02.03.1983
Efri deild: 53. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2398 í B-deild Alþingistíðinda. (2157)

30. mál, heilbrigðisþjónusta

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. hefur haft til umfjöllunar frv. til l. um breytingu á heilbrigðisþjónustunni. Eins og kunnugt er var þessu frv. vísað til nefndar í þessari hv. deild á liðnum haustdögum. Nefndin hefur því haft nokkuð langan tíma til að fjalla um málið og ekki nema eðlilegt að hún gæfi sér rúman tíma til þess. Eins og venja er og almennt verklag og eins og nál. ber með sér sendi nefndin frv. fjölda aðila til umsagnar. Að vísu bárust ekki umsagnir frá öllum þeim aðilum, hygg ég, sem frv. var sent til, en fjölmargar umsagnir bárust. Reynt var eftir því sem tök voru á að taka tillit til þessara umsagna. Eins og fram kemur er þetta samkomulagsmál.

Herra forseti. Ekki síst vegna þess að óralangt er síðan mælt var fyrir þessu frv. og e. t. v. ekki öllum hv. dm. í fersku minni um hvað það fjallar tel ég rétt að fara fáum orðum um meginefni þess eins og það var lagt fram. Frv. var upphaflega samið af starfshópi sem í áttu sæti fulltrúar þingflokkanna. Í þessum starfshópi sat einnig landlæknir og fulltrúi frá rn.

Í frv. eru auk ýmissa leiðréttinga á fyrri lögum gerðar tillögur um nokkuð veigamiklar breytingar. Tel ég rétt að fara aðeins yfir þær. Hugtakið heilbrigðisþjónusta er rýmkað þannig að því er einnig ætlað að ná yfir tannlækningar og sjúkraflutninga. Það helst í hendur við þær breytingar sem lagðar eru til varðandi starfsemi heilsugæslustöðva og að þessum þáttum verði sinnt frá heilsugæslustöðvunum í framtíðinni.

Gerð er tillaga um stofnun sérstakrar nefndar til að sinna kvörtunum og kærum er varða samskipti almennings og heilbrigðisþjónustunnar. Landlæknir, sem samkv. gildandi lögum fer með slíkar kvartanir og kærur, hefur á undanförnum árum ítrekað óskað eftir því að einhvers konar ráðgjafarnefnd verði skipuð á þessu sviði honum til aðstoðar.

Í stað Heilbrigðisráðs Íslands er gert ráð fyrir að haldið verði heilbrigðisþing eigi sjaldnar en fjórða hvert ár og þangað verði stefnt fulltrúum hinna einstöku stétta og þátta heilbrigðisþjónustunnar.

Ennfremur eru lagðar til breytingar varðandi heilsugæslustöðvar og skipan heilsugæsluumdæma. Þannig er lagt til að heimilt verði að ráða fleiri en einn lækni frá H1 stöð og að hægt verði að ráða lækni með aðsetur á H stöð, mæli sérstakar ástæður með slíku. Samkv. gildandi lögum er eingöngu hægt að ráða einn lækni á H1 stöð og ekki gert ráð fyrir lækni á H-stöðvum. Þess ber að geta að með breytingum sem gerðar voru á lögunum fyrir tveimur árum var sett inn ákvæði er heimilar ráðningu aðstoðarlækna við H1 stöðvar. Hefur sú heimild verið nýtt við nokkrar stöðvar hluta úr ári. Hér er því í sjálfu sér ekki verið að kveða á um breytingar, er hefðu í för með sér verulegan kostnaðarauka, heldur eingöngu að það standist lögum samkvæmt að hægt sé að fjölga heilsugæslulæknum á H1 stöð.

Hvað snertir breytingar á heilsugæsluumdæmum er lagt til að í Grundarfirði verði H1 stöð í stað H stöðvar, á Eskifirði verði H2 stöð í stað H1, í Þorlákshöfn verði H1 stöð í stað H stöðvar og í Grindavík verði H1 stöð í stað I1 stöðvar. Ennfremur er lögð til formleg stofnun H stöðva á Hofi í Öræfum, á Stokkseyri og I Vogum á Vatnsleysuströnd. Hér er um að ræða staði þar sem læknamóttaka hefur verið fyrir hendi.

Ein allveigamikil breyting í frv. felst í því, að lagt er til að sjúkraþjálfarar verði ráðnir til starfa við heilsugæslustöðvar og verði þannig starfsmenn ríkisins eins og læknar, hjúkrunarfræðingar og ljósmæður. Fyrir þessu eru allgild rök, en þau eru helst hin brýna nauðsyn að færa sjúkraþjálfun sem mest út í héruðin til ótvíræðs hægðarauka fyrir þá sem þessarar þjónustu þurfa að njóta, en þörfin fyrir þá þjónustu er óumdeild. Þessi breyting mundi ekki fela í sér að sjúkraþjálfarar yrðu skilyrðislaust ráðnir við allar heilsugæslustöðvar, heldur eingöngu við þær stærstu, og allt samkv. nánari ákvörðun ráðuneytis og fjárveitingaryfirvalda að sjálfsögðu. Óhætt mun að fullyrða að sú stefna að reka sjúkraþjálfun í tengslum við heilsugæsluna mundi, þegar fram liða stundir, leiða til sparnaðar í sjúkrahúsakerfinu, því að ella yrði slík þjónusta rekin á sjúkrahúsunum sjálfum í enn ríkari mæli.

Í frv. er að finna ítarleg ákvæði um störf framkvæmdastjóra sjúkrahúsa og forstjóra ríkisspítalanna. Í frv. er sérstaklega fjallað um sjúkraflutninga þannig, að settar verði reglur um framkvæmd og skipulagningu þeirra með hliðsjón af hverju umdæmi og sérstöðu þess, og að þar skuli kveða á um lágmarksmenntun sjúkraflutningamanna, réttindi þeirra og skyldur svo og um búnað flutningstækja.

Ég ætla ekki að fjalla lengur um það sem kalla mætti meginefni frv. Ég tók það fram í upphafi að ég gæti um þessa þætti ekki síst til upprifjunar fyrir hv. þdm.

Nefndin flytur nokkrar brtt. eins og ég hef þegar getið um. Má segja að hluti þeirra sé til orðinn vegna ábendinga sem fram komu í umsögnum um frv. Ég held að rétt væri, herra forseti, að ég færi aðeins yfir þessar brtt.

Fyrst er brtt. við 2. gr. Við leggjum til að í stað sérstakrar nefndar, sem starfi til hliðar við landlækni til þess að sinna kvörtunum eða kærum er varða samskipti almennings og heilbrigðisþjónustunnar, starfi nefnd þriggja aðila og að landlæknir verði formaður hennar. Hæstiréttur tilnefni tvo menn, annan embættisgengan lögfræðing, og skal hvorugur þeirra verða starfsmaður heilbrigðisþjónustunnar. Á þennan hátt mundi nefndin fá öll slík mál til meðferðar án nokkurs millistigs. Vert er að benda á að landlæknir hefur ítrekað farið þess á leit að fá einhvers konar ráðgjafarnefnd sér við hlið. Með því að koma upp sérstakri nefnd til hliðar við landlækni, sem í sjálfu sér er góðra gjalda vert, er í reynd verið að kveða á um tvenns konar meðferð. Viðbúið er að landlæknir mundi vísa a. m. k. nokkuð mörgum málum beint til slíkrar nefndar án þess að taka afstöðu til viðkomandi mála. Að okkar dómi er því eðlilegast að landlæknir taki frá upphafi þátt í afgreiðslu mála og málin séu eingöngu í höndum þessarar nefndar. Þessi nefnd mundi fara með vald í þessum málum svo sem landlæknir hefur gert hingað til.

2. brtt. varðar 4. gr. frv., en 4. gr. fjallar um það að heilbrigðismálaráð héraðanna annist ekki skipulagningu á starfi ríkisspítalanna. Við leggjum til að greinin verði felld niður. Við teljum óeðlilegt að taka nokkrar af stærstu heilbrigðisstofnunum landsins undan starfssviði heilbrigðismálaráða. Yrði það gert mundi reynast örðugt eða ómögulegt fyrir heilbrigðismálaráðin að starfa í samræmi við þau fyrirmæli sem er að finna í lögum um starfsemi þeirra. Vert er að benda á að betra skipulag á uppbyggingu heilbrigðisstofnana og bætt áætlanagerð hefur um langt skeið verið eitt nauðsynlegasta keppikeflið á sviði stjórnunar heilbrigðismála hér á landi.

Í 3. brtt. leggur nefndin til orðalagsbreytingar á síðustu mgr. 9. gr. frv., þannig að skýrt kom fram að sjúkraliði, sem gegnir störfum á heilsugæslustöð, starfi ekki sem hjúkrunarfræðingur eða ljósmóðir, þar sem þar er um lögvernduð starfsheiti og störf að ræða.

Í 4. brtt. er lagt til að 10. gr. falli niður. Við teljum að greinin sé óþörf þar sem þessi ákvæði eru að stofni til í lögum um skipan opinberra framkvæmda. Auk þess telur nefndin vafasamt að hægt sé að binda hendur fjárveitingavaldsins fram í tímann eins og raunar er lagt til í þessari grein.

5. brtt. hljóðar um þær breytingar á 11. gr. frv. að á heilsugæslustöð eða í tengslum við hana skuli, auk þeirrar þjónustu sem þar er talin upp, veita hjúkrunarþjónustu, sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun. Þetta er í samræmi við það sem lagt er til í öðrum greinum frv., að öðru leyti en varðar iðjuþjálfun, en telja má sjálfsagt að byggja upp iðjuþjálfun á heilsugæslustöðvum. Ennfremur er lagt til að undir heilsuvernd, eins og hún er skilgreind í lögum og í frv., verði felldar ónæmisvarnir.

Nefndin gerir ennfremur þær brtt. við 15. gr. að fellt verði niður hugtakið heilsugæslusjúkrahús, sem nefndin telur villandi, þar sem heilsugæsla er sú starfsemi samkv. lögunum sem rekin er utan sjúkrahúsa. Þess í stað leggur nefndin til að almennt sjúkrahús sé það sjúkrahús sem hefur á að skipa sérfræðingum í handlæknisfræði, lyflæknisfræði eða heimilislækningum og tekur við sjúklingum til rannsókna og meðferðar og hefur einnig aðstöðu til vistunar langlegusjúklinga. Breytingin er fólgin í því, að það sem kallað er heilsugæslusjúkrahús í frv. verði í reynd almennt sjúkrahús, og þar sé ekki nauðsynlegt að eingöngu starfi sérfræðingar í handlæknis- eða lyflæknisfræðum heldur og í heimilislækningum.

Ennfremur er lögð til sú breyting að vinnu- og dvalarheimili taki fatlað fólk til vistunar, auk þeirra sem þar eru upp taldir, þ. e. fatlaðir verði teknir til dvalar eða starfs.

Nefndin leggur til þær breytingar við 16. gr. frv. að fellt verði niður orðið „samstjórn“, þar sem greinin sem slík sé allt of opin og engum skilyrðum bundið hvernig ráðh. getur komið slíkri samstjórn á. Þess í stað leggur nefndin til að ráðherra geti með reglugerð kveðið á um samvinnu sjúkrahúsa í landinu að höfðu samráði við Samband ísl. sveitarfélaga.

Lagðar eru til þær breytingar við 20. gr. að felldur verði niður 2. tölul. 30. gr, í þeim búningi sem hann er í frv., en þess í stað verði haldið í það ákvæði sem er í gildi. Ennfremur leggur nefndin til að 30. gr. 5. tölul. eins og nú er gildandi í lögum verði áfram í lögum. Auk þess eru gerðar lagfæringar á greininni hvað snertir tölusetningu mgr.

Þær breytingar eru gerðar við 23. gr. frv. að felld eru niður ákvæði um framkvæmdir og hvernig að þeim skuli staðið varðandi sjúkrahúsbyggingar. Helst þetta í hendur við brottfall 10. gr. frv., sbr. það sem áður segir. Að öðru leyti er greinin óbreytt nema töluliðirnir eru lagfærðir, en á þeim eru misfellur í frv.

Við ákvæði til bráðabirgða gerir nefndin þær brtt. að starfa megi eftir lögum nr. 44/1955, sbr. lög nr. 28/1957 um heilsuvernd, á þeim stöðum sem það er gert í dag til ársloka 1984 í stað 1983, þar sem vafasamt sé að sá frestur sé nægilega langur. Ennfremur leggur nefndin til að skýr ákvæði komi inn í ákvæði til bráðabirgða þess efnis að frá og með árslokum 1984 verði lög um heilsuvernd að fullu úr gildi gengin.

Herra forseti. Ég þykist hafa a. m. k. í stærstu dráttum gert grein fyrir þeim brtt. sem fluttar eru í einu hljóði af n. Ég skal sjálfur viðurkenna að mér sýndist, þegar við fengum þetta frv. í hendur á liðnu hausti, að af því mundi leiða, ef að lögum yrði, svo mikinn kostnað að ekki væri stætt á að fylgja því eftir hér í þinginu. Að betur athuguðu máli virðist svo sem kostnaðurinn verði ekki eins mikill og upphaflega hafði verið ráð fyrir gert samkv. umsögn fjárlaga- og hagsýslustofnunar. Hér er um margar þarfar breytingar að ræða í þessu frv. Heildarkostnaður samkv. endurskoðun gæti hugsanlega numið á bilinu 10–12 millj. í stað verulega hærri fjárhæðar er tíunduð var í umsögn fjárlaga- og hagsýslustofnunar. Að vísu ber að taka til greina í slíkum kostnaðaráætlunum hversu hratt er gengið til þess verks að framkvæma þessi mál ef að lögum verða.

Að síðustu: Þetta er samkomulagsmál. Við leggjum að sjálfsögðu til að þessar brtt. nái fram að ganga og frv. verði samþykkt. Helgi Seljan skrifar undir nál. með fyrirvara og mun hann gera grein fyrir sínum fyrirvara hér. Jafnframt munu aðrir nm. vafalaust tjá sig eitthvað í þessu máli.