. Ef það er að mínu viti nokkurt mál sem ástæða er til að vísa til þjóðaratkvgr., þá er það breyting á stjórnarskránni.

Ég vil svo ekki lengja þetta meira að sinni, en beini því til hv. þm., ef þeir meina í rauninni eitthvað með því sem margir þeirra a. m. k. hafa látið hafa eftir sér bæði í fjölmiðlum og á fundum, um þörf þess - og skyldu reyndar til þess að nálgast vilja þjóðarinnar í málum sem hér er fjallað um, að þeir stuðli að því að þessi till. eigi greiðan gang í gegnum þingið.