02.03.1983
Efri deild: 53. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2390 í B-deild Alþingistíðinda. (2143)

218. mál, vegalög

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Í þessu sambandi tel ég rétt að vekja athygli á einni hlið þessara mála sem sérstaklega varðar Reykjaneskjördæmi. Mér virðist ljóst að eitt erfiðasta verkefni í vegamálum í Reykjaneskjördæmi á næstkomandi árum muni í rauninni ekki vera í kjördæminu sjálfu heldur í Reykjavík. Sannleikurinn er sá, að það er þegar farið að bera á því að alvarlegir umferðarhnútar verða þar sem samgönguleiðir koma úr Reykjaneskjördæmi inn í Reykjavíkurborg. Ég verð sjálfur var við það á hverjum morgni á áttunda tímanum að umferðin kemst ekki með greiðu móti af Kringlumýrarbrautinni eða Hafnarfjarðarveginum og inn í Reykjavíkurborg. Það sem á skortir er að samgöngumannvirki í Reykjavíkurborg sjálfri geti tekið við þeirri umferð sem kemur til Reykjavíkur frá nágrannabyggðarlögunum. Sama er uppi á teningnum að því er varðar umferðina af Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi inn í Reykjavík. M. ö. o., það viðfangsefni sem þm. Reyknesinga og íbúar í Reykjaneskjördæmi hafa fyrir augunum að vera muni mesta hagræði þeirra í samgöngumálum á komandi árum reynist vera innan Reykjavíkurkjördæmis, þ. e. samgöngumannvirki til að taka við þeirri umferð sem kemur úr nágrannabyggðarlögunum til Reykjavíkur. (StJ: Þurfa Reyknesingar að flýta sér til Reykjavíkur kl. hálfátta að morgni?) Ég geri ráð fyrir að þm. hafi hugmynd um það. Auk þess stunda ýmsir Reykvíkingar náttúrlega atvinnu í Reykjaneskjördæmi þannig að þessi umferð er í báðar áttir. En ég tel ástæðu til að vekja athygli á þessu og tel það íhugunarefni hvort ekki sé rétt að ætla Reykjavíkurborg, Reykjavíkurkjördæmi í rauninni ákveðið fé til uppbyggingar í vegamálum eins og þetta viðfangsefni snýr við.

Ég held að ég þurfi ekki, herra forseti, að hafa öllu fleiri orð um þetta. Þetta liggur nokkuð ljóst fyrir. En þetta er stórmál vegna þess að þau samgöngumannvirki sem hér um ræðir munu vera æði kostnaðarsöm. Og það er náttúrlega alveg sama hversu góðar umferðarleiðir verða lagðar að Reykjavíkurborg ef ekki eru fyrir hendi góð samgöngumannvirki til þess að taka við þeirri umferð sem hér um ræðir. Hér er vitaskuld um að ræða samgöngumannvirki af því tagi, að á gatnamótum sé hægar aðskilin umferð, og allir vita að þetta kostar verulega fjármuni.

Ég vildi koma þessu sérstaklega á framfæri í þessu sambandi, herra forseti, vegna þess að skoðun mín er sú, að þetta sé eitt af stærstu verkefnunum sem fram undan eru í samgöngumálum yfirleitt, og þá alveg sérstaklega á þessu svæði.