02.03.1983
Neðri deild: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2428 í B-deild Alþingistíðinda. (2193)

213. mál, almannatryggingar

Flm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. á þskj. 384 um breyting á lögum nr. 97/1980, um fæðingarorlof, breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 67 1971, með síðari breytingum. Meðflutningsmenn eru hv. 5. þm. Vestf. og hv. 2. þm. Norðurl. e.

Aðaltilgangur frv. er að breyta núgildandi lögum þannig, að tryggt sé að foreldri sem lögheimili eiga hér á landi eigi rétt á þriggja mánaða fæðingarorlofi, hvort sem um er að ræða fólk í launuðum störfum á vinnumarkaði eða utan vinnumarkaðar, og fæðingarorlofsgreiðslur verði jafnháar til allra fæðandi kvenna, en samkvæmt núgildandi lögum er miðað við 530 221 gkr. á mánuði miðað við 1. des. 1980, sem breytist ársfjórðungslega í samræmi við kaupbreytingar á hverjum tíma. samkvæmt 8. flokki kjarasamninga Verkamannasambands Íslands, efsta starfsaldursþrepi. Þessi fjárhæð var frá 1. jan. s. l. 10 951 pr. mánuð óskert, en hækkaði 1. mars s. l. um 14.74% í 12 565 kr. pr. mánuð eða er 37 695 kr. í þrjá orlofsmánuði.

Í frv. er lagt til að fella úr gildi ákvæði 16. gr. laganna um að miða fæðingarorlofsgreiðslur við vinnustundafjölda með tilheyrandi vottorðum, með þeim afleiðingum að stór hluti fæðandi kvenna fær samkvæmt gildandi lögum aðeins 1/3 hluta orlofsgreiðslu eða 2/3 hluta greiðslu. Í frv. sem hér er lagt fram er gert ráð fyrir að barnsburðarvottorð frá lækni verði nægjanleg sönnunarskylda til greiðslu fæðingarorlofs.

Með lögum um fæðingarorlof, sem samþykkt voru á Alþingi 19. des. 1980 og tóku gildi 1. jan. 1981, var vissulega gerð mikilvæg breyting á lögum um almannatryggingar, þar sem ákveðið var að hverju foreldri með lögheimili á Íslandi verði tryggð greiðsla á fæðingarorlofi. Í athugasemdum með lagafrv. 1980 sagði m. a., með leyfi forseta:

„Tilgangur með fæðingarorlofi er sá að kona fái tækifæri til að ná sér eftir þá áreynslu, sem barnsburður óneitanlega er, en þó er álitinn mikilvægari sá uppeldisþáttur, að foreldri geti annast barn sitt á fyrsta æviskeiði þess. Því er rétti til fæðingarorlofs skipt milli fæðandi móður og uppeldisforeldris sé ekki um sömu aðila að ræða, sbr. 13. mgr. Hins vegar þykir rétt að framlengja fæðingarorlof þegar frekari umönnunar er þörf, t. d. við fleirburafæðingar eða í alvarlegum sjúkleikatilfellum barna, sbr. 11. mgr. Starf móðurinnar getur orðið æði umfangsmikið í slíkum tilfellum. Er því rétt að faðirinn fái tækifæri til að leysa hana af hólmi og hann fái yfirleitt tækifæri til að sinna barni sínu nánar.“

Þegar frv. var til meðferðar hér á Alþingi 1980 gerði ég þær helstar athugasemdir við frv., að óeðlilegt væri að upphæð fæðingarorlofs væri ekki sú sama til allra fæðandi kvenna án tillits til tekna eða beinnar þátttöku á vinnumarkaði, og vísaði þar til aðaltilgangs laganna, sem ég tilfærði hér áður. Ennfremur vísaði ég til þess hrópandi óréttlætis gagnvart heimavinnandi konum sem mætti hafa hér um langt mál. Ég benti einnig á þá miklu skriffinnsku sem fylgja mundi vottorðum og sönnunarskyldu vegna atvinnuþátttöku, sem væri alger óþarfi þar sem barnsburðarvottorð læknis væri að sjálfsögðu aðalatriðið og aðalsönnunin.

Ég féllst á við meðferð málsins hér á Alþingi í des. 1980 að draga til baka þá brtt. sem ég hafði kynnt um málið, þar sem ljóst var að nauðsyn bar til að flýta afgreiðslu málsins fyrir áramótin 1980–1981 í tengslum við samkomulag ríkisstjórnarinnar við launþegasamtökin í landinu, sem lögðu aðaláherslu á málið vegna fólks í stéttarfélögum á vinnumarkaði.

Samkvæmt upplýsingum, sem ég hef fengið frá Tryggingastofnun ríkisins, hafa rækilega komið í ljós þeir erfiðleikar við framkvæmd laganna sem ég benti á í umr. um þetta mál 1980. Það koma sífellt upp deilur um vottorð um atvinnuþátttöku kvenna, þar sem jafnvel 5–10 klukkustundir skipta máli um hvort viðkomandi kona á rétt á 1/3 hluta eða 2/3 hlutum eða óskertum fæðingarorlofsgreiðslum.

Það hafa komið upp deilur og eru deilur um mat á vinnu við ýmis heimastörf t. d., sem unnin eru af konum í tengslum við atvinnu eða opinber störf, svo sem vélritun í heimahúsum, jafnvel kökubakstur, saumaskapur, ýmiss konar heimilisiðnaður, svo eitthvað sé nefnt, hvernig á að meta þetta í klukkustundum, sem skiptir sköpum um það, hvað viðkomandi á að fá háar orlofsgreiðslur. Hvernig á að meta störf kvenna t. d. í landbúnaði? Engar matsreglur eru til um vinnutíma við ýmis slík tilfelli.

Viðkomandi ráðuneyti hefur ekki enn treyst sér til að gefa út reglugerð um þessa flóknu framkvæmd laganna. Í dag ríkir sem sagt margs háttar og flókin vottorðagjöf og skriffinnska og hrópandi óréttlæti varðandi þetta mikilvæga mál.

Mér þykir rétt að geta þess, að utan við gildandi lög um fæðingarorlof standa samkvæmt sérsamningum konur í Bandalagi háskólamanna, konur í Sambandi bankastarfsmanna og konur í BSRB, sem hafa þriggja mánaða óskert kaup í fæðingarorlofi samkvæmt sérsamningum í þessum samtökum.

Þegar lögin um fæðingarorlof voru til meðferðar hér á Alþingi haustið 1980 kom fram nokkuð hörð gagnrýni frá ýmsum félagasamtökum kvenna, sem töldu hrópandi óréttlæti að allar fæðandi konur hefðu ekki sama rétt til orlofsgreiðslu. Það mætti í þessu sambandi endurtaka, sem ég benti á við þær umr. hér í þessari deild (980, þá furðulegu þögn sem var um málið frá ýmsum aðilum, ekki síst jafnréttisráði, forustusveit kvenna í kvenréttindabaráttu. Það vakti athygli við meðferð málsins á Alþingi að frá þessum aðilum heyrðist ekki eitt einasta orð, hvorki með né móti þessu mikilvæga máli. Við sem bentum á þetta óréttlæti við afgreiðslu málsins urðum í minni hluta og við urðum að beygja okkur fyrir yfirlýsingu og samkomulagi, sem ríkisstjórnin hafði gert við kjarasamninga, og þeirri yfirlýsingu, sem lögð var fram frá hendi hæstv. ríkisstjórnar, sem undirrituð hafði verið 2%. oki. 1980.

Aðilar vinnumarkaðarins héldu fast fram að þessi ákveðna breyting ætti fyrst og fremst við konur á vinnumarkaði. Síðan þetta hefur gerst hafa ýmis samtök kvenna látið fara frá sér ályktanir um þetta mál. Ég minni á undirskriftasöfnun meðal samtaka kvenna, undirskriftasöfnun á fæðingardeildum, greinar og erindi í fjölmiðlum og víðar.

Ég get ekki stillt mig um að lesa hér upp úr athyglisverðri grein, sem birtist í Morgunblaðinu 10. febr. s. l., eftir Margréti Matthíasdóttur, þar sem hún ræðir ýmislegt óréttlæti í þjóðfélagi okkar. Með leyfi hæstv. forseta vil ég aðeins grípa niður í þessa ágætu grein. Þar nefnir hún þriðja dæmið í þessu óréttlæti og segir svo, með leyfi forseta:

„Þriðja dæmið, sem mér finnst þó almesta hneykslið. það fjallar um fæðingarorlof. Því er þannig farið, að ef ég el barn í þennan heim, kona sem er húsmóðir og hefur ekki of mikið af peningum, þá væri ég metin þurfa 3 300 kr. á mánuði í þrjá mánuði frá Tryggingastofnuninni.

Vinkona mín, sem ynni úti hálfan daginn til að drepa tímann og hefði þar með fengið úthlutað svolitlum láglaunabótum, hún ætti því pínulítið meira af peningum en ég, hún væri metin þurfandi fyrir 6 600 kr. á mánuði í þrjá mánuði frá tryggingunum.

Önnur vinkona mín, sem ynni úti allan daginn fyrir góðum tekjum og væri auk þess gift hálaunamanni og hefði þess vegna nægt fé milli handa, hún er dæmd þurfandi fyrir 9 900 kr. á mánuði í þrjá mánuði frá Tryggingastofnun ríkisins. Þetta var ákveðið í sölum Alþingis Íslendinga.“

Svo spyr hún: „Hver þessara þriggja kvenna, sem allar væru að vinna sama verk fyrir þjóðarbúið, sem sagt að geta af sér nýjan þjóðfélagsþegn, munduð þið álíta að þyrfti hæstu greiðsluna, sú sem engin laun hefur eða hálaunamanneskjan?“

Fyrir nokkrum dögum birtist einnig í sama blaði áskorun á alþm. um að breyta fæðingarorlofslögum frá 166 konum, bæði konum á fæðingardeild Landspítalans og fleiri. Þar er viðtal við konu, sem er húsmóðir og bóndakona í sveit, og hún segir svo, með leyfi forseta:

„Ég hygg að ég mæli fyrir munn margra með því að halda því fram að með þessari löggjöf sé hlutur heimavinnandi húsmæðra lítils virtur. Það er í rauninni algjör fjarstæða að draga konur þarna í dilka eftir stöðu. Það er réttlætismál að fá þessu breytt, enda snertir þetta stóran hluta íslenskra kvenna. Mér finnst það því ekki stórhöfðinglegt af alþm., þegar þeir semja þessi lög, að flokka konur svona í þrennt. Allar konurnar eru jú að fæða af sér nýja skattborgara fyrir íslenska ríkið og það veit enginn nema það verði betri skattborgarar sem alast upp hjá henni mömmu sinni, sem er heima, heldur en þeir sem alltaf þurfa að vera á dagheimili“.

Og í lok greinargerðarinnar, þar sem hún er búin að rekja vottorðin, vinnustundirnar o. s. frv. segir hún: „Ég skil alls ekki þessa útreikninga. Samkvæmt þeim eru húsmæður aðeins taldar vinna 515 dagvinnustundir eða minna. Það nær ekki tveimur stundum á dag. Ég býst við að fæstar húsmæður skilji þessa útreikninga. Bóndakona fær 2/3 fulls orlofs, það fékkst víst í gegn með einhverjum erfiðismunum, en húsmóðir fær aðeins 1/3 orlofs. Mér þykir þetta alveg fráleitt. Og ég veit það sjálf, hve mikið bóndakonur þurfa að vinna. Þær þurfa að vinna mikið meira en 516–1000 dagvinnustundir á ári. Á meðan heimilið hefur jafnmikið að segja fyrir þjóðfélagið og raun ber vitni, þá á ekki að mismuna konunni sem vill vera heima. Og við vitum hversu mikilvægur skerfur hennar er í uppeldinu.“

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér frá Tryggingastofnun ríkisins, lífeyrisdeild, nam greiðsla fæðingarorlofs árið 1982 76 millj. 468 þúsund og 800 kr. vegna 4 266 fæðinga, sem skiptust þannig samkvæmt ákvæðum laganna:

Í 1. flokki, óskertar þriggja mánaða greiðslur, 2 401 fæðing, sem gerir 55 379 876 kr. Í 2. fl., þær sem fá 2/3 hluta, 853 fæðingar, sem gerir 13 257 293 kr. Í þriðja lagi, þær sem fá aðeins 1/3 hluta, þ. e. heimavinnandi konur, 1 012 fæðingar sem fá 7 831 653 kr.

1. jan. s. l. var fæðingarorlofið sem hér segir miðað við mánuð: Óskert 10 951 kr., til þeirra sem fá 2/3 hluta 7 301 kr. og til þeirra sem fá aðeins 1/3 hluta 3 650 kr.

Herra forseti. Ég skal ekki taka of mikinn tíma. Mér er fullkomlega ljóst að verulegt fjármagn þarf til að jafna þennan mun. Ég hef reynt þessa dagana að fá nákvæmar upplýsingar um það, hvernig fjárstreymið til lífeyrisdeildar Tryggingastofnunar ríkisins, miðað við 20 gr. laganna, kemur inn til Tryggingastofnunarinnar frá atvinnurekstrinum. Eins og allir vita greiða atvinnurekendur 2% af greiddum vinnulaunum í lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins, en ríkið fjármagnar á móti. Því miður hefur ekki tekist að fá þessar upplýsingar nákvæmar. Það kemur inn á það, sem áður hefur verið rætt hér, að ákaflega erfitt er að fá nægjanlega greið svör við því hvernig fjárstreymið er bæði inn og út úr þessari. mikilvægu stofnun okkar, Tryggingastofnun ríkisins. Þar af leiðandi er ekki hægt að gera sér grein fyrir því hvernig þessi mál standa í raun og veru hvað afmarkaðar fjárhæðir varðar.

Hér er um að ræða réttlætismál, sem er út af fyrir sig stórmál, ekki síst hvað varðar viðurkenningu á réttarstöðu heimavinnandi móður. Hér er um að ræða mál sem að mínu mati hefur þýðingarmikið gildi fyrir uppeldi barna, sem aldrei verður metið til fjár. Það væri full ástæða til að taka upp í þjóðfélaginu umræður sem eingöngu snerust um heimavinnandi konur, hlutverk þeirra, húsmæðranna, sem uppalenda barna okkar og gildi fjölskyldulífs yfirleitt. Þetta er mál sem þarf að taka miklu fastari tökum og ræða miklu meira opinskátt manna á meðal en gert hefur verið til þessa.

Ég get ekki stillt mig um í þessu sambandi að nefna í leiðinni að það væri á vissan hátt hægt að rökstyðja það að þessi leiðrétting á fæðingarorlofi gæti ef til vill dregið úr fóstureyðingum hér á landi. Á s. l. ári voru framkvæmdar um 600 fóstureyðingar á Íslandi. Það er vissulega óhugnanlega há tala í okkar litla þjóðfélagi. Félagslegar aðgerðir. sem dregið gætu úr þessari óheillavænlegu þróun, eru af hinu góða.

Í sambandi við það kemur einnig upp í hugann að fjöldi fólks er á biðlista ár eftir ár eftir því að fá að ættleiða börn erlendis frá. Félagslegar aðgerðir eins og hér er um að ræða, jafnt til allra fæðandi kvenna, gætu vissulega orðið til að fjölga fæðingum hér á landi og leysa ef til vill að einhverju leyti það vandamál, sem hér er nefnt.

Það er skoðun mín, að þriggja mánaða fæðingarorlof með óskertri greiðslu til allra fæðandi mæðra hafi heillavænlega þýðingu fyrir heilbrigt fjölskyldulíf hér á landi. Því skora ég á hv. alþm. að veita þessu máli brautargengi á yfirstandandi þingi.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.