03.11.1982
Neðri deild: 7. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í B-deild Alþingistíðinda. (224)

55. mál, orlof

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni fyrir ræðu hans þótt í ýmsum atriðum væri hún harla óljós, svo vægt sé til orða tekið. Hann gerir mér upp þá skoðun að ég sé á móti orlofslengingunni, þegar ég hélt því fram að full ástæða væri til að álíta að launafólkið í landinu ætti að hafa rétt til þess í frjálsum samningum að velja á milli þess hvort það vildi fá lengra orlof eða hærri laun, sem er ekki til staðar núna, heldur lengingu orlofs eða minni launaskerðingar, svo að talað sé tungumál sem hv. stjórnarsinnar hljóta að skilja um þessar mundir. Þetta var kjarni málsins en ekki hitt, hvað væri sanngjarnt og eðlilegt.

Ég verð að rifja það upp fyrir hv. þm. að ástæðan fyrir kjaraskerðingunni í sumar — ég veit að hann var fjarstaddur og getur þetta þess vegna vel hafa farið fram hjá honum — að ástæðan fyrir verðbótaskerðingunni var sögð vera sú, að atvinnuvegirnir gætu ekki borgað hærri laun. Og ég fæ það ekki heim og saman hvernig sama hæstv. ríkisstj. — ég er ekki að skamma hv. þm. fyrir þetta — getur þá boðið upp á það að segja að það sé allt í lagi að auka kostnað með öðrum hætti, t.d. með því að lengja orlof.

Mitt sjónarmið stendur óbreytt. Það er það að um þetta eigi að semja í kjarasamningum. Og ég veit að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson fellst á það að óæskilegt sé, jafnvel þótt slíkar kröfur hafi komið fram í viðræðum um kjarasamninga, að löggjafinn grípi til sinna ráða og breyti þessum málum þannig að til útgjalda horfi fyrir atvinnuvegina. Þarna er um að ræða frjáls samningamál á milli launþega og vinnuveitenda. Og við stöndum áreiðanlega saman um það, að slíkir samningar ættu að vera sem allra mest og helst alveg frjálsir og báðir aðilar taka fulla ábyrgð á niðurstöðu slíkra samninga.

En hitt var jafnframt athygli vert, hvernig hv. þm. vék sér hjá því að svara þeirri beinskeyttu spurningu, sem beint var til hans um það, hvort hann styddi brbl. eða staðfestingarfrv. burtséð frá því ákveðna frv. sem hér er til umr. Þetta fékkst hv. þm. ekki til að segja skýrt og klárt. Hann lagði hins vegar mikla áherslu á að þetta yrði að lögum. Eftir stendur þessi stóra spurning: Hvað ætlar hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson að gera ef brbl. verða til umr. og afgreiðslu áður en orlofslögin verða til afgreiðslu hér á þinginu? Það er enginn vandi fyrir hv. þm. að koma í ræðustól og taka undir með okkur í stjórnarandstöðunni um að það sé eðlilegt að spurt sé um hvers vegna brbl. koma ekki fram á Alþingi. Hv. þm. veit nákvæmlega jafn vel og ég að það er ágreiningur innan ríkisstj., milli aðila ríkisstj. og í hans eigin flokki, um ýmis fylgifrv., þar á meðal sérstaklega vísitöluviðmiðunarfrv. Þetta er ástæðan fyrir því að ríkisstj. treystir sér ekki til þess að leggja frv. til staðfestingar brbl. fram á Alþingi. Þetta er ástæðan fyrir þeim töfum sem hafa orðið á framlagningu annarra frv., líklega frv. um láglaunabætur.

Herra forseti. Þótt það hefði vissulega verið ástæða til að fjalla meira um orlofsmálið og mál því tengd, því að það er ekki hægt að skilja þetta frv. frá þeim frv. sem hljóta að fylgja því, þá læt ég hér staðar numið þar sem þingfundartíminn í dag er úti.

Að allra síðustu vil ég þó vekja athygli á því, af því að ferðalög hafa verið hér til umr., að það var athygli vert sem kom fram í ræðu hv. þm. Hann sagði að hv. formaður þingflokks Alþb. hefði hringt í sig til Lúxemborgar og 2–3 klukkutímum síðar hefði verið hringt frá Morgunblaðinu í sama númer. Ég spyr: Hver kjaftaði frá? (Gripið fram í: Símastúlkan hér á Alþingi.)