02.03.1983
Neðri deild: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2436 í B-deild Alþingistíðinda. (2198)

213. mál, almannatryggingar

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vil minna á það, vegna þeirrar umr. sem hefur farið fram um þetta mál, að þegar lögin voru samþykki 1975 um fæðingarorlof, sem að vísu var þá frv. til l. um breyting á atvinnuleysistryggingum, þá var sett bráðabirgðaákvæði, sem var um það, að fyrir 1. jan. 1976 skyldi ríkisstj. láta kanna á hvern máta mætti veita öllum konum í landinu sambærilegt fæðingarorlof og tryggja tekjustofn í því skyni. Það var sem sagt í upphafi ætlun Alþingis að þetta næði fram að ganga, að allar konur í landinu fengju sambærilegt fæðingarorlof, þ. e. 90 daga samtals.

Nú er komið árið 1983 og ekki hefur tekist að ná þessu marki. Ég tel að það sé kominn tími til að allar konur fái þennan rétt, eins og ætlast var til þegar þetta mál var tekið upp hér á Alþingi.