03.11.1982
Neðri deild: 7. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

28. mál, málefni aldraðra

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Hæstv. heilbr.- og trmrh. talaði hér síðast þegar þetta mál var til umr. og sé ég ástæðu til þess að gera sérstaklega aths. við a.m.k. einn þátt í ræðu hans. Ég tel að hæstv. ráðh. hafi farið vísvitandi með ósannindi í þeirri ræðu.

Hæstv. ráðh. sagði, að það hefði aðeins ein aths. borist frá fjvn. varðandi tillögur stjórnar þess sjóðs sem hér um ræðir. Þetta er alrangt og ég hygg að hæstv. heilbr.- og trmrh. viti betur en þessi fullyrðing gefur til kynna. Hv. þm. Alexander Stefánsson, sem á sæti í fjvn., gerði formlega og skriflega aths. við þessar úthlutunarreglur stjórnar sjóðsins og einnig, að því er virtist vera, við fyrirhugaðar ákvarðanir hæstv. ráðh. Ég sendi á sama hátt formlega aths. til stjórnar sjóðsins. Það er því alrangt h já hæstv. ráðh. þegar hann heldur því fram í ræðu að aðeins ein aths. hafi borist frá fjvn.-mönnum. Hitt er svo annað mál, að þetta mál barst með þeim hætti til fjvn. að lítil sem engin voru á því fyrir n. sem heild að gera sínar aths.

Aðeins í viðbót við þessa leiðréttingu. Hæstv. ráðh., sagði að ég hefði verið með aðdróttanir í sinn garð. Ég hef lýst því yfir að ég telji að þær tillögur sem gerðar voru af hálfu sjóðsstjórnar og síðan undirritaðar af hæstv. ráðh., sem voru þess eðlis að gera tillögur til 5 ára og taka ekki tillit til a.m.k. tveggja kjördæma í þeim efnum, hafi verið nánast sagt vítaverðar og ég ítreka það. Það er mitt sjónarmið, að fyrirgreiðsla úr þessum sjóði eigi að ná til allra sem eru að byggja upp aðstöðu sem lögin um sjóðinn taka til.

Hæstv. ráðh. sagði, að með þessum aths. okkar þm. úr Vestfjarðakjördæmi væri nánast verið að leggja til að eyðileggja sjóðinn, þ.e. ef allir landsmenn ættu rétt á að fá fyrirgreiðslu til framkvæmda sem þó er í lögum að sjóðurinn eigi að styrkja. Með því væri verið að gera tillögu um að eyðileggja sjóðinn. Ég vísa þessu algerlega á bug og vil í áframhaldi af því spyrja hæstv. ráðh., hvort það sé hans hugsun — og ég vænti þess að hann svari því hér í umr. — að gera slíkar tillögur til 5 ára áfram og skilja ákveðin kjördæmi gersamlega eftir og leggja þau til hliðar. (Gripið fram í.) Væntanlega, en vill ekki hæstv. ráðh. segja þinginu til um hvaða hugmyndir hann hefur um tillögur að því er þetta stórmál varðar? (Félmrh.: Ég hef þegar gert það, hv. þm.) Hæstv. ráðh. gerði það ekki, það ég best veit. Hafi hann gert það áður veit ég að hann telur ekki eftir sér að ganga hér í stól og segja það einu sinni enn. (Félmrh.: Ég geri það að vísu.) Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir. Hann hefur þá tekið það til greina og þess má vænta af hans svari.

Ég skal ekki, herra forseti, fara um þetta fleiri orðum. Ég hef nú talað í þriðja skipið í málinu og veit að forseti vill gjarnan að ég stytti mál mitt. En ég taldi nauðsynlegt að koma því sérstaklega hér á framfæri að fullyrðing hæstv. heilbr.- og trmrh. um aðeins eina aths. frá fjvn.mönnum er alröng.