01.03.1983
Sameinað þing: 59. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2377 í B-deild Alþingistíðinda. (2127)

Um þingsköp

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Að minni hyggju er þessi umr. lágkúrulegri en maður á hér að venjast og á maður þó ýmsu að venjast. (AS: Innlegg í virðingu Alþingis.) Innlegg í virðingu Alþingis, ég tek undir það með hv. þm. Alexander Stefánssyni. En það er ekki málið, heldur er málið það, herra forseti, að ég vil ekki láta þessari umr. svo lokið, að derringi hv. 11. þm. Reykv. séu ekki gerð þau skil sem verðug eru.

Ég hef sagt mig úr þessum tveimur nefndum. Það kemur hans málflutningi nákvæmlega ekkert við og það er ekki kjarni málsins, heldur hitt, að ég hef staðið í þeirri meiningu að það væri verklag á milli sjálfs mín og minna fyrri flokksfélaga að niðurstöður þeirra kosninga sem hér fóru fram um miðjan okt. héldu þangað til næst verður kosið.

Með ræðu sinni upplýsti hv. 5. þm. Vesturl., sem er fyrrum flokksbróðir minn þangað til um miðjan nóv. s. l., að svo væri ekki. Það er í fyrsta skipti sem ég heyri slíkt. Ég hef aldrei verið inntur einna eða annarra erinda að því er þetta mál varðar fyrr en núna. Ég hef aldrei heyrt slíkar aths. frá þeim sem tilnefndu mig til þeirra trúnaðarstarfa fyrr en núna. Og það gefur auga leið að þá er ég í fyrsta sinni heyri aths. frá fyrrum flokksbróður í þessa veru, að hér hafi verið framið ósæmilegt athæfi, á þeirri sömu mínútu segi ég þessum störfum af mér. Ekki af því að mér sé það skylt, því að það er ekki málið, heldur af hinu að ég tel það eðlilegt að með þeim hætti sé við þessu brugðist.

Ég vil, herra forseti, rækilega undirstrika að uppákoma hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar kemur niðurstöðu þessa máls ekkert við, heldur hitt, að þegar þeir sem tóku þátt í þessu vali í upphafi þings, þegar þeir hið fyrsta sinni gera aths. þar við, þá er sjálfsagt að niðurstaðan sé þessi. Það er af þeirri ástæðu og þeirri ástæðu einni.

Það er staðreynd að hv. þm. Eiður Guðnason fór aðrar leiðir í þessari umr. en hv. þm. Árni Gunnarsson. Það er nú víst ekki í fyrsta sinni sem þeir fara nokkuð til tveggja átta. En hvað sem því líður voru þau orð sögð að það væri gagnrýni vert, ósæmilegt að ég sæti þarna vegna þess hver aðdragandinn hefði verið. Og þegar þau orð eru sögð af þeim sem til þeirrar nefndar kusu, þá er það eðlileg niðurstaða að um setu í þessum nefndum sé ekki lengur að ræða. Að öðru leyti sé ég ekki annað en hv. þm. hafi þó orðið til þess að fá hluti upp á yfirborð, sem augljóslega hafa kraumað undir án þess að mér væri um það kunnugt, og fyrir það hlýt ég auðvitað að þakka. Þetta er út af fyrir sig eðlileg niðurstaða. Gegn vilja þeirra sem til þessa kusu mig hef ég hvorki ástæðu né löngun eða döngun til að sitja í nefndum að störfum. Út af fyrir sig get ekki verið annað en þakklátur fyrir þessa niðurstöðu úr því að málin eru svona í pottinn búin, sem ég hins vegar sannast sagna vissi ekki um fyrr en nú. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, ég þakka fyrir mig að þetta skuli vera orðið lýðum ljóst. (ÓRG: Þetta er nú bara fyrsta kennslustundin. )