02.03.1983
Efri deild: 53. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2411 í B-deild Alþingistíðinda. (2165)

205. mál, tóbaksvarnir

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um tóbaksvarnir. Frv. er stutt, en tekur á flestum þáttum þessa máls, bæði yfirstjórn, sölu og auglýsingum á tóbaki, takmörkun á tóbaksreykingum og fræðslustarfsemi. Svo eru loks almenn ákvæði, eftirlit og viðurlög.

Í 1. gr. frv. segir að markmið laganna, ef samþ. verða, sé að draga úr tóbaksneyslu og þar með því heilsutjóni sem hún veldur og vernda fólk fyrir áhrifum tóbaksneyslu.

Í 2., 3. og 4. gr. er nánar skýrt hvert sé hlutverk þessara laga, ef þau verða samþykkt, en í 5. gr. segir að ráðh. skipi tóbaksvarnaráð til fjögurra ára í senn. Í ráðinu eigi sæti þrír menn, og skulu a. m. k. tveir vera sérfróðir um skaðsemi tóbaks eða tóbaksvarnir. Hlutverk tóbaksvarnaráðs verður að vera ríkisstj., heilbrh., heilbrigðisnefndum, Hollustuvernd ríkisins og öðrum opinberum aðilum til ráðuneytis um allt er að tóbaksvörnum lýtur.

Í þessari grein segir og að fjmrn. eigi að hafa samráð við tóbaksvarnaráð um stefnumörkun varðandi innflutning og verðlagningu tóbaks. Þá segir þar, að tóbaksvarnaráð eigi að hafa samvinnu við Hollustuvernd ríkisins, en í upphaflegri gerð þessa frv., þegar það kom frá nefndinni á sínum tíma, gerði hún ráð fyrir að tóbaksvarnaráð væri sjálfstæð stofnun með sjálfstæðan fjárhag og starfslið. Við breyttum því þannig í ríkisstj., að þetta verði nefnd sem starfi í nánu samráði við Hollustuvernd ríkisins.

Í 6. gr. er fjallað um sölu og auglýsingar á tóbaki. Þar segir að tóbak megi því aðeins hafa til sölu eða dreifingar að skráð sé aðvörun um skaðsemi vörunnar á umbúðir hennar og tóbaksframleiðendur eða umboðsmenn þeirra standi straum af kostnaði við merkingar samkv. þessari grein.

Í 7. gr. segir að hvers konar auglýsingar á tóbaki séu bannaðar hér á landi.

Í 8. gr. segir að tóbak megi ekki selja einstaklingum, sem eru yngri en 16 ára, og bannað sé að selja tóbak úr sjálfsölum.

Í III kafla frv. er fjallað um takmörkun á tóbaksreykingum og hvernig henni verði best háttað. Þar er lagt til í 9. gr. að stöðva megi tóbaksreykingar í húsnæði stofnana. fyrirtækja og annarra, þar sem almenningi er ætlaður aðgangur í sambandi við afgreiðslu eða þjónustu, sem þessir aðilar veita. Þetta gildir þó ekki um veitinga- og skemmtistaði. Um þá eru sérstök ákvæði í þessu frv. Einnig segir í greininni, að þar sem tóbaksnotkun sé óheimil skuli það gefið til kynna með merki eða á annan greinilegan hátt.

Í 13. gr. segir að tóbaksnotkun sé óheimil í almenningsfarartækjum sem rekin eru gegn gjaldtöku.

Í grg. frv. kemur það fram að það er samið af nefnd sem ég skipaði 27. mars 1980. Hefur málið verið alllengi til meðferðar og til umsagnar hjá fjölmörgum aðilum.

Í grg. koma fram upplýsingar um skaðsemi tóbaksreykinga og á hverju þær upplýsingar byggjast. Það kemur til dæmis fram, að árið 1940 var sala á sígarettum hér á landi 450 á mann á ári, en fjöldinn árið 1981 var 1760. Hér er auðvitað um að ræða geysilega breytingu. Það hefur verið orðað svo af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, að tóbaksnotkun eða reykingar séu alvarlegasti „menningarsjúkdómur“ samtímans. Ég tel að stjórnvöldum sé skylt í samvinnu við félagasamtök og aðra, sem þessi mál þekkja og vilja skipta sér af þeim, að gera það sem unnt er til þess að draga úr tóbaksneyslu og þar með því heilsutjóni, sem hún ótvírætt veldur, og að vernda fólk fyrir áhrifum tóbaksneyslu.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.