03.11.1982
Neðri deild: 7. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í B-deild Alþingistíðinda. (209)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Fyrir nokkru var samþykkt tillaga á þingi Alþjóðahvalveiðiráðsins um bann við hvalveiðum. Þjóðir sem hvalveiðar hafa stundað hafa mótmælt þessari samþykkt, enda eðlilegt að það sé gert því að hér koma inn í sjónarmið þjóða sem ekki taka þátt í hvalveiðum á einn eða annan veg. Út af fyrir sig er ekki óeðlilegt að menn hafi áhyggjur af veiði bæði hvala sem og annarra dýrategunda og fiska. Hins vegar verð ég að segja, að mér finnst að þessar veiðar hafi verið stundaðar hér með mikilli varfærni og undir vísindalegu eftirliti og í fyllsta máta í samræmi við skoðanir og tillögur vísindanefndar Alþjóðahvalveiðiráðsins. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. sjútvrh. að því, hvort ríkisstj. hafi tekið ákvörðun um hvort hún ætlaði að mótmæla þessari samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins eða ekki. Ef ríkisstj. hefur ekki þegar tekið afstöðu til málsins, vil ég gjarnan fá að vita það frá hæstv. sjútvrh. hver hans hugur er og hvenær fresturinn er útrunninn. Ég tel að við megum síst við því nú að missa nokkuð af þeirri atvinnu og framleiðslu, sem fyrir er í landinu, og ég vil láta í ljós þá skoðun mína, að ég er því mjög fylgjandi að þessari samþykkt sé mótmælt.