03.11.1982
Neðri deild: 7. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Eins og reyndar má segja að hafi komið fram hjá hv. fyrirspyrjanda hefur verið fylgt þeirri stefnu að leyfa hvalveiðar undir vísindalegu eftirliti og því viðhorfi hefur verið fylgt eftir í starfi okkar í Alþjóðahvalveiðiráðinu. Við höfum þar lagt áherslu á að farið verði að tillögum svonefndrar vísindanefndar ráðsins. Því miður réðu önnur sjónarmið meirihlutaafgreiðslu þar síðast. Ég vil láta kom fram mína persónulegu skoðun, að ég álit að þar hafi orðið á mikil mistök. Ég er sömu skoðunar og hv. fyrirspyrjandi: Það á að nýta hvalinn, en að sjálfsögðu á að tryggja að hvalastofninn hafi eðlilegan viðgang.

Eftir að þessi samþykkt var gerð hef ég lagt áherslu á að fylgjast vandlega með því sem aðrar hvalveiðiþjóðir hafa í huga. Við höfum sent menn á þeirra fundi. Ég átti sjálfur viðræður við sjútvrh. Noregs um þessi mál nú fyrir nokkru og hafa menn þannig reynt að samræma sín sjónarmið. Ég hef einnig kynnt mér viðhorf Bandaríkjanna, hef átt viðræður við sendiherra þeirra um þetta mál, ekki síst eftir móttöku bréfs frá viðskrn. Bandaríkjanna þar sem áhersla er lögð á að samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins verði ekki mótmælt eða verði a.m.k. fylgt.

Í þessu sambandi er um tvennt að ræða, sem við þurfum að hafa í huga: Annars vegar hugsanlegar opinberar aðgerðir í Bandaríkjunum. Þar er í lögum heimild til að takmarka innflutning frá ríkjum sem ekki hlýða samþykktum sem þessari vegna verndunar dýrastofna.

Hins vegar er af fræðimönnum talið vafasamt að sú samþykkt fái staðist, m.a. með tilvísun til samþykkta Alþjóðatollabandalagsins. GATT. Hins vegar ber einnig að hafa í huga almenningsálit og aðgerðir þrýstihópa. Ég hef þess vegna talið mér einnig skylt að hafa samband við útflytjendur íslenskra sjávarafurða til Bandaríkjanna og get upplýst að allt fram til þessa hafa þeir yfirleitt verið mjög óragir við þetta og talið það engin áhrif mundi hafa á sölu íslenskra sjávarafurða. Hins vegar hef ég því miður orðið var við mjög breytt viðhorf hjá þessum ágætu mönnum upp á síðkastið. Þarna ber þess að gæta, að íslenskur frystur fiskur er að mjög stórum hluta seldur stórum veitingahúsakeðjum eða samtökum, sem eru af mörgum talin ákaflega veik fyrir mótmælum t.d. þrýstihópa. Ég vil því lýsa þeirri skoðun minni, að ég álit að hugsanlegar aðgerðir stjórnvalda í Bandaríkjunum séu ekki hið alvarlegasta í þessu máli. Ég efast um, eftir viðtöl mín við Norðmenn og fleiri, að slíkar aðgerðir yrðu eins alvarlegar og af er látið. Ég álít að hitt sé langtum alvarlegra; aðgerðir þrýstihópa sem beint yrði gegn kaupendum á íslenskum fiski. Ég stend núna, eins og ég hef sagt, í viðræðum við þá menn sem um þessi mál fjalla.

Hins vegar hefur það nú gerst, að Norðmenn hafa mótmælt. Samkvæmt reglum Alþjóðahvalveiðiráðsins framlengist fresturinn um 3 mánuði í viðbót fyrir aðra til að mótmæla, þannig að við höfum núna þriggja mánaða frest til viðbótar. Ég hef að sjálfsögðu afhent ríkisstj. skýrslu um þessi mál, en ríkisstj. hefur ekki tekið endanlega afstöðu til þess, hvort hún mótmælir eða mótmælir ekki.

Í þessu sambandi vil ég jafnframt geta þess, að bann við notkun á köldum skutli kemur til framkvæmda á næsta ári. Þar er að sjálfsögðu á hrefnuveiðarnar að líta, sem eru mikilvægar fyrir ýmsa staði í kringum landið. Svo virðist sem notkun á köldum skutli hafi reist enn víðtækari mótmælaöldu í fjölmörgum löndum, eins og t.d. í Bandaríkjunum. Það kann vel að vera að áframhaldandi notkun á slíkum skutli sé ekki síður varasöm fyrir útflutning okkar, ef gripið er til mótmæla. Þó er það álit flestra, að slíkra mótmæla muni ekki gæta verulega fyrr en heildarbann við hvalveiðum kemur til framkvæmda 1986. Ég vil einnig geta þess, að við höfum fylgst með því eins og við höfum getað hvað aðrar þjóðir eru að gera á þessu sviði. Bæði Japanir og Norðmenn eru með víðtækar tilraunir með notkun á nýjum tækjum, bæði sprengiskutli og sérstakri byssu, í stað þess kalda skutuls sem nú er notaður, en þó er talið vafasamt að þau tæki verði nothæf á næstu vertíð. Þarna er því um annað stórt vandamál að ræða.

En reyndar er svarið við spurningu hv. þm. einfalt: Ríkisstj. hefur ekki tekið endanlega afstöðu. Það er mjög vandlega fylgst með þessum málum og rætt við hagsmunaaðila, en við höfum enn þá þriggja mánaða frest.