02.03.1983
Neðri deild: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2443 í B-deild Alþingistíðinda. (2216)

158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég vildi aðeins að þau sjónarmið kæmu fram við þessa umr., að ég er einn af þeim sem er og vil vera og tel að við eigum að vera ákaflega feimin í öllum slíkum lagasetningum, þar sem verið er að leggja til boð og bönn. Ég undirstrika þó, að mér er fullkunnugt um að hér er átt við mjög sérstakt vandamál, þ. e. að vegna algerra tækninýjunga í því sem kallað hefur verið vídeó hafa komið inn í landið eftirlitslaust og hafa verið sýndar börnum og unglingum kvikmyndir af því tagi að vitaskuld mundu ekki teljast boðlegar undir nokkrum kringumstæðum í tengslum við neitt það sem siðmenning getur kallast. Vegna þessara sérstöku aðstæðna og vegna þess að tæknibylting hefur farið fram má út af fyrir sig leiða að því gild rök, eins og bæði hv. frsm. og hæstv. menntmrh. hafa raunar gert, að hér sé um tímabundna nauðsyn að ræða.

En engu að síður, vegna þess og til undirstrikunar því hvað þessar brautir geta verið hættulegar, og þegar menn eru að setja lög af þessu tagi hafa þeir í huga tilteknar kvikmyndir, margar reyndar, sem eru víst svo andstyggilegar að orð fá vart lýst, mega menn aldrei gleyma að lagasetning af þessu tagi felur í sér hættur. Einhverjir menn, hugarins gamalmenni, sem oft eru, á öllum aldri, fara þá að skilgreina orðið „ofbeldi“ víðar en ætlun er með löggjöfinni þegar hún er sett. Ekki skal ég þó efast um góðan hug eða þá nauðsyn sem vakir fyrir bæði rn. eða starfsmönnum á þess vegum, sem þetta frv. hafa tekið saman, og eins þeim hv. nm., sem fyrir því mæla.

Ég vil skjóta því hér inn, að eftir á að hyggja tel ég að hið háa Alþingi hafi seilst nokkuð langt þegar það ekki alls fyrir löngu setti lög til varnar þjóðsöngnum. Eins og hér kom fram við þá umr.: Hvert erum við þá komin ef við ekki næst förum að setja lög til varnar Passíusálmunum og svo áfram?

En ég viðurkenni þó um leið þetta frv. Þar er verið að taka á tilteknum vanda. Menn hafa tiltekið efni í huga þegar lögin eru sett. Hvergi skal úr því dregið að það er beinlínis viðurstyggilegt, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum. Mundi ég þó telja æskilegt að vandlega væri athugað milli 2. og 3. umr. þessa máls, ef um það næðist samkomulag, hvað hér er verið að fjalla um hættulegt prinsip, þó að það vefjist ekki fyrir nokkrum manni að hin tímabundna nauðsyn er til staðar, hvort ekki sé skynsamlegt einmitt í málum af þessu tagi, að um leið og lögin eru sett sé í þeim ákvæði um að þau vari t. d. til fimm ára, að lögin falli úr gildi að fjórum eða fimm árum liðnum og hv. Alþingi þurfi þá að endurnýja lögin. ef ástæða þykir til.

Við vitum að það er með lögin í landinu eins og félagsmálakerfið í landinu. Það hefur innbyggða tilhneigingu til íhaldssemi og sjálfsvarnar. Við því er út af fyrir sig ekkert að segja. En ég mundi halda að þessi aðferð. sem menn hafa nefnt „sólarlagsaðferð“. eigi nákvæmlega við í máli af þessu tagi, um lög sem eru sett vegna tímabundinnar nauðsynjar. Þó að hér sé orðað, eins og í lögum er, með almennu orðalagi hafa menn tiltekið og ákveðið efni í huga. en þar kemur að ástæður þess að lögin voru sett kunna að gleymast. Eftir stendur lagabókstafurinn kaldur og ber og menn fara að skilgreina hann í nefndum og ráðum og teygja hann býsna langt og miklu lengra en nokkurn tíma var ætlast til.

Ég vildi því mega ræða það við nm. og hæstv. ráðh. milli 2. -og 3. umr.. hvort um það gæti ekki orðið gott samkomulag að einmitt í máli af þessu tagi yrðu þessi lög sett, en jafnframt kveðið svo á í 5. gr. eða gildistökugr. að lögin féllu úr gildi að tilteknum tíma liðnum. en telji menn á þeim tíma og það Alþingi sem þá situr ástæðu til að endurnýja lögin í þessari mynd eða í annarri mynd geri Alþingi það á þessum tíma.

Það kom bæði fram hjá frsm. Halldóri Blöndal og eins hjá hæstv. menntmrh. að hér er ekki verið að setja almennt bann. Við skulum aðeins huga að því um leið hvað ofbeldi er. Hér hafa verið sýndar kúrekamyndir áratugum saman, sem vitaskuld eru ekki ofbeldislausar. Menn eru þó ekki að tala um slíkt. Menn eru að tala um allt annað, eins og öllum er auðvitað kunnugt um. En hér gætum við laganna vegna farið út á hættulegri og aðrar brautir en fyrir þeim, sem lögin setja nú, vakir.

Það er þetta, herra forseti, sem ég vildi koma á framfæri að því er þetta varðar og fá a. m. k. vel athugað á milli 2. og 3. umr., hvort einmitt í lagasetningu af þessu tagi sé ekki skynsamlegt að fara að með þessum hætti.