02.03.1983
Neðri deild: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2441 í B-deild Alþingistíðinda. (2210)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég skal lýsa því strax að ég er því miður ekki nógu vel kunnug þessu frv. og síst af öllu þeim breytingum sem nú hafa verið til umr., en ég treysti mér ekki til að greiða þessu atkv. fyrr en ég fæ svör við nokkrum spurningum og hlýt að gera það með dæmi.

Eftir því sem mér hefur skilist fær hver sá sem orðinn er sextugur, hættir að vinna einhvern tíma á miðju ári, sjálfkrafa helming tekna sinna skattfrjálsan, og nú bið ég fjh.- og viðsknm. að leiðrétta mig ef þetta er vitleysa. Nú er mér fullkunnugt um að fjöldi kvenna og karla í landinu tapar ekki svo miklum tekjum þó að þau hætti að vinna. Þau hafa lífeyrissjóðstekjur sem slaga verulega upp í þær tekjur sem þau höfðu. Ég vil nefna dæmi. Fólk sem komið er á ellilífeyri og hefur einnig lífeyrissjóðstekjur hækkar í mörgum tilfellum í tekjum, t. d. Iðjufólk og aðrir slíkir. Hálauna-ríkisstarfsmenn, svo að við förum nú upp á toppinn, — ég er ekki að segja að það fólk skipti máli, það er ekki svo margt, getur hækkað í tekjum. Og ég hlýt að spyrja: Er það eðlilegt að þetta sé svona sjálfgefið? Ég tel það orka meira en tvímælis. Sannast sagna hef ég töluverða reynslu af undanþágum frá skatti í þessum tilvikum. Ég hef orðið vör við það í mínum störfum að heimildin sem í gildi hefur verið er notuð undantekningarlaust. Það kann að vera rétt, sem hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson sagði hér áðan, að fólk hafi ekki alltaf áttað sig á að þessi heimild væri til, en áreiðanlega í öllum þeim tilfellum sem fólk vissi um hana og fór þess á leit við sveitarstjórnir og ríkisskattstjóra að beiðni um skattalækkun yrði afgreidd, var orðið við því.

Ég skal síst af öllu koma í veg fyrir að frv., sem bætir í einhverju hag aldraðs fólks. nái fram að ganga, en þó held ég að mér beri skylda til, samvisku minnar vegna, að spyrja þessara spurninga, hvort þetta sé ekki of afgerandi, ef menn t. d. lækka alls ekki í launum við það að hætta að vinna. Og ég væri þakklát fyrir að menn mér kunnugri þessum málum svöruðu því, því að ég skal fúslega játa, eins og sjálfsagt kemur fyrir fleiri alþm. en mig, að ég kemst ekki yfir að þrautkanna hvert einasta mál, sem hér kemur í þingsal, og síst af öllu flókin skattafrv., svo að ég hlýt að óska eftir svörum við þessu áður en ég treysti mér til að greiða atkv.