02.03.1983
Efri deild: 53. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2387 í B-deild Alþingistíðinda. (2136)

164. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Félmn. hefur tekið þetta frv. til meðferðar og mælir með samþykkt þess. Stefán Guðmundsson var fjarverandi afgreiðslu málsins.

Frv. kveður svo á að þegar ákveðið hefur verið að sameina tvö eða fleiri sveitarfélög geti félmrh. ákveðið að tala sýslunefndarmanna verði sú sama og var fyrir sameininguna, enda óski fráfarandi hreppsnefndir eftir því að svo verði. Frv. gerir ráð fyrir því að þetta efni verði fært í lög um sveitarstjórnir nr. 58/1961.

Þessi lagabreyting er m. a. gerð vegna eindreginna óska sveitarstjórna Dyrhólahrepps og Hvammshrepps í Vestur-Skaftafellssýslu, en samþykkt var við almenna atkvgr., svo sem kunnugt er og fram fór hinn 14. nóv. s. l. í Dyrhóla- og Hvammshreppum, að þessir hreppar yrðu sameinaðir í einn hrepp.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. Félmn. mælir með að það verði samþykkt, eins og ég áður hef sagt.