02.03.1983
Neðri deild: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2447 í B-deild Alþingistíðinda. (2225)

77. mál, útvarpsrekstur

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Þessu máli var frestað á fundi sem það var rætt á. Þá stóð þannig á, að hæstv. menntmrh. var á Norðurlandaráðsfundi og ég bað um það að hæstv. forseti, sem þá réð ríkjum hér í hv. Nd., frestaði málinu til þess að hæstv. ráðh. fengi tækifæri til að svara fsp. sem ég beindi til hans.

Ég hef þegar flutt framsöguræðu fyrir málinu. Málið er endurflutt. Í fyrra þegar það var flutt í fyrsta skipti flutti ég ítarlega ræðu um málið. Nú er komið í ljós að útvarpslaganefnd, sem hæstv. ráðh. skipaði sjálfur til að endurskoða útvarpslögin, hefur skilað áliti — gerði það í okt. í haust í frv.-formi. Þar er komið til móts við sjónarmið sjálfstæðismanna, en þá vill svo til að frv. kemur ekki fram á hinu háa Alþingi. þótt formaður útvarpslaganefndar sé Markús A. Einarsson flokksbróðir hæstv. ráðh. Síðan gerist það fyrir fáeinum dögum að saksóknari sækir mál á hendur Video-son, en ef ný lög hefðu verið í gildi má ætla að fyrirtæki á borð við Video-son hefði fengið rekstrarleyfi til sinnar starfsemi. Það vekur jafnframt athygli, að aðeins er stöðvuð starfsemi Video-son, en ekki samsvarandi fyrirtækja úti á landi. Ennfremur vil ég láta það koma fram hér og nú, að til mín hafa hringt ýmsir aðilar utan af landi, þar á meðal frá Hellissandi, og bent mér á að ef þetta frv. yrði að lögum gæfist tækifæri til að senda út sjónvarpsefni þráðlaust með miklu ódýrari hætti en gert er með kapalsjónvarpi, enda stendur þannig á á Hellissandi að byggðakjarninn er í þrennu lagi.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð, herra forseti, en ég óska eftir því að hæstv. menntmrh. geri grein fyrir því, hvernig á því standi að frv. það sem hæstv. menntmrh. lét útbúa liggur enn í skrifborðsskúffu ráðh. og hvort ætlunin sé að leggja það fram á hinu háa Alþingi, hvort hann sé sammála efnisatriðum frv. og. ef hann vildi vera svo góður að gera skýra grein fyrir því, hvernig á þessari málsmeðferð stendur.