01.03.1983
Sameinað þing: 58. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2360 í B-deild Alþingistíðinda. (2094)

90. mál, fræðsla um vöruvöndun

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Þessi fsp. á þskj. 92 er lögð fram hinn 17. nóv. s. l. Það er fyrst nú hinn 1. mars að unnt reynist að fá svar við henni hér í Sþ. Ég skal að vísu viðurkenna að ég var fjarverandi síðustu viku vegna Norðurlandaráðsþings, en annars hygg ég að ég hafi verið hér viðstaddur velflesta fsp.-fundi í Sþ. Þetta er auðvitað gersamlega óviðunandi. Fsp. er lögð fram 17. nóv. Þetta er andstætt öllu sem gildir um eðli fsp. Þeim á að vera unnt að svara fljótt, sérstaklega þar sem um svo einföld mál er að ræða sem hér er.

Hins vegar hafa komið fram frá því að þessi fsp. var lögð fram, síðast í útvarpi nú fyrir stuttu, margháttaðar upplýsingar eða a. m. k. ýmsar upplýsingar um það efni sem hér er um spurt. En fsp., herra forseti, hljóðar svo:

„Hvenær hyggst ríkisstj. framkvæma þá yfirlýstu stefnu sína frá 21. ágúst s. l. að „á næstu mánuðum verði efnt til stóraukinnar fræðslu um gæði og vöruvöndun í íslenskri framleiðslu?““

Hinir næstu mánuðir, sem þarna er fjallað um, eru nú raunar þegar liðnir.