02.03.1983
Neðri deild: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2414 í B-deild Alþingistíðinda. (2186)

201. mál, vegalög

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er endurflutt, var flutt á 103. löggjafarþingi, 1980–81, en varð ekki útrætt. Í aths. við frv. þá sagði:

„Frv. þetta er flutt til efnda því fyrirheiti sem ríkisstj. gaf í sambandi við launakjarasamninga Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands, að ríkisstj. mundi á yfirstandandi Alþingi leggja fram frv. til l. um breyt. á vegalögum, þess efnis að orlofshúsnæði verkalýðsfélaga yrði undanþegið gjaldi því, sem um ræðir í þessu frv.“

Í 1. gr. frv. segir:

„Undanskildar vegaskatti samkv. 23. gr. eru allar kirkjur, skólahús, þinghús, félagsheimili, vitar og ennfremur orlofsheimili í eigu stéttarfélaga og launþega á svæðum sem sérstaklega eru skipulögð fyrir orlofsstarfsemi.“

Hér er sem sagt um að ræða að orlofsheimilum stéttarfélaga er bætt í upptalninguna.

Hér er frv. flutt nú í því formi sem það var eftir 2. umr. í Ed. á s. l. þingi, en þar var gerð sú breyting, að í stað orðanna í 1. gr. „orlofsheimili í eigu stéttarfélaga, launþega eða starfsmannafélaga“ komi: orlofsheimili í eigu stéttarfélaga launþega á svæðum sem sérstaklega eru skipulögð fyrir orlofsstarfsemi.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv., en legg til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. samgn.