01.03.1983
Neðri deild: 47. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2358 í B-deild Alþingistíðinda. (2089)

Um þingsköp

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég skal halda mig algerlega við þingsköp og hafa mál mitt stutt. Á kvöldfundi hér í þessari virðulegu deild í gærkvöld kom berlega í ljós að það er æðistór hópur þm. sem ekki er sammála því frv. sem hér hefur verið lagt fram um kjördæmabreytingar. Ég vil þess vegna taka undir orð hv. þm. Vilmundar Gylfasonar, að ég tel fyllstu ástæðu til þess að fram fari útvarpsumræður um þetta veigamikla mál sem varðar þjóðina alla. Sjálfur gaf ég þess hér í gær að ég hefði alveg frá því að viðræður formanna flokkanna hófust um kjördæmabreytingarnar lýst þeirri skoðun minni, að ekki mætti slíta úr samhengi kjördæmabreytingarnar annars vegar og stjórnarskrárbreytingarnar hins vegar, vegna þess að ég óttaðist mjög að ef það færi ekki saman mundu dragast á langinn stjórnarskrárbreytingarnar í 8, 12 eða 16 ár, guð veit hvað lengi. Ég er þess vegna sammála því að þjóðin þurfi að fá að vita um allar skoðanir sem hér hafa komið fram í þessu máli. Þess vegna styð ég hugmyndir um það að forsetar beiti sér fyrir útvarpsumr. um málið.