01.03.1983
Sameinað þing: 59. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2366 í B-deild Alþingistíðinda. (2112)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir að staðfesta það, sem ég sagði hér áðan, að það væri fyrirsláttur að afmæli Ólafs Jóhannessonar kæmi í veg fyrir að hæstv. samgrh. gæti tekið hér til umr. veitingu sína á embætti flugmálastjóra. Ég sagði það áðan að ég ætti bágt með að trúa því að þátttaka samgrh. í afmælinu væri svo fyrirferðarmikill verknaður að hann kæmi í veg fyrir þingstörf hans hér síðdegis. Nú hefur hæstv. menntmrh. staðfest að þetta var rétt hjá mér, því að hann hefur upplýst hér að það hafi verið samþykkt í ríkisstj. að ráðherrar færu í stutta heimsókn til utanrrh. Ennfremur upplýsti hæstv. menntmrh. að hann væri reiðubúinn að fara til hæstv. samgrh. og greina honum frá því að nærveru hans væri óskað hér, menn vildu fá að taka þetta mál upp hér og nú. Þessi viðbrögð hæstv. menntmrh. sanna það, sem ég sagði hér áðan, að það var fyllilega gerlegt, þótt hæstv. samgrh. færi í hálftíma eða klukkutíma eða svo til að óska fyrrv. formanni Framsfl. til hamingju með afmælið, en hann er alls góðs maklegur, þrátt fyrir það hefði það verið fullkomlega gerlegt á vinnutíma þingsins, annaðhvort fyrir þessa heimsókn eða eftir þessa heimsókn, að taka hér til umr. embættaveitingu hæstv. samgrh. En að neita umr. algerlega í dag, gersamlega og fullkomlega neita henni í dag, vegna þess að forsrh. hefði samþykkt að ráðh. færu í stutta heimsókn til utanrrh. er eingöngu fyrirsláttur, augljós fyrirsláttur. Það er verið að skjóta sér á bak við þetta afmæli til að reyna að tefja það að þingið og þjóðin geti tekið þetta mál til umr. og til þess að reyna að tryggja að málið dragist dag eftir dag í þeirri von að tíminn vinni með ráðh. og þjóðin gleymi þessum verknaði.

Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir að hafa staðfest mál mitt hér með þeim hætti sem hann gerði og legg til að hæstv. forseti taki nú tilboði hæstv. menntmrh., sem bauðst til þess að fara til hæstv. samgrh. og flytja honum þau boð að þingið óskaði eftir nærveru hans.