01.03.1983
Sameinað þing: 59. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2376 í B-deild Alþingistíðinda. (2125)

Um þingsköp

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hv. þm. Vilmundur Gylfason sagði að það hefði ekki verið sókn í minni ræðu. Ég skal ekki deila við hann um það, en í sinni síðustu ræðu játaði hann sína sök. Það er aðalatriði þessa máls.

Hv. þm. Vilmundur Gylfason hefur nú játað að það sé óeðlilegt að hann sitji í þessari nefnd. Hann hafi ekki til þess siðferðilegan rétt. Hann hefur vegna þessarar umr., sem hér hefur orðið í dag, verið til þess knúinn að haga sér eins og siðuðum manni sæmir. Það er vissulega árangur fyrir þingræðið og fyrir siðgæðið í þessari stofnun að það skuli takast hér í um það bil þriggja kortéra umr. að siðvæða hv. þm. Vilmund Gylfason. Maðurinn, sem í upphafi umr. stóð hér og belgdi sig út í ræðustólnum og sagðist hvergi víkja úr þessum nefndum, hann ætti til þess allan rétt, lagalegan og siðferðislegan rétt að sitja þar, lét sannfærast í umr. játaði á sig sekt sína. Sá að hann gat ekki haldið þessu siðleysi uppi og sagði af sér. Ég held að það séu fá dæmi um það að umr. um þingsköp á Alþingi, sem ég hóf hér fyrir þremur kortérum síðan, beri jafnskjótan og góðan árangur.