03.11.1982
Neðri deild: 7. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

55. mál, orlof

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Í efnahagsyfirlýsingu ríkisstj., sem gefin var út í ágúst s.l. í tengslum við útgáfu brbl., var þess getið að ríkisstj. mundi beita sér fyrir því að flutt yrði á Alþingi frv. til l. um lengingu orlofs. Ég mæli nú fyrir þessu frv. og fer fram á það við hv. þd. að sem best samstaða og samkomulag náist um meðferð málsins þannig að afgreiðsla þess náist nú fljótlega.

Frv. tengist beinlínis efnahagsráðstöfunum ríkisstj. með þeim hætti, að eins og kunnugt er gera þær ráð fyrir að verðbætur skerðist á laun 1. des. n.k., en lenging orlofsins hefur m.a. þann tilgang af hálfu ríkisstj. að koma nokkuð upp í þá skerðingu sem þar er kveðið á um.

Frv. er í sjálfu sér einfalt. Það gerir ráð fyrir að orlof verði tveir dagar fyrir hvern unninn mánuð á síðasta orlofsári og reiknist hálfur mánuður eða meira heill mánuður, en skemmri tími telst ekki með. Það telst vinnutími samkv. þessari grein, þótt maður sé frá vinnu vegna veikinda eða slysa, meðan hann fær greitt kaup eða hann er í orlofi. Laugardagar, sunnudagar eða aðrir helgidagar teljast ekki orlofsdagar. Í þessari setningu er sú nýlunda, að laugardagar eru ekki taldir með þegar orlofsdagar eru taldir og í þessu felst jafnframt lenging orlofsins. Orlofsárið er frá 1. maí til 30. apríl og atvinnurekandi skal greiða í orlofsfé 10.17% af launum, en orlof er nú 8,33% af launum.

Í grg. frv. er fjallað nokkuð um þessi mál og gerð grein fyrir því, að þegar með er talinn frídagur verslunarmanna, sem meiningin er að verði lögbundinn frídagur, er hér um að ræða breytingu í kaupi verkafólks sem samsvarar liðlega 2% eða líklega nákvæmlega 2.34%. Þegar frídagur verslunarmanna er talinn með næmi orlof í kaupi samtals 10.67%, en það er 2.34% viðbót við þau 8.33% sem orlofið er nú.

Rökin fyrir þessu frv. eru auðvitað mjög augljós. Almenn vinnuvika verkafólks er nú 40 stundir í dagvinnu, unnin á 5 dögum frá mánudegi til og með föstudags. Laugardagar hafa því um langt skeið ekki talist til almennra vinnudaga hjá þorra verkafólks. Það verður því að teljast fullkomið réttlætismál að laugardagar teljist ekki með þegar verið er að telja frídaga fólks. Það má í þessu sambandi geta þess, að í nýlegum samningum við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja var sá háttur upp tekinn að fella laugardaga út við talningu orlofsdaga. Frv. það sem ég mæli hér fyrir stefnir því einnig að samræmingu lágmarksorlofs hjá öllum launamönnum.

Fyrstu lögin um orlof launafólks hér á landi voru sett árið 1943, en áður höfðu ýmis stéttarfélög haft ákvæði um orlof í samningum sinum, fyrst og fremst ýmis fagfélög. Verkamannafélagið Dagsbrún samdi árið 1942 um orlofsrétt verkamanna og í framhaldi af þeim samningum voru fyrstu lögin sett. Í lögum nr. 16/1943 var ákveðið að orlofsréttur skyldi vera einn dagur fyrir hvern unnin mánuð eða 12 dagar fyrir heilt vinnuár. Orlofsféð var ákveðið 4% af kaupi fyrir dagvinnu, en fyrir yfir-, nætur- og helgidagavinnu skyldi greitt sem um dagvinnu væri að ræða. Strax í þessum fyrstu lögum var gerður greinarmunur á þeim sem voru í föstu starfi og hinum er ekki nutu fastráðningar. Komið var á fót orlofsmerkjakerfi og orlofsmerkjabókum vegna framkvæmda þessara fyrstu laga.

Breyting var gerð á þessum lögum 14 árum síðar með lögum nr. 8/1957. Með þeim var orlofsréttur aukinn í 11/2 dag fyrir hvern unninn mánuð eða í 18 daga á ári miðað við fulla vinnu. Orlofsfé hækkaði í 6% af kaupi eftir sömu reglum og áður.

Næsta breyting verður svo á orlofslögunum árið 1964 með lögum nr. 68 það ár. Með þeim er orlofsréttur aukinn í 13/4 daga eða í 21 dag fyrir heilt orlofsár. Orlofsfé hækkaði þá í 7%.

Fjórða breytingin, sem verður á orlofslögunum frá upphafi, er samkv. lögum nr. 87 frá 1971. Með þessum lögum er orlofsréttur aukinn í tvo daga fyrir hvern unninn mánuð eða í 24 daga fyrir fullt vinnuár. Orlofsfé er hækkað í 81/3 af öllum launum, eins og það hefur verið til þessa.

Með þessum lögum, nr. 87 frá 1971, var orlofsmerkjakerfið lagt niður og lagður grunnur að því innheimtukerfi sem síðan hefur viðgengist gegnum póstgíróstofu Pósts og síma.

Eins og fram kemur í þessu yfirliti hafa ekki orðið miklar stökkbreytingar á þessu tímabili frá því að lögin voru sett fyrst árið 1943 fyrir forgöngu Verkamannafélagsins Dagsbrúnar. Það er hins vegar vert að geta þess um leið og rætt er um orlofsmál hér á landi, hvernig háttað er orlofi í grannlöndum okkar.

Í Svíþjóð er orlofið nú 5 vikur og hefur verið það frá árinu 1978, þ.e. 5 vinnuvikur. Í Svíþjóð er orlof 12% af öllum launum. Í Danmörku er 5 vikna orlof, 5 vinnuvikna, og það hefur verið frá upphafi ársins 1981. Þar mun vera um að ræða 12% orlof af launum. Í Finnlandi er í gildi ákvæði um 5 vinnuvikna orlof, þó þannig að fimmta vikan skuli tekin sem vetrarorlof og tveggja ára starfstími er áskilinn í lögum þar. Í Noregi er gert ráð fyrir því að bæta fimmtu vinnuvikunni við orlofið og það gerist í áföngum á árunum 1982–1985 og hefur fyrsti áfangi komið til framkvæmda. Orlofið þar er 9.9% nú, en það er gert ráð fyrir að það hækki í 12% eða 30 vinnudaga frá og með árinu 1985.

Ég taldi rétt að gera grein fyrir þessu, herra forseti, vegna ummæla sem ég hafði heyrt um að hér sé verið að fara fram af miklu óhófi á Íslandi á sama tíma og menn séu að draga saman seglin. Þegar við skoðum hvernig þetta er í grannlöndum okkar sjáum við að þar er um að ræða lengra orlof en hér, enda þótt kreppan hafi kannske knúið þar enn fastar dyra en hér á landi.

Ég vil geta þess, að það eru dæmi þess að stéttarfélög hafi þegar samið um hærri prósentu en 8.33%. Þar er t.d. um að ræða starfsmannafélagið Sókn, sem mun þegar hafa samið um 9.5% í orlofi.

Herra forseti. Ég tek eftir því að hér hefur verið lagt fram frv. um breytingu á lögum um orlof, sem kveður á um að með reglugerð skuli heilbr.- og trmrh. hækka bætur almannatrygginga um 2% frá 1. des. n.k. auk þeirra hækkana sem leiðir af 79. gr. almannatryggingalaga, með síðari breytingum. Þessi till. á að sjálfsögðu ekki heima með orlofslögum, vegna þess að hér er verið að kveða á um almannatryggingar. Hún ætti þá helst heima í almannatryggingalögum. Í fyrsta lagi vil ég taka fram þá formsástæðu. Hún er ekki stór, en verður engu að síður að hafa hana í huga.

Hina ástæðuna vil ég og nefna, að það er þegar heimilt í reglugerð að hækka bætur almannatrygginga eins og ríkisstj: ákveður á hverjum tíma umfram þá hækkun sem kveðið er á um í 79. gr. almannatryggingalaganna. Það hefur núv. ríkisstj. gert hvað eftir annað og sömuleiðis sú ríkisstj. sem t.d. við hv. þm. Magnús H. Magnússon sátum saman í um skeið. Þannig er í rauninni þarflaust að kveða á um að slíkt geti verið gert með reglugerð. Í till. segir hins vegar, að þetta skuli gert og þar með er verið að leggja þessa lagaskyldu á stjórnvöld. Út af fyrir sig er ekki óeðlilegt þó að sú hugmynd komi upp hér á hv. Alþingi, en ég vil geta þess, að ég hef þegar, fyrir nokkrum vikum, gert ráðstafanir til þess að gefin verði út reglugerð eins og venjulega um hækkun bóta almannatrygginga nú í nóv. og þá verður auðvitað að taka tillit til þeirrar skerðingar sem annars verður á kaupi 1. des. og þess að hún komi ekki jafnhart við ellilífeyrisþega og öryrkja og aðra launamenn. Það verður gert þannig að ég held að till. sé einnig þarflaus.

Ég legg til, herra forseti, að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. félmn.

Þá liggur hér og fyrir hv. Nd. frv. til l. um breyt. á lögum um 40 stunda vinnuviku, sem er fylgifrv. þessa frv. Ég tel ekki ástæðu til að fara um það frekari orðum en ég hef þegar gert í þessari framsöguræðu minni og vænti þess að forseti geti fallist á þá málsmeðferð að því frv. verði einnig vísað til 2. umr. og hv. félmn. án frekari framsöguræðu af minni hálfu.