02.03.1983
Neðri deild: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2432 í B-deild Alþingistíðinda. (2194)

213. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, er nauðsynlegt að það sé rifjað upp, að þegar ákvörðun var tekin um fæðingarorlof fyrir fáeinum árum var þar um að ræða mjög stórt og þýðingarmikið skref til réttarbótar og félagslegra framfara í þessu landi, sem kostaði verulega fjármuni. Ég minnist þess, að þegar ég flutti um það tillögu í ríkisstjórninni á sínum tíma að ríkisstjórnin stæði að því að fæðingarorlof yrði tekið upp þótti mönnum nóg um kostnaðinn í fyrstu, enda er það auðvitað ljóst að kostnaður við framkvæmd þessa er verulegur. Það verða engar félagslegar úrbætur tryggðar í landinu öðruvísi en að menn séu tilbúnir að greiða kostnaðinn af þeim umbótum. Það verður hins vegar ekki gert nema með því að menn afli til þess skatta eða spari annars staðar fyrir þessum umbótum. Þetta vil ég leggja áherslu á og minna á. herra forseti, að ekki er um að ræða fyrst og fremst að ágreiningur hafi verið um það hér í hv. Alþingi hvort vera ætti meiri réttur eða minni, heldur hefur það ekki verið þannig að menn væru tilbúnir að afla aukins fjár til að kosta þessi auknu mannréttindi, sem hér er verið að tala um, og það er auðvitað grundvallaratriði.

Í sambandi við þetta mál er einnig nauðsynlegt að það verði rifjað upp, að þegar fæðingarorlofið var ákveðið var það fyrst og fremst hugsað sem orlof frá vinnu þannig að móðirin sérstaklega gæti verið lengur frá atvinnu úti á hinum almenna vinnumarkaði hjá barni sínu. Þetta var grundvallaratriðið. Það var þess vegna sem menn sögðu sem svo: Kona sem vinnur heima og er yfirleitt heima hefur auðvitað talsvert aðrar aðstæður en hin, sem er og verður að vera úti á vinnumarkaðinum. Þess vegna var fyllilega eðlilegt að byrja á að tryggja réttindi þeirra kvenna sem voru úti á vinnumarkaðinum.

Ég held að það sé í rauninni mikið álitamál í þessu efni, ef á að stíga fleiri skref til réttindabóta á þessu sviði, sem er ekki nokkur vafi í mínum huga, hvort á að stíga næsta skref í þá átt að auka greiðslur til þeirra kvenna, sem eru heimavinnandi, eða hvort það á að auka greiðslur til þeirra kvenna, sem eru úti á vinnumarkaðinum, þannig að þær geti verið lengur en þrjá mánuði hjá börnum sínum. Mér finnst að það sé ekkert sjálfgefið mál að við tökum næsta skref í þessu efni eins og hér er verið að tala um. Ég held að það sé nefnilega eitt það brýnasta í okkar samfélagi að við stuðlum að því að mæður geti verið hjá börnum sínum fyrstu mánuðina undanbragðalaust. Einn gallinn á framkvæmd þessara laga, að mínu mati, hjá okkur og í lögunum sjálfum hefur verið sá, að réttur feðranna til að vera hjá barninu hefur verið túlkaður þannig, að hann skerti um leið rétt móðurinnar. þannig að hún skilaði hluta af sínum rétti til föðurins. Það hefur að mínu mati ekki verið nærri nógu gott því að það er auðvitað algjör lágmarkstími að kona geti verið þrjá mánuði hjá barni sínu inni á heimili eftir barnsburð og þurfi ekki að fara út á vinnumarkaðinn á þeim tíma.

Ég held sem sagt að þetta séu grundvallaratriði. sem við verðum hér að ræða, um leið og ég undirstrika að vitaskuld ber okkur að stíga skref í þá átt að þróa þetta áleiðis og okkur ber að taka hugmyndum af þessum toga jákvætt., en við verðum að muna, að til að koma þeim í framkvæmd verðum við að afla til þess fjár. og um það eru hv. flm. mér vafalaust sammála.

Í sambandi við það atriði, sem hv. flm. ræddi sérstaklega, að þetta gæti stuðlað að fækkandi fóstureyðingum, er vonandi að þetta gæti gert það, en hitt er aftur annað. að þó að það séu nefndar háar tölur varðandi fóstureyðingar hér á landi eru fóstureyðingar á Íslandi mun lægra hlutfall en t. d. í grannlöndum okkar, þannig að munar verulega. Ég fór mjög rækilega yfir þessar tölur allar í umr. hér á Alþingi fyrir 1 eða 11/2 ári. Þar kom fram að fóstureyðingar eru hér sem betur fer mun færri en annars staðar. Ég held að við þurfum að gera okkur grein fyrir því og átta okkur vel á því, að eftir að réttur til fóstureyðinga var aukinn með lögum fyrir nokkrum árum fjölgaði þeim vitaskuld fyrst til að byrja með nokkuð frá því sem áður hafði verið, en síðan hefur hlutfall fóstureyðinga verið svipað um nokkurra ára skeið. (Forseti: Nú er forseti farinn að ókyrrast og hefur tekið sleggju sína. Vill hann fresta fundi.)

Já, herra forseti, ég hef senn lokið máli mínu og ætla ekki að tefja þessa umr. neitt, en ég vildi skjóta þessum atriðum að vegna þess að ég kom inn í salinn um það leyti sem hv. frsm. var að ljúka máli sínu. Ég tel að við eigum að fara rækilega og vandlega yfir þetta mál og athuga allar hliðar þess sem best.