02.03.1983
Neðri deild: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2442 í B-deild Alþingistíðinda. (2212)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil benda á, svo að þessar aths. mínar valdi ekki misskilningi, að allar bætur almannatrygginga eru skattskyldar. Dæmin sem ég tók varða t. d. fólk sem orðið er 67 ára. Það hefur um 5 þús. kr. á mánuði, hygg ég það nálgist núna, í tekjutryggingu og ellilífeyri. Síðan kemur venjulegast lífeyrissjóður stéttarfélagsins, og þessar tekjur samanlagðar eru vissulega hærri en 8 tíma dagvinna í mörgum tilvikum. Ég átta mig ekki alveg á hvort þetta þýðir þá, að bætur almannatrygginga, sem slíkur maður t. d. nýtur, séu eftir sem áður skattskyldar.

Ég viðurkenni að ég er hreint ekki örugg í þessu máli, en ég vil aðeins leyfa mér að vara við að þessu máli sé hespað hér í gegn. Þetta er mjög nýtt mál hér í þinginu. (Forseti: Atkvgr. verður frestað til morguns a. m. k.) Það er gott að heyra það, herra forseti.

Ég vil benda á mér til afsökunar fyrir að vera að þvæla málið hér að þetta er mjög nýtt mál í þinginu, það er 208. mál, og hefur verið afgreitt af óvenjulegum hraða í hv. fjh.- og viðskn., svo að ekki sé meira sagt, þannig að ég óska eftir því að fá að skoða þetta mál, þó ekki sé nema til morguns eins og hæstv. forseti hefur hér tekið fram.