02.03.1983
Neðri deild: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2442 í B-deild Alþingistíðinda. (2214)

158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Frsm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Menntmn. Nd. hefur rætt þetta mál á fundum sínum og leitað umsagna og komist að þeirri niðurstöðu að mæla með samþykki frv., en þrír nm. voru að vísu fjarstaddir.

Ég vil sérstaklega geta um skilning okkar nm. á því hvað felst í skilgreiningunni „ofbeldiskvikmynd“. Í frv. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„„Ofbeldiskvikmynd“ merkir í lögum þessum kvikmynd, þar sem sérstaklega er sóst eftir að sýna hvers kyns misþyrmingar á mönnum og dýrum eða hrottalegar drápsaðferðir.“

Við í menntmn. teljum að þetta orðalag sé nægilega skýrt til þess að það taki til svokallaðra klámkvikmynda. Við teljum að þar sé um misþyrmingar á mönnum að ræða og teljum að slíkar kvikmyndir rúmist innan þeirrar skilgreiningar sem hér er gefin á orðinu „ofbeldiskvikmynd“.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta. Við teljum sem sagt að það sé mjög nauðsynlegt að ákvæði af þessu tagi komi í lög. Reynslan hefur sýnt það. Síðar meir má svo koma við lagfæringum á 1. gr. et þurfa þykir.