02.03.1983
Efri deild: 53. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2391 í B-deild Alþingistíðinda. (2144)

218. mál, vegalög

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Ég vil aðeins staðfesta það sem fram kom hér í ræðu hv. 2. þm. Reykn. Þetta er stórt vandamál sem við stöndum frammi fyrir og þm. kjördæmisins hafa oft rætt sameiginlega á sínum fundum þegar verið er að ræða um vegamálin. Vegna innskots, sem kom frá hv. 4. þm. Norðurl. e., langar mig að geta þess jafnframt, að það er ekki bara að við Reyknesingar förum til Reykjavíkur, heldur er það ekki síður að Reykvíkingar fari til okkar Reyknesinga á hverjum einasta morgni til vinnu í byggðarlögin hér í kring. Ég held að allir geri sér ljóst að þetta svæði hér í kringum höfuðborgina, og jafnvel þó lengra sé litið, alveg út á Suðurnes, er og verður í framtíðinni eitt atvinnusvæði, enda eru samgöngumálin meðal þeirra skipulagsmála sem verið er að fjalla um um þessar mundir, þ. e. að almennar samgöngur á þessu svæði þurfi að vera skipulagðar sem ein heild. Ég vildi þess vegna aðeins staðfesta það sem kom fram hér í máli hv. 2. þm. Reykn.