01.03.1983
Sameinað þing: 59. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2364 í B-deild Alþingistíðinda. (2107)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég harma að hæstv. samgrh. skuli ekki hafa séð sér fært að taka þátt í umr., svara fsp. og gera grein fyrir óheiðarlegum og skammarlegum ummælum sem hann lætur sem ráðamaður þjóðarinnar hafa eftir sér í dagblöðum um þetta mál, sem snertir ráðningu flugmálayfirvalda í stöðu flugmálastjóra. Ég er þm. Reykv. Ég er kjörinn af Alþingi í flugráð. Ummæli um slík vinnubrögð, sem hann lætur hafa eftir sér, eiga sem fyrst að koma á dagskrá á þessum fundi þrátt fyrir að einn ráðh. eigi afmæli og afmælisveislan standi allan daginn.

En þessi ummæli, sem ég vil að komi hér þó fram, eru svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Mér finnst ákaflega einkennilegt hvernig staðið er að málum í flugráði. Einn ráðsmaður skrifar upp tillöguna fyrir hönd ráðsins og lætur síðan hina skrifa undir fyrir fundinn. Þeir höfðu ekki einu sinni fyrir því að skoða umsóknir og ræða þær á fundinum. Ég er alls ekki ánægður með afgreiðslu af þessu tagi. Mátið er reyndar afgreitt fyrir fram, sem er ákaflega einkennilegt.“

Ég vil mótmæla þessum ummælum ráðh. sem ódrengilegum og óheiðarlegum. Og ég vil benda á að ráðh. hefur ekki sagt sig úr flugráði. Hann er enn þá aðalmaður í flugráði. Honum er þá eins gott að mæta í flugráði því að laun tekur hann, eftir því sem ég best veit, frá því að hann varð ráðh. og fram til dagsins í dag.