01.03.1983
Sameinað þing: 59. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2366 í B-deild Alþingistíðinda. (2110)

Umræður utan dagskrár

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af þessum umr.

Ég vil greina frá því, þar sem talað er um afmælisveislu Ólafs Jóhannessonar, að samþykkt var sú till. í ríkisstj. fyrir forgöngu hæstv. forsrh. að ráðherrar færu og heimsæktu Ólaf Jóhannesson núna kl. 3 á þessum afmælisdegi hans, og held ég að naumast geti talist óeðlilegt að svo sé að staðið. Og ég ætla að leyfa mér að víkja núna úr þingsalnum og fara í þennan hóp og dveljast þar nokkra stund, eins og til hefur staðið.

Efnislegar umr. um þetta koma auðvitað ekki til greina, eins og hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði hér áðan, að fjarstöddum samgrh. Ég tel satt að segja að það sé óþörf ásökun á hendur þeim ágæta ráðh. að hann hafi ekki kjark til að standa fyrir máli sínu í Alþingi eða hvar sem vera skal. Ég hugsa að hann skorti margt annað en hugrekki. Alla skortir okkur eitthvað, en ég held að hæstv. samgrh. skorti ekki hugrekki til að standa fyrir máli sínu.

Úr því að þessar umr. hafi nú farið fram hér og úr því að ég var áheyrandi að þeim og úr því að ég er á leiðinni þar í hóp sem hæstv. samgrh. er staddur skal ég bera honum þau boð að návistar hans sé sérstaklega óskað, og ég skal kanna hver viðbrögð hans verða, en að sjálfsögðu er þetta mál allt hans eigið mál, og ég sé enga sérstaka ástæðu til að fara efnislega út í það.