02.03.1983
Neðri deild: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2445 í B-deild Alþingistíðinda. (2220)

111. mál, Tónskáldasjóður Íslands

Frsm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 380 um frv. til l. um Tónskáldasjóð Íslands, sem hv. þm. Halldór Blöndal, ásamt meðflytjendum frá öllum flokkum, hefur flutt.

Þetta frv. var flutt á síðasta þingi, en náði þá ekki fram að ganga. Inntak þess er að stofnaður skuli Tónskáldasjóður Íslands, sem veita skal framlög til tónsmíða, starfslaun fyrir þá sem að tónsmíðum vilja vinna, en jafnframt til útgáfu íslenskrar tónlistar á hljómplötum, snældum og nótum og til kynningar á íslenskri tónlist innanlands og utan. Gert er ráð fyrir að á fjárlögum hvert ár verði veitt í sjóðinn eigi lægri fjárhæð en sem samsvarar tíföldum meðalárslaunum menntaskólakennara, eins og þau eru á hverjum tíma.

Ég hygg að við þurfum ekki að ræða mikið um nauðsyn þessa máls. Öllum er ljós sú gróska sem verið hefur í tónlistarlífi Íslendinga nú á síðustu árum. Bæði tónskáld og tónflytjendur hafa vakið athygli meðal þjóða sem eiga aldagamla hefð í þeim efnum að baki. Það nægir t. d. að nefna að á s. l. ári var frumflutt ný íslensk ópera, sem vakti verulega athygli, ekki bara hér heima heldur jafnframt erlendis, Silkitromman, eftir Atla Heimi Sveinsson. Fjölmargar þjóðir hafa beðið um að fá þetta verk til flutnings og raunar þá uppfærslu sem sýnd var hér, en ekkert fé er til slíkrar kynningar.

Ég vil benda á að á hverju ári hefur verið varið verulegu fé og þó að margra mati hvergi nærri nógu til svokallaðra listamannalauna. Nú hefur það gerst eftir umræður í mörg ár að úthlutunarnefnd listamannalauna varð sammála um að álykta að þessi heiðurslaun, eins og þau heita nú víst, verði lögð niður. Menn geta hugsað sér hve mikið gagn það er list í landinu að tugir listamanna fá, eins og var nú, 7500 kr. eða 15 000 kr. til að vinna að list sinni. Slík fjárveiting er auðvitað gjörsamlega út í hött og kemur fæstum að nokkru gagni.

Ég vil geta þessa vegna þess að ég vænti þess að hæstv. menntmrh. láti skoða hvort ekki sé rétt að verja þessu fé á annan hátt.

Menntmn. Nd. hefur fjallað um þetta mál, frv. til l. um Tónskáldasjóð Íslands, og hefur orðið einróma sammála um að mæla með samþykkt þess. Hins vegar tókum við ekki eftir þegar við afgreiddum málið, sem var flutt snemma á þinginu, að svo segir í 2. gr.: „Fjárveiting samkvæmt 1. gr. skal í fyrsta sinn veitt í fjárlögum fyrir árið 1983.“ Það er auðvitað óraunhæft að láta það ártal standa þarna. Ég hef rætt við formann nefndarinnar og við höfum orðið ásátt um að nefndin flytji skriflega brtt. við frv. sem hljóði svo:

„1. málsliður 2. gr. verði:

Fjárveiting samkvæmt 1. gr. skal í fyrsta sinn veitt í fjárlögum fyrir árið 1984.“

Ég held að það sé óeðlilegt að gera fjárveitinguna afturvirka þegar gengið hefur verið frá fjárlögum. Ég vænti þess að hv. deild taki þessa breytingu til greina.