02.03.1983
Neðri deild: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2440 í B-deild Alþingistíðinda. (2209)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins betrumbæta þær þakkir, sem hv. þm. sem hér var að tala, Birgir Ísl. Gunnarsson, var að flytja, og þakka þeim flm. sem stóðu að flutningi þessa frv.

Ég þekki nokkuð til þess vandamáls sem hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson minntist á í framsöguræðu sinni. Þetta er eitt af þeim málum sem komu upp í umræðum í sambandi við hugsanlegar lagabreytingar til hagsbóta fyrir aldrað fólk á liðnu ári, en þá var, eins og hv. þm. er kunnugt, mikil umræða um málefni aldraðra vegna þess að árið var tileinkað málefnum aldraðra í landinu. Ég vil sem sagt taka undir þakkir hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar til nefndarinnar, sem hafði með málið að gera, og ég vil líka lýsa sérstakri ánægju og þakklæti í garð þeirra fjölmörgu hv. þm. sem höfðu forgöngu um að flytja þetta mál á þingi. Ég tek svo sannarlega undir það með þeim. sem hér hafa talað. að við munum reyna að standa að því að koma málinu sem fyrst áleiðis til Ed. þannig að það verði að lögum.